Stuðlaberg Pósthússtræti

Pistlar

Aflafréttir: Lítill afli á Suðurnesjum í júlí
Föstudagur 31. júlí 2020 kl. 07:28

Aflafréttir: Lítill afli á Suðurnesjum í júlí

Júlímánuður er að verða á enda kominn og myrkur sækir á með sínu fallega sólarsetri. Mánuðurinn er búinn að vera mjög svo rólegur. Í Grindavík, sem er einn af stærstu útgerðarstöðum landsins, var mjög lítið um að vera því bæði Þorbjörn ehf. og Vísir ehf. voru með alla báta sína í stoppi allan mánuðinn. Er það nokkuð merkilegt því ekki einn einasti stóri línubátur var á veiðum allan júlímánuð og gildir þá engu um það hvort báturinn var gerður út frá Grindavík eða annars staðar á landinu.

Það eru reyndar miklar hræringar í útgerðarmálum þessara fyrirtækja í Grindavík og Þorbjörn ehf. hefur t.d. lagt línubátnum Sturlu GK og mun gera út 29 metra togbát í staðinn sem heitir í dag Sturla GK. Það sama er að gerast hjá Vísi ehf. Nánar um það seinna.

Landaður afli í höfnum á Suðurnesjum var mjög lítill. Í Grindavík var landað um 1345 tonnum, reyndar er inni í þeirri tölu 734 tonna löndun sem frystitogarinn Tómas Þorvaldsson GK landaði. Ef hann er tekinn í burtu þá standa eftir 611 tonn sem landað var í Grindavík af bátunum. Hæstir þar voru Áskell ÞH með 193 tonn, Vörður ÞH með 183 tonn og Skinney SF sem er á humri með 167 tonn. Enginn neta- eða dragnótabátur landaði í Grindavík í júlí.

Í Keflavík var engum afla landað nema í lokin en þá kom smávegis af makríl til Keflavíkur og þegar þessi pistill er skrifaður þá er búið að landa í Keflavík 2,8 tonnum, svo til allt makríll. Í Sandgerði var landað 500 tonnum og var það allt af bátum. Landanir voru mjög margar eða alls 274 og var Sandgerði með stærstu höfnunum á landinu í júlí miðað við fjölda landana. Þar var nokkuð góð netaveiði og var Langanes GK hæstur með 112 tonn í 21, Maron GK 82 tonn í átján og Sigurfari GK, sem var á dragnót, með 56 tonn í einni löndun.

Þeir bátar sem voru á ufsaveiðum á handfærunum veiddu ansi vel og hæstur þeirra var Ragnar Alfreðs GK með 24 tonn í aðeins fjórum róðrum og mest um átta tonn sem er nú eiginlega fullfermi hjá bátnum. Birta Dís GK var líka á ufsanum og var með ellefu tonn í fjórum róðrum og var ufsi 8,3 tonn af því.

Sóley Sigurjóns GK er við rækjuveiðar við Norðurlandið og var með 145 tonn í júlí og af því var rækja 88 tonn. Berglín GK, sem var siglt tómri suður til Njarðvíkur vegna óánægju skipverja eftir að Nesfiskur stóð ekki við gerða samninga um laun um borð, er kominn aftur til veiðar og hefur landað fjórtán tonnum í einni löndun.

Pálína Þórunn GK er búin að veiða lítið í júlí. Hefur landað 62 tonnum á Siglufirði en annars lá báturinn á Sauðárkróki í hátt í þrjár vikur. Skipstjórinn á Pálínu Þórunni GK hefur verið nokkuð ánægður með það því að Snorri skipstjóri býr á Sauðárkróki.