Mannlíf

Virkni og vellíðan Suðurnesjafólks
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
föstudaginn 18. nóvember 2022 kl. 09:27

Virkni og vellíðan Suðurnesjafólks

Virkniþing Suðurnesja var haldið í fyrsta sinn í Hljómahöll á dögunum en þingið er í raun hátíð á vegum Velferðarnets Suðurnesja. Þar mátti finna framboð á fjölbreyttri afþreyingu, virkniúrræðum og iðju fyrir fullorðið fólk á Suðurnesjum sem kynnt var með skemmtilegum hætti. Yfir þrjátíu félagasamtök, starfsstöðvar ríkis og sveitarfélaga og einkafyrirtæki tóku þátt í hátíðinni.

Hilma Hólmfríður Sigurðardóttir, verkefnastjóri fjölmenningarmála hjá Reykjanesbæ, segir markmiðið með þinginu hafa verið að ýta undir virkni meðal fullorðinna á svæðinu og þar með ýta undir vellíðan. „Það skiptir svo miklu máli að vera virkur einhvers staðar, hér erum við að einblína á fullorðið fólk og þá er ég að tala um átján ára og eldri. Á þinginu getur fólk séð hvað er í boði og hvar er hægt að vera virkur, því það tengist svo vel að vera virkur einhversstaðar og líða vel. Þannig kannski er markmiðið bara að okkur líði öllum vel.“

Það var margt um manninn á þinginu

Hilma segir markmiðið einnig hafa verið að virkja samstarf milli félagasamtaka á svæðinu. Þorvarður Guðmundsson, forstöðumaður Fjölsmiðjunnar á Suðurnesjum, tekur undir með henni og segir þingið hafa opnað augu hans fyrir nýjum tækifærum. „Ég vissi ekki hvað við værum að fara út í en þessi viðburður hefur farið fram úr öllu því sem maður átti von á. Mér finnst rosalega mikilvægt að halda svona þing, vegna þess að ég, sem forstöðumaður, sé tengingar hér sem ég get nýtt mér í minni starfsemi. Það er það sem við þurfum meira af, að vinna meira saman og einstaklingsmiða okkar starfsemi fyrir hvern og einn,“ segir Þorvarður.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024
Hæfingarstöðin kynnti sína starfsemi
FEB var einnig með bás þar sem hægt var að kynna sér þeirra starfsemi
Starfsmenn Fjörheima sögðu frá sínu starfi