Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Pistlar

Auðgum mannlífið!
Föstudagur 24. júní 2022 kl. 07:31

Auðgum mannlífið!

Það er gaman að ferðast um landið okkar. Heimsækja bæi og þorp þar sem tekið hefur verið til hendinni og umhverfið gert aðlaðandi fyrir bæði ferðamenn og þá sem þar búa. Skemmtileg dæmi um þetta eru til að mynda Selfoss og Siglufjörður. Þar iðar mannlífið nánast allan ársins hring og verslun og þjónusta blómstrar sem aldrei fyrr. Báðir þessir staðir eiga það sameiginlegt að einkaðilar með sterka framtíðarsýn tóku sig til og byggðu upp umhverfi sem þeir töldu að myndi laða að ferðamenn. Það hefur gengið eftir. 

Hafnargatan og umhverfið þar í kring hefur þjónað okkur í Reykjanesbæ sem miðdepill á hátíðis- og tyllidögum. Hún hefur verið okkar aðalverslunargata í árabil. Verslun hefur þó átt erfitt uppdráttar í götunni, enda fátt verið gert til að laða að viðskiptavini og ferðamenn. Því þarf að breyta. Vandamál uppbyggingar við verslunarhluta Hafnargötu er að velflestar húseignir þar eru í eign einkaðila sem telja það kannski ekki sitt hlutverk að hafa forgöngu um framtíðaruppbyggingu götunnar. Á meðan svo er getum við ekki búist auknu mannlífi eða aukinni verslun við götuna. Umhverfið býður ekki upp á það. 

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Bærinn getur lagt sitt af mörkum með að fegra umhverið og gert hana að alvöru verslunargötu. Bærinn getur líka búið til hvata fyrir verslunarmenn og eigendur fasteigna í götunni til metnaðarfullrar uppbyggingar. Hvatt eigendur lóða og eigna til að taka höndum saman um að skapa það umhverfi sem verður aðlaðandi fyrir fólk að heimsækja og dvelja í. Á meðan ekkert er gert, og enginn hefur forgöngu um framtíðarsýnina, mun verslun í götunni eiga erfitt um vik og ferðamenn, eða íbúar, beina augum sínum annað. Gerum umhverfi okkar aðlaðandi og auðgum mannlífið.