Pistlar

Að gyrða sig í brók
Föstudagur 16. febrúar 2024 kl. 06:00

Að gyrða sig í brók

Heitt vatn rennur nú loksins um veitukerfið á Suðurnesjum. Þökk sé framtakssömum verkamönnum sem lögðu dag við nótt við að leysa flókna stöðu sem upp var komin. Skemmdir vegna heitvatnsleysisins verða væntanlega að koma í ljós fram eftir sumri.

Steini á hótelinu var fyrir löngu búinn að kaupa sér alvöru rafstöð til að halda sínum rekstri gangandi. Forsjáll hann Steini.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Um 30.000 manns þurftu að ferðast um 100 km til þess eins að komast í bað áður en Sporthúsmenn, þeir Ari og Þröstur, fundu lausn við heitavatnsleysi og gátu boðið fólki í heitt bað, sem bæjarstjórinn þáði með þökkum.

Fyrir um 50 árum stofnuðu sveitarfélögin á Suðurnesjum Hitaveitu Suðurnesja. Með árunum var því fyrirtæki skipt um í tvö sem bæði eru nú í einkaeigu. Einkavæðing er í sjálfu sér ekki slæm ef hún færir bæði eigendum og viðskiptavinum ábata. Að eigendur sýni samfélagslega ábyrgð. Í tilviki HS Orku og HS Veitna virðist pottur brotinn.

Eigendur hafa greitt sér tugi milljarða í arð á síðustu árum en brugðist samfélagslegri skyldu sinni að halda þeim kerfum sem þeir bera ábyrgð á í sómasamlegu ástandi. Þegar einkaaðilar bregðast þannig er ekkert annað að gera en taka upp Pútínskar aðferðir og þjóðnýta samfélgslega mikilvæga innviði. Að sjálfsögðu eiga eigendur HS Orku að greiða fyrir varnargarðinn umhverfis orkuverið, nóg er til. Það gengur ekki að einkavæða hagnaðinn en láta samfélagið svo taka áföllin. Eftir situr hins vegar spurningin hvað við ætlum að gera ef orkuverið í Svartsengi fer undir hraun? Það er ekki ólíklegt miðað við spár fræðimanna sem nú spá því að umbrot geti verið á Reykjanesskaganum næstu áratugi. Hugsanlega liggur svarið bara hjá honum Steina. Suðurnesjamenn þurfa að eiga varaaflstöð sem keyrð er áfram á dísilolíu eða er nú möguleiki að gamla góða kísilverslóðin fari að koma að góðum notum. Kynda undir ofninum á gamla mátann og hita vatn.

Það ástand sem kom upp í síðustu viku vekur upp ótal margar spurningar sem leggjast verður yfir og skipuleggja til framtíðar. Þetta má ekki gerast aftur. Bæjarstjórnir á svæðinu verða að taka forystu. Þær bera líka ábyrgð á stöðunni. Kjörnir fulltrúar borgaranna.

Við þekkjum það of vel á Íslandi að fólk er tilbúið að þiggja feita launatékka í opinberum embættum og í einkageiranum fyrir að bera ábyrgð en þegar kemur að því að axla hana er ekkert um efndir.