Glæsileg þátttaka í BAUN – yfir 4.300 heimsóttu Duus safnahús
Barna- og ungmennahátