Völundarhús
Völundarhús

Pistlar

Allt sem er skemmtilegt
Fimmtudagur 30. desember 2021 kl. 21:46

Allt sem er skemmtilegt

Lokaorð Ragnheiðar Elínar Árnadóttur

Það er mjög viðeigandi við áramót að staldra við, skoða árið sem er að líða, strengja heit og spá fyrir um komandi ár. Í áramótalokaorðunum mínum fyrir réttu ári gerði ég einmitt þetta, fór yfir hið „fordæmalausa“ ár 2020 og setti fram „óvísindalegan spádóm“ fyrir 2021. Ég horfði bjartsýn fram á veginn, gaf mér þá forsendu að bólusetning myndi almennt ganga vel, sá fyrir mér að við myndum sjá afraksturinn af þrautseigjunni og að launin yrðu að við gætum komið saman á ný, knúsast og átt eðlileg samskipti við fólkið okkar. Jólin okkar fjölskyldunnar höfðu verið sérstök, frumburðurinn með Covid og við hin í sóttkví. Það þótti fréttnæmt þá og rataði í fjölmiðla.

Í árslok 2021 þykir það hins vegar ekki sérstaklega fréttnæmt að vera í einangrun eða sóttkví um jólin, því miður. Heimurinn allur er enn og aftur orðinn undirlagður af þessari ömurlegu veiru sem virðist hata hátíðir meira en flest annað miðað við hvernig henni vex sífellt ásmegin fyrir jól, páska og verslunarmannahelgar. Hið fordæmalausa 2020 varð fordæmið fyrir 2021, þrátt fyrir að flest allt í óvísindalega spádóminum mínum hefði gengið eftir.

Við áttum samt ágæt tímabil inn á milli, a.m.k. tvisvar var öllum hömlum aflétt og þá var gaman að vera til. Við gátum einmitt gert það sem við höfðum þráð, við héldum veislur, knúsuðumst smá, funduðum í raunheimum og ferðuðumst. Lífið var næstum því orðið eins, nema við vorum aðeins skynsamari en áður, heilsuðumst minna með handabandi, þvoðum okkur meira um hendur og héldum okkur heima ef við vorum slöpp. Ekkert nema gott um það að segja.

En þá að áramótauppgjörinu. Við matarborðið í gær spurði ég eiginmanninn og synina hvað þeim fyndist minnistæðast frá árinu 2021, hvað hefði verið skemmtilegast og hvað leiðinlegt. Ég hugsaði með mér að það væri af nægu að taka – hjá okkur persónulega var þetta viðburðarríkt ár þar sem eldri sonurinn varð stúdent, eldri dóttirin gifti sig, nýtt barnabarn bættist í hópinn, ég fékk nýtt starf sem þýddi flutninga og nýtt líf okkar allra í París, svo fátt eitt sé nefnt. Að að mati frumburðarins var hins vegar minnistæðast og skemmtilegast á árinu „þegar það var ekkert Covid“.  Mér þótti það frekar hallærislegt svar þegar allt þetta sem ég taldi upp og meira til var búið að gerast á árinu en hann útskýrði fyrir mér að almennt hefði hreinlega allt verið svo skemmtilegt í ár þegar það var ekkert Covid, af því að þá hefði verið hægt að gera það sem okkur finnst skemmtilegt.

Það er nokkuð til í þessu en því miður er lífið ekki svona einfalt. Hvað ef þetta verður normið næstu mánuðina og misserin, að alltaf loksins þegar við förum að sjá til lands komi upp nýtt Delta eða nýtt Omicron sem slær okkur til baka? Hvað ef Covid verður viðvarandi um langa hríð – getum við þá aldrei gert neitt skemmtilegt?

Nei, það gengur auðvitað ekki. Ég ætla aftur að leyfa mér að vera bjartsýn fyrir komandi ári og mín óvísindalega spá fyrir 2022 er sú að við munum læra af reynslunni og læra að lifa með déskotans veirunni ef hún sér ekki sóma sinn í að hverfa af braut. Hugum að sóttvörnum, bólusetjum okkur í topp, sýnum almenna skynsemi, gerum það sem við þurfum að gera – en alls ekki hætta að gera skemmtilega hluti!

Og tölum um eitthvað annað en Covid. Tölum um skemmtilega hluti. Ég óska lesendum Víkurfrétta farsæls komandi árs og sendi mínar allra bestu nýárskveðjur frá París.