Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Vel undirbúin fyrir eldgos
Bogi Adolfsson, formaður björgunarsveitarinnar.
Föstudagur 16. apríl 2021 kl. 16:23

Vel undirbúin fyrir eldgos

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur verið í stóru hlutverki þegar kemur að eldgosinu í Fagradalsfjalli. Tugir sjálfboðaliða sem starfa í sveitinni hafa lagt nótt við dag í vinnu þegar kemur að gosinu. Vinnan hófst reyndar miklu fyrr en aðdragandann að gosinu má rekja allt til janúarmánaðar á síðasta ári þegar lýst var yfir óvissustigi þegar landris varð vestan við fjallið Þorbjörn.

Þarna var Covid ekki komið og bæjarbúum var stefnt á íbúafund í Röstinni þar sem farið var yfir það sem mögulega gæti verið í vændum. Þarna má segja að boltinn hafi farið að rúlla og framundan var mikil vinna viðbragðsaðila og yfirvalda, ýmsar sviðsmyndir teiknaðar upp og áætlanir gerðar. Jarðhræringar skóku Grindavík framan af ári. Svo róaðist ástandið en aftur urðu snarpir skjálftar síðla árs 2020.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Mynd að ofan: Frá íbúafundi í Grindavík í ársbyrjun 2020 þar sem rætt var um landris við Þorbjörn.

Stór jarðskjálfti, skjálfti af stærðinni 5,7 reið svo yfir klukkan 10:05 að morgni 24. febrúar síðastliðins. Sá skjálfti markaði upphafið af því sem síðar kom en skjálftinn var þó hluti af hrinu sem hafi hafist nokkrum dögum áður í Krýsuvík. Skjálftinn varð þrjá kílómetra suð­suðvestur af Keili. Jörð hélt áfram að skjálfa og mælitæki og gervihnettir sýndu kvikugang byggjast upp í stefnunni suðvestur til norðausturs á milli Keilis og Nátthaga. Skjálftarnir skiptu þúsundum og voru svo farnir að telja í tugum þúsunda áður en jarðeldurinn leitaði upp á yfirborð. Lætur nærri að síðasta skjálftahrinan fyrir gos hafi verið um 50.000 skjálftar. Vísindamenn voru nærri lagi þegar þeir töldu mestar líkur á því að gos myndi ná til yfirborðs í Nátthaga. Gosið kom upp svo gott sem í næsta dal, Geldingadölum.

Gosið ekki á óskalistanum

Björgunarsveitin Þorbjörn fékk útkall á tíunda tímanum föstudagskvöldið 19. mars. Óskað var eftir því að björgunarsveitarmenn færu austur í Nátthaga til að athuga hvort þar væri farið að gjósa. Vegfarendur um Reykjanesbraut höfðu séð rauðan bjarma yfir Fagradalsfjalli og hringt í Neyðarlínuna. Lögreglumenn í Reykjanesbæ voru einnig sendir af stað til að staðfesta gos. Vegfarendur gerðu einnig Víkurfréttum viðvart. Á Facebook-síðu blaðsins var greint frá roða yfir Fagradalsfjalli klukkan 21:29. Átta mínútum síðar var sagt að allt benti til þess að gos væri hafið á Reykjanesskaga og svo var greint frá gosinu á vef Víkurfrétta klukkan 21:43.

Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar Þorbjarnar, segir að verkefnið hafi verið risavaxið sem sveitin hafi fengið í hendurnar þetta föstudagskvöld í mars.

– Var þetta á óskalistanum?

„Nei, ekki beint. Það er nú alltaf gaman að sjá eldgos og umbrot en þetta mætti alveg vera í minna magni eða bara búið.“

– Þetta var búinn að vera dálítill undanfari, allir þessir jarðskjálftar. Voruð þið búnir að vera mikið á vaktinni mikið á þeim tíma? Þetta byrjaði náttúrlega fyrir rúmu ári síðan.

„Þetta byrjaði með þessu landrisi og við erum búin að vera í skipulagsvinnu með almannavörnum, lögreglunni og öðrum viðbragðsaðilum í um fjórtán til fimmtán mánuði. Þetta var alveg inni í myndinni, gosið, en hvar það kæmi upp var alltaf spurningin – eða hvort þetta yrði bara stór jarðskjálfti og svo búið. Maður vissi aldrei hvernig leikarnir myndu fara.“

Húsin færðust yfir í næsta fasteignanúmer

– Áttuð þið von á meiri látum þegar gosið kæmi upp?

„Maður bjóst kannski við meiri látum. Ég sagði í gríni við mitt fólk, ég held að það hafi verið sama kvöld, að nú væru komnir 100 metrar í skjálftana og að þetta myndi verða fljótlega – og það stóðst svona nokkurn veginn.“

Jarðskjálftahrinan sem hafði staðið í næstum heilan mánuð áður en það fór að gjósa reyndi mjög á þolrifin hjá Grindvíkingum og raunar öllum íbúum Suðurnesja. Allt skalf og nötraði og margar nætur voru svefnlausar fyrir Grindvíkinga sem voru næst upptökum skjálftana.

