Pistlar

Gott veður og veiðist vel
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 24. júní 2022 kl. 07:38

Gott veður og veiðist vel

Ansi langt er liðið á júnímánuðinn og hann hefur bara gengið nokkuð vel. Veður hefur verið gott og veiðin góð hjá þeim bátum sem eru að róa – og helst eru það strandveiðibátarnir.

Undanfarin ár hefur ástandið í sjónum verið þannig að lítið hefur verið af þorski og færabátar, þeir sem eru á strandveiðunum, varla náð skammtinum sínum en núna í sumar hefur veiðin gengið mjög vel og allir náð skammtinum sínum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Lítum aðeins á bátana. Í Grindavík er Von ÓF með tíu tonn í fjórum róðrum og mest 3,7 tonn en þetta er mest ufsi og báturinn er ekki á strandveiðum. Hrappur GK 9,9 tonn í fimm og er ufsi líka þar. Sigurvon ÁR 5,4 tonn í fjórum, Sæfari GK 3,9 tonn í þremur og Grindjáni GK tvö tonn í tveimur.

Í Sandgerði hafa yfir 30 bátar verið að landa og ef við skoðum strandveiðibátana þá er t.d. einn minnsti báturinn, Traveller GK, með 4,1 tonn í fimm róðrum en þessi bátur er ekki nema um tvö tonn að stærð, er minnsti báturinn sem rær frá Suðurnesjum og einn af minnstu bátunum sem róa á strandveiðum við Ísland núna 2022. 

Snorri GK er með átta tonn í þremur róðrum og mest af því er ufsi, Gréta GK 7,5 tonn í átta róðrum, Dímon GK 6,4 tonn í sjö, Sella GK 6,4 tonn í sjö, Faxi GK 6,2 tonn í sjö, Sigurörn GK sex tonn í sjö og Stakasteinn GK 5,6 tonn í sex. Allir þessir bátar hafa komist yfir eitt tonn í róðri en nokkuð er um ufsa í aflanum hjá bátunum.

Ef við lítum á stærri bátana þá er Guðrún GK með 11,2 tonn í fjórum og mest 5,3 tonn, þarna er ufsi 9,2 tonn af þessum afla. Önnur Guðrún GK, Guðrún GK 401, er með 7,4 tonn í fjórum róðrum, mest 2,9 tonn og þar er ufsi líka uppstaðan í aflanum. Gola GK er með 7,1 tonn í sjö. Þetta eru bátar sem eru upp að þrettán tonnum að stærð og voru allir að landa í Sandgerði.

Hjá stærstu færabátunuim er Addi Afi GK með 19,3 tonn í fjórum og mest 7,3 tonn, Ragnar Alfreðs GK 14,7 tonn í þremur og mest 6,1 tonn. Hjá báðum er ufsi uppistaðan og báðir að landa í Sandgerði.

Enginn netabátur er á veiðum frá Suðurnesjum og Nesfisksdragnótabátarnir eru allir orðnir stopp en tveir af þeim gerðu fullfermistúr vestur utan við Arnarfjörð. Siggi Bjarna GK kom með 38 tonn í land og Sigurfari GK 63 tonn báðir eftir eina löndun. Þess má geta að Sigurfari GK fór þrjá túra þarna vestur og landaði alls 154 tonnum í þessum þremur túrum. Uppistaðan hjá honum, sem og Sigga Bjarna GK, var steinbítur.

Svo til eini dragnótabáturinn sem er að róa frá Suðurnesjum núna er Ísey EA sem hefur landað 44 tonnum í sex róðrum og mest fimmtán tonnum í róðri en báturinn landar í Sandgerði og er aflinn af bátnum unnin í Hrísey.

Grétar Þorgeirsson er skipstjóri á Ísey EA en hann var í 25 ár skipstjóri á Farsæli GK frá Grindavík sem hann og faðir hans áttu.

Eitthvað ætlar það að seinkast að Sóley Sigurjóns GK fari á rækjuveiðar en togarinn er búinn að vera stopp síðan í mars – en hann er í viðgerð í Reykjavík. Grímsnes GK er á rækjuveiðum og búinn að landa fjórtán tonnum í tveimur róðrum. Grimsnes GK er með sinn eigin rækjukvóta og er aflinn unnin hjá Meleyri á Hvammstanga sem Nesfiskur á.

Nú í byrjun júlí mun báturinn Öðlingur SU koma til Njarðvíkur en þessi bátur er núna 10,99 metra langur og mælist um 21 tonn. Hann er að fara í lengingu og mun vera 14,6 metra langur eftir lengingu og mælast um 30 tonn. Skipasmíðastöð Njarðvíkur mun lengja bátinn og ráðgert er að verkið taki um þrjá mánuði.