Lagardere
Lagardere

Mannlíf

Þrítugur og 
gefur út plötu
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 14. janúar 2023 kl. 07:40

Þrítugur og 
gefur út plötu

Anton Guðmundsson, bæjarfulltrúi og oddviti Framsóknar í Suðurnesjabæ semur tónlist, selur íslenskar landbúnaðarafurðir fyrir SS, stýrir bæjarmálum í Suðurnesjabæ, nemur við Bifröst og eldar fyrir fjölskylduna.

Anton Guðmundsson, sem er oddviti Framsóknarflokksins í Suðurnesjabæ en flokkurinn myndar þar meirihluta í bæjarstjórn ásamt Sjálfstæðisflokki, verður þrítugur þann 12. janúar og er af því tilefni að gefa út plötu sem heitir Augnablik. Á plötunni eru ellefu lög, níu eftir Anton sjálfan en á henni er einnig að finna tvö lög við kvæði eftir langafa hans, Guðmund Böðvarsson, skáld frá Kirkjubóli í Hvítársíðu í Borgarfirði.

Anton sem er fæddur og uppalinn Grindvíkingur, byrjaði snemma að gutla í tónlist: „Ég var níu ára gamall þegar pabbi minn heitinn, Guðmundur Þorsteinsson kenndi mér fyrstu gripin á gítar. Ég tók þátt í að stofna skólahljómsveitina Bigalow þegar ég var í Grunnskóla Grindavíkur og við gáfum meira að segja út eitt lag sem var tekið upp í stúdíó Geimsteini hjá Rúnari Júl á sínum tíma. Lagið heitir „Ég spyr“ og kom út á Spotify árið 2008. Ég samdi lag og texta og komst á bragðið því þetta var ofboðslega skemmtilegt ferli, að skapa eigin tónlist og hef síðan þá verið að skrifa texta og semja lög. Ég áttaði mig svo á fyrir nokkrum árum að ég ætti efni á þrjár plötur og tók fyrsta lagið upp árið 2017 en svo var það ekki fyrr en síðasta vor sem ég áttaði mig á þessum tímamótum, að þrítugsafmælið væri skammt undan og setti þá bara allt í gang og er mjög stoltur af því að gefa út þessa plötu á afmælisdaginn minn, 12. janúar.“

Bílakjarninn /Nýsprautun
Bílakjarninn /Nýsprautun

Níu af ellefu lögum eftir Anton

Platan var að mestu tekin upp í Stúdíó Sýrlandi og sá Grindvíkingurinn Guðjón Sveinsson um upptökustjórn og Anton fékk færa tónlistarmenn með sér: „Fyrstan skal nefna sveitunga minn, Halldór Lárusson skólastjóra Tónlistarskólans í Suðurnesjabæ en hann sér um slagverk á plötunni. Gísli Þór Ingólfsson leikur á píanó og Hammond orgel, Eyja Ragnheiðardóttir spilar á fiðlu og Guðjón Sveinsson sér um rafgítar og bassa. Sjálfur syng ég og spila á kassagítar, munnhörpu og rafgítar. Lögin og textar eru öll eftir mig fyrir utan tvö, ég vildi gera langafa mínum, Guðmundi Böðvarssyni frá Kirkjubóli í Hvítársíðu, hátt undir höfði. Hann var og er þekkt skáld, stórmerkilegur maður en Silja Aðalsteinsdóttir ritaði ævisögu hans á sínum tíma, bókin Skáldið sem sólin kyssti. Líka gaman frá því að segja að lag nr. tvö á plötunni, Sumarnótt sem ég tók upp fyrir mörgum árum síðan og var komið inn á Youtube, rataði í kvikmynd sem heitir Mentor árið 2020. Tónlistina myndi ég flokka sem íslenska dægurlagatónlist og er platan gefin út af Dreifir og verður á öllum helstu streymisveitum en einnig verður hægt að kaupa eintak í búðum Alda music. Ég áttaði mig fljótt á því í ferlinu að eldra fólk vill fá sitt eintak, veit ekkert hvað -Spotify er. Ég er alltaf eitthvað að troða upp, mun m.a. sjá um brekkusöng á þorrablóti Suðurnesjamanna sem haldið verður í Garðinum og þá mun ég lauma fáeinum lögum eftir sjálfan mig inn í prógrammið en svo er stefnan sett á að halda útgáfutónleika með hækkandi sól og fylgja plötunni betur eftir,“ segir Anton.

Margt í pípunum

Anton sem er menntaður matreiðslumeistari, eldar mest heima í dag: „Ég starfa í dag í sölu- og markaðsmálum hjá Sláturfélagi Suðurlands og svo er nóg að gera í bæjarpólitíkinni. Ég er auk þess í BA námi við Bifröst í Opinberri stjórnsýslu svo það er nóg að gera. Að geta tvinnað tónlistaráhugamálið inn í jöfnuna er frábært og svo fæ ég útrás fyrir matreiðslumeistarann í mér heima við en ég er kvæntur tveggja barna faðir,“ sagði tónlistar- og sveitarstjórnarmaðurinn Anton Guðmundsson að lokum.