– Sum ykkar töluðu um það að það voru svo miklir jarðskjálftar að húsin voru allt að því á fleygiferð bara heilu kvöldin.

„Já, menn töluðu um að þeir sem byggju við húsnúmer 22 væru nú komnir á 22,5 og að húsin væru að færast um fasteignanúmer.“

– Hversu vel undirbúin var sveitin fyrir svona risaverkefni sem opnast á föstudagskvöldi?

„Ég tel okkur nefnilega hafa verið svolítið vel undirbúin fyrir svona verkefni því við vorum búin að vera að safna að okkur vissum græjum og búnaði til þess að sinna svona verkefnum. Gasmælar, grímur og tækjakostur hafið verið uppfærður svona í rólegheitum á meðan þetta var í gangi. Við fórum einnig í gegnum almennt skipulag og endurskipulag og endurskipulag. Þetta er bara búinn að vera svona hringur síðustu mánuði.“

Björgunarsveitin Þorbjörn er búin að vera með um 36 manns í þessu verkefni frá degi eitt. Flesta daga hafa félagar í sveitinni verið starfandi langt fram eftir kvöldi og álagið hefur verið mikið. „Sumir þurfa að vinna en aðrir hafa komast hjá því og þeir hafa því tekið á sig fleiri verkefni fyrir björgunarsveitina – en við höfum reynt að passa hvort annað, að maður sé ekki að fara yfir um í vinnuálagi,“ segir Bogi.

Stóra sleggjan dregin fram

Björgunarsveitin Þorbjörn hefur fengið fleiri björgunarsveitir til liðs við sig. Fyrst voru það hinar sveitirnar á Suðurnesjum en síðan hafa komið björgunarsveitir til aðstoðar víðsvegar að af landinu.

„Já, nú er þetta bara orðið landsátak þar sem, eins og þeir kalla þetta, „stóra sleggjan,“ er bara dregin upp og við erum að fá björgunarsveitir af öllu landinu til þess að koma og hjálpa okkur og þeim sem eru í kringum þetta. Bæði aðgerðastjórnendur og björgunarsveitir, má nefna frá Ísafirði, Vopnafirði og bara öllu landinu. Það er búið að vera frábært að fá að hitta sína félaga og vinna með þeim í stóru verkefni. Þetta er búið að ganga alveg rosalega vel með öllum viðbragðsaðilum, öll vinna og skipulagning.“

– Það hafa ekki orðið nein alvarleg óhöpp, svona miðað við hvað hefur gengið á?

„Við höfum sloppið rosalega vel með það. Þetta er búið að vera svona minniháttar, ökklar og eitthvað svona ofnæmis eða astma, það er allur gangur á því – en jú, við höfum verið heppin með það að það hefur ekki orðið neitt alvarlegt slys ennþá.“

– Í dag er þetta í raun allt annað gos heldur en var hérna á föstudagskvöldið fyrir rúmum þremur vikum?

„Já, þetta byrjaði náttúrulega sem, ég man það orðrétt að það var kallað „ræfillinn,“ og ég held að það hafi tekið þetta til sín og ætlað að sýna okkur það að þetta væri náttúrlega enginn ræfill. Nú eru komnar fjórar gosrásir í raun og veru á sömu sprungunni – og búið að dreifa sér svolítið, sem sýnir af hverju við erum að vakta þetta svæði og fylgjast með fólki. Það er einmitt út af þessum óútreiknanleika.“

Verkefnið gengið vel

– Og þið voruð með nýjar áætlanir sem þið höfðuð verið að teikna, fóru þær þá bara út um gluggann?

„Sko, við héldum að þetta væri að detta í bara hálfgerða sjálfvirkni, bílastæðin væru komin, þetta væri bara fínt, allt að ske – en svo bara kemur náttúrlega ein stöðin og svo kemur hin. Sprunguna á milli var í rauninni bara fínt að fá því þá er ekkert verið að labba á milli og þetta svona blokkar svolítið fólk af. Þannig að það var eiginlega bara fínt.“

Gæsla á gosstöðvunum hefur gengið vel miðað við þá gríðarlegu aðsókn sem hefur verið að svæðinu í Fagradalsfjalli. Tugir þúsunda hafa lagt leið sína gangandi á fjallið. Eitthvað er um að fólk láti sér ekki segjast og taki leiðbeiningum ekki vel en það er mjög lítill minnihluti. Þá hefur fólk verið að örmagnast í göngunni af fjallinu og þurft aðstoð björgunarsveita við að komast að bílastæðum við Suðurstrandarveg. Það þarf fjallgöngu til að komast að gosstöðvunum en stikaðar hafa verið gönguleiðir sem síðustu daga hafa verið breytilegar, bæði vegna loftgæða við gosið og einnig hefur verið unnið nýtt hættumat fyrir svæðið þar sem óttast er að fleiri gosrásir geti opnast, bæði í Geldindadölum og einnig lengra í norðaustur og nær Keili.

„Ég held að það hefði ekkert verið hægt að ráða neitt betur við þetta heldur en var gert. Við hefðum aldrei komið öllum þessum bílum fyrir neins staðar og þetta var allt orðið stappað,“ segir Bogi þegar rætt er við hann um fyrstu dagana við gosstöðvarnar. Hálfgerður umferðarhnútur varð við Grindavík fyrstu dagana, þétt var lagt við Grindavíkurveginn fyrstu helgina og þá mátti minnstu muna að illa færi þegar göngufólk lenti í hrakningum á torfarinni leið úr Svartsengi og að eldgosinu.

– Það er raunar fáránlegt af mér að spyrja þig núna hvernig þú haldir að framhaldið verði. Þú getur ekkert svarað því, er það?

„Nei, þetta er bara góð spurning. Þetta verður tíminn bara að leiða í ljós. Hver dagur er bara nýr dagur.“

Sjálfboðaliðar í mikilli vinnu

– En talandi um ykkur hérna, þið eruð bara sveit sjálfboðaliða.

„Jú, samtökin, Slysavarnafélagið Landsbjörg, eru náttúrlega bara sjálfboðaliðar og starfa undir lögreglunni, sem er ábyrgðarsviðið og við náttúrulega bara vinnum með þeim. Þeir eru ákvörðunarvaldið og við aðstoðum við skipulag og vinnu eftir fremsta megni, svo þróast þetta bara dag frá degi. Hvort það þurfi meira eða minna af fólki og þetta er bara dálítið lifandi skjal.“

– Hvernig sérðu skipulagið og mönnun á þessu ef þetta heldur áfram í lengri tíma, ég veit ekki hvort ég á að segja vikur eða mánuði eða lengur? Eru menn farnir að rýna í það?

„Það er eitthvað byrjað að horfa í það en ég held að það sé of snemmt að fara að setja eitthvað fast niður á blað því að við vitum ekkert hvað þetta gerir. Kannski er þetta bara stopp svona eða þá kemur eitthvað meira, maður veit aldrei.“

– Þetta gos er að mörgu leyti gott, þetta er rosaleg auglýsing fyrir Reykjanesið og hvað sem verður um gosið að þá er ljóst að þetta mun hjálpa til í einhverjum málum?

„Já, þetta verður ferðamannaperla að lokum.“

– Hvort sem það slökknar á þessu og hvenær sem það gerist.

„Já en svo bara held ég að allir Íslendingar séu búnir að sjá þetta. Það hlýtur bara að vera.“

Allra augu á gosinu

– Það hafa líka verið vefmyndavélar á þessu og gríðarlega mikið fjallað um þetta.

„Já og þessar vefmyndavélar, eins og frá RÚV og mbl.is sem eru alveg við gosstöðvarnar, eru búnar að hjálpa okkur rosalega mikið. Sjónarhorn sem við annars hefðum ekki. Þar er líka gott samstarf milli fjölmiðlafólks og viðbragðsaðila sem er að svínvirka líka.“

Þó svo Víkurfréttir hafi ekki vefmyndavél á gosstöðvunum þá var sett upp myndavél í höfuðstöðvum blaðsins og henni beint að Keili og svæðinu milli Keilis og Fagradalsfjalls þegar það svæði var „heitasti“ staðurinn fyrir byrjun eldgoss. Myndavélin vakti heimsathygli og heimsóknir í streymi frá vélinni voru samtals ein milljón innlita þá daga sem myndavélin var virk en hún hóf útsendingar í byrjun mars, rúmum hálfum mánuði fyrir gos. Gosið kom síðan upp fyrir utan sjónsvið vélarinnar en roðinn frá gosinu sást vel í vélinni. Aðrar myndavélar tóku svo við keflinu þegar gosið hófst en viðbúið er að vélin verði tengd að nýju ef gosrásin opnast nær Keili og innan sjónsviðs myndavélarinnar.

Aðspurður hvernig sé með fjölskyldur björgunarsveitarfólks, og hvort það væri eitthvað að sjá sitt fólk nema rétt á meðan það kæmi heim til að sofa, sagði Bogi að það væri mismikið. Hann hafi þó náð nokkrum dögum heima en játar því að hugurinn sé alltaf við þetta verkefni.

„Já, þannig að maður er heima en kannski fjarverandi heima – en maður reynir að láta sjá sig eins og maður getur. Ég veit allavega að börnin mín sakna pínu jarðskjálftanna því þá var ég meira heima. Þau tengja þetta saman þannig.“

– Þau vilja þá fá jarðskjálftana aftur því þá kemur pabbi heim?

„Já, þá kæmi pabbi heim – en annars reynir maður að kíkja reglulega heim, annars færi maður auðvitað bara yfir um.“

----------
Myndir með viðtalinu úr safni Björgunarsveitarinnar Þorbjörns og úr safni Víkurfrétta.