Þjóðlagatónar á sumartónleikum í Hvalsneskirkju
Sumartónar verða í Hvalsneskirkju í Suðurnesjabæ þriðjudaginn 8.júlí kl. 19:30. Dúó Stemma flytja íslenskar þjóðvísur, þulur og ljóð. Til þess nota þau ýmis hefðbundin hljóðfæri, eins og fiðlu, víólu marimbu, trommur og einnig óhefðbundin hljóðfæri og hljóðgjafa svo sem hrossakjálka, íslenska steina, barnaleikföng og svo syngja þau með sínu nefi.
DÚÓ STEMMA eru Herdís Anna Jónsdóttir víóluleikari og Steef van Oosterhout slagverksleikari. Þau hafa leikið saman í mörg ár og spilað fjölmarga tónleika á Íslandi og erlendis fyrir börn og fullorðna.
Dúó Stemma hlaut viðurkenninguna „Vorvindar“ frá IBBY samtökunum árið 2008 fyrir framlag þeirra til barnamenningar á Íslandi. Vorið 2022 fengu þau styrk úr Barnamenningarsjóði til að spila víðsvegar um Evrópu fyrir íslensk börn á erlendri grundu.
Aðgangseyrir er 3.500.- Ókeypis fyrir átján ára og yngri.
Tónleikarnir eru styrktir af Uppbyggingarsjóði Suðurnesja.