Pistlar

Ég um mig frá mér til mín
Laugardagur 23. október 2021 kl. 08:50

Ég um mig frá mér til mín

Fjölmargir eru þeirrar skoðunar að mun meira vit sé að hafa persónukosningar til Alþingis í stað þess að kjósa flokka. Aðrir hafa bent á að ýmsir gallar séu á því fyrirkomulagi að kjósa persónur beint en ekki flokka.

Það skiptir engu máli á hvorri skoðuninni þú ert, því nú liggur ljóst fyrir að fólkið sem kemst á lista flokkanna lítur svo á að um persónukosningar sé að ræða. Strax um kosningahelgina var ljóst að talningarmistök höfðu átt sér stað í einu kjördæmi. Að lokinni endurtalningu riðlaðist röð uppbótarþingmanna þannig að sex einstaklingar sem kynntir höfðu verið í fjölmiðlum töpuðu sætum sínum en aðrir sex einstaklingar úr nákvæmlega sömu flokkum komust inn á Alþingi. Enginn flokkur missti sæti og enginn flokkur græddi aukasæti.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einstaklingarnir sem misstu sætin hafa kært kosningarnar. Þeir vilja komast að. Dómarar í kærumálinu eru m.a. alþingismennirnir sem fengu sætin. Merkilegt nokk. Kjósandi á þess eingöngu val að kjósa flokka. Um leið og talningu er lokið, þá er flokkakosningin orðin að persónukjöri. Opinberlega heyrist ekkert frá flokkunum enda tap þeirra ekkert og gróðinn enginn. Bara sex manns í fýlu og sex í sælu. Skiljanlegt enda er þingsæti yfir 100 milljón króna virði á einu kjörtímabili. Engin mætingaskylda í vinnu. Geggjaður díll.

Til að kóróna allt og sýna kjósendum skilning frambjóðenda á flokkakosningakerfinu stökk forystusauður Miðflokksins í Suðurkjördæmi yfir í Sjálfstæðisflokkinn á fimmta degi eftir kosningar. Auðvitað voru kjósendur Miðflokksins að kjósa hann persónulega og prívat. Hann er maðurinn, mátturinn og dýrðin. Amen. Við höfum svo sem séð þetta áður, bara ekki alveg í þessari mynd.

Íslensk pólitík. Engin prinsipp. Engin stefna. Bara eiginhagsmunir. Algerlega óháð stjórnmálaflokkum. Það hafa kjósendur nú fengið að sjá í sinni skýrustu mynd.