Pistlar

Aflafréttir: Framundan er páskaeggjaát og hálfgert letilíf
Fimmtudagur 1. apríl 2021 kl. 07:40

Aflafréttir: Framundan er páskaeggjaát og hálfgert letilíf

Tíminn líður áfram – hmm, finnst eins og ég hafi byrjað nokkra pistla svona áður en jæja, þannig er þetta nú bara. Tíminn líður áfram og einn stærsti netamánuður ársins er að verða liðinn og hann er búinn að vera nokkuð góður – fyrir þessa fáu netabáta sem hafa landað.

Allir bátarnir hans Hólmsgríms hafa verið að landa í Keflavík og Njarðvík og er aflinn samtals um 780 tonn hjá þeim bátum þegar þessi pistill er skrifaður.

Grímsnes GK er með 225 tonn, Langanes GK 197 tonn báðir í 24, Maron GK 153 tonn í 23, Þorsteinn ÞH 86 tonn í fjórtán, Halldór Afi GK 61 tton og Hraunsvík GK 60 tonn, báðir í átján.

Erling KE hefur flakkað yfir í Sandgerði og Grindavík og er búinn að landa 477 tonnum í 26 róðrum. Ef skiptinginn er skoðuð þá hefur Erling KE landað 183 tonnum í sex í Grindavík, 52 tonnum í Sandgerði í þremur og restinni í Njarðvík.

Annars er búið að vera mokveiði hjá togskipunum en þau hafa verið mikið að veiðum utan við Grindavík á Selvogsbanka og hafa t.d. 29 metra togbátarnir fyllt sig á einum til tveimur dögum.

Ef við lítum á bátanna sem hafa landað á Suðurnesjunum þá er t.d. Áskell ÞH með 443 tonn í fimm og Vörður ÞH 436 tonn í fimm, báðir í Grindavík. Pálína Þórunn GK 500 tonn í níu og má nefna að Pálína Þórunn GK landaði 265,4 tonnum í fjórum túrum sem samtals voru aðeins um sjö veiðidagar. Það gerir um 38 tonn á dag. Bestu túrarnir voru um 64 tonn eftir um 36 klukkustundir á veiðum.

Sturlu GK hefur gengið best og er kominn með 653 tonn í ellefu löndunum. Besti túrinn hjá Sturlu GK var 88 tonna löndun eftir aðeins um 36 klukkutíma túr en Sturla GK hefur þrisvar komið með yfir 70 tonna löndun eftir aðeins um 30 til 40 klukkustunda langan túr.

Af stærri togurunum þá er t.d. Sóley Sigurjóns GK með 379 tonn í fjórum, Berglín GK 400 tonn í fjórum og síðan eru það frystitogarnir; Hrafn Sveinbjarnarson GK með 797 tonn, Tómas Þorvaldsson GK 779 tonn, báðir eftir eina löndun, og Baldvin Njálsson GK með 775 tonn í tveimur.

Mjög góð veiði hefur verið hjá dragnótabátunum, þeir hafa allir verið á veiðum undir Hafnabergi. Sigurfari GK er með 209 tonn í fimmtán og mest 29 tonn, Siggi Bjarna GK 202 tonn í fimmtán og mest 24 tonn, Benni Sæm GK 160 tonn í fimmtán og mest 22 tonn, Aðalbjörg RE 107 tonn í tíu og mest fjórtán tonn, Ísey EA 103 tonn í níu og mest sautján tonn en Ísey EA hefur landað í Grindavík og Sandgerði.

Hjá stóru línubátunum er Jóhanna Gísladóttir GK með 499 tonn í fimm, Páll Jónsson GK 420 tonn í fjórum, Fjölnir GK 400 tonn í fjórum, Valdimar GK 344 tonn í fjórum og mest 104 tonn, Sighvatur GK 318 tonn í þermur, báturinn fór síðan í slipp í Njarðvík en kom á flot þegar þessi pistill var skrifaður.

30 tonna línubátarnir eru mikið búnir að vera á veiðum utan við Grindavík en þó líka utan við Sandgerði, tíðarfarið hefur reyndar verið frekar leiðinlegt. Ef við skoðum bátana sem einungis hafa landað í Grindavík þá er t.d. Geirfugl GK með 116 tonn í fimmtán, Óli á Stað GK með 106 tonn í fjórtán, Sævík GK 103 tonn í fimmtán, Daðey GK 80 tonn í þrettán og Katrín GK 40 tonn í átta.

Í Sandgerði er t.d. Margrét GK með 88 tonn í þrettán, Gullhólmi SH með 69 tonn í níu, Dóri GK 48 tonn í þrettán, Steinunn BA 45 tonn í níu og Beta GK 45 tonn í níu.

Framundan er síðan páskaeggjaát og hálfgert letilíf – og stopp hjá flestum ef ekki öllum bátum á Suðurnesjum, ég óska því lesendum gleðilegra páska.