Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Góð veiði á handfærum
Gísli Reynisson
Gísli Reynisson skrifar
föstudaginn 20. ágúst 2021 kl. 08:29

Góð veiði á handfærum

Um þetta leyti fyrir tveimur árum síðan var mikið líf í höfninni í Keflavík, því þá var þar makrílinn á fullu og mokveiði.  Í dag er enginn makríll og enginn bátur fór á þá veiðar.

Í staðinn hafa bátarnir verið á handfæraveiðum og núna í ágúst þá hafa bátarnir frá Suðurnesjunum veitt mjög vel á færunum. Á Skagaströnd er t.d Addi Afi GK sem hefur landað 24,5 tonn í 4 róðrum og mest 6,9 tonn.  Guðrún Petrína GK með 20,6 tonn í 4 róðrum og mest 6,3 tonn.  Kvika GK er á Bakkafirði og er búinn að landa 14,4 tn. í 5 og mest 3,5 tonnum. Sandvík KE er í Ólafsvík og hefur landað 10,4 tn. í 4 túrum.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Handfærabátarnir sem landa á Suðurnesjunum eru flestir í Sandgerði og flestir þeirra á strandveiðunum og tveir á ufsanum, nánar um þá hérna neðar. Gola GK er með 1,6 tn. í 2 róðrum,  Óskar KE 4 tn. í 6,  Dóri í Vörum GK 3,5 tn. í 6,  Jói í Seli GK 3,3 tn. í 6,  Alla GK 3,1 tn. í 6, Gréta GK 2,7 tn. í 5,  Fram GK 2,6 tn. í 5,  Sigurörn GK 2,5 tn. í 5 og  Stakasteinn GK 2,4 tn í 4. Allir í Sandgerði, reyndar eru mun fleiri bátar í Sandgerði að landa en þessir sem eru nefndir.

Þess má geta að tveir af þessum bátum sem eru nefndir að ofan eru í eigu skipstjóra sem réru frá Sandgerði í ansi mörg ár, t.d er Gréta GK í eigu Karls Ólafssonar sem var lengi skipstjóri á Haferni KE og síðan Erni KE, báðir á dragnót og Stakasteinn GK er í eigu Hjartar sem var lengi skipstjóri á Njáli RE.

Sæfari GK 2,1 tn. í 4, Daddi GK 1,5 tn. í 4 og Sigurvon ÁR 761 kg. í 1, allir í Grindavík

Síðan eru tveir bátar að mokveiða ufsann á handfærunum. Þetta eru eikarbáturinn Margrét SU sem hefur landað núna í ágúst 17 tn. í aðeins 3 róðrum og mest 7 tonnum í einni löndun og síðan Ragnar Alfreðs GK sem hefur verið skrifað um hérna áður, en hann hefur landað 29,4 tonnum í aðeins 4 róðrum og mest tæp 9 tonn í einni löndun.

Og talandi um ufsann þá er netabáturinn Grímsnes GK byrjaður á að veiða ufsann í net meðfram suðurströndinni og er hann að landa í Þorlákshöfn.  Veiðin byrjar mjög vel hjá honum og hefur báturinn landað um 97 tonnum í 5 róðrum og mest um 24 tonnum í einni löndun.  Af þessum afla er ufsi 87 tonn.

Aðrir netabátar eru í þorskinum og veiðin svo sem allt í lagi. Maron GK er í Sandgerði og hefur landað 30 tn. í 10 túrum og mest 6,5 tonnum. Langanes GK í Njarðvík er með 22 tn. í 11,  Halldór Afi GK í Keflavík með 16 tn. í 11,  Hraunsvík GK í Sandgerði og með 12 tn. í 5 túrum og  Bergvík GK 24 tn. í 9 og mest 5,6 tonn. Guðrún GK 5,2 tn í 2 róðrum.

Dragnótabátarnir eru byrjaðir aftur á veiðum og byrja alveg ágætlega.  Sigurfari GK með 52 tn. í 2 og mest 28 tonn. Benni Sæm GK 25 tn. í 3 og mest 10 tonn og Siggi Bjarna GK 21 tn. í 3 og mest 8,3 tonn.

Og talandi um Benna Sæm GK þá hefur kvótinn á bátnum aukist all svakalega síðan í júní en núna er kominn á bátinn alls um 4400 tonna kvóti. Er þetta aðallega vegna þess að frystitogarinn Baldvin Njálsson GK hefur verið seldur til þess að rýma fyrir nýjum frystitogara sem Nesfiskur er að láta smíða á Spáni. Kvótinn sem var á Baldvini Njálssyni GK var allur fluttur yfir á Benna Sæm GK og verður á honum þar til að nýi togarinn kemur.  Baldvin Njálsson GK hafði veitt núna í ár alls 4369 tonn í 9 löndunum og mest 981 tonni þegar að  hann var seldur.