Flotinn er flakkandi félagsmiðstöð í Reykjanesbæ og Suðurnesjabæ
Starfsemi Flotans – flakkandi félagsmiðstöðvar – var kynnt fyrir lýðheilsuráði Reykjanesbæjar á dögunum. Logi Þór Ágústsson og Betsý Ásta Stefánsdóttir, umsjónarmenn verkefnisins, sátu fundinn og fóru yfir hlutverk, skipulag og árangur verkefnisins sem haldið er úti yfir sumartímann.
Flotinn sem forvarnarstarf
Flotinn er hreyfanleg félagsmiðstöð sem starfar á kvöldin, fer í vettvangsferðir um hverfi Reykjanesbæjar og Suðurnesjabæjar og heldur „pop-up“ viðburði við skóla. Verkefnið miðar að því að skapa öruggt og virkt rými fyrir ungmenni, stuðla að jákvæðri hópamyndun og draga úr áhættuhegðun. Flotinn er fyrst og fremst forvarnarstarf, og í stað boða og banna leitast starfsfólk við að vera ungmennum innan handar á þeirra forsendum.
Dagskrá og vettvangsferðir
Í sumar eru skipulagðir viðburðir við flesta grunnskóla á svæðinu, svo sem Myllubakkaskóla, Stapaskóla, Heiðarskóla og Gerðaskóla, þar sem boðið verður upp á leiki eins og Gaga bolta, hoppukastala, búbblubolta, „capture the flag“ og útileiki með frostpinnum. Einnig verður farið í kvöldrúnta um öll hverfi og stöðvað þar sem ungmenni eru saman komin.
Samvinna og jafningjastarf
Verkefnið byggir á samstarfi við Suðurnesjabæ og samfélagslögregluna, sem hefur sýnt verkefninu áhuga og mætt reglulega á vettvang. Þá taka unglingar úr 10. bekk í Fjörsmiðjunni virkan þátt í pop-up dagskránni sem jafningjastarf, og skipuleggja jafnframt viðburði með starfsfólki Flotans.
Lýðheilsuráð lýsir yfir eindregnum stuðningi
Lýðheilsuráð fagnar áframhaldandi starfi Flotans og lýsir yfir stuðningi við verkefnið sem það segir gegna lykilhlutverki í lýðheilsu- og forvarnarstarfi í sveitarfélaginu. Sérstaklega er bent á mikilvægi þess að styðja við fræðslu, samstarf og félagslega virkni ungs fólks yfir sumartímann – þegar hefðbundið skólastarf liggur niðri og stuðningur getur skipt sköpum.
Verkefnið er að finna á Instagram undir notendanafninu @fjorflotinn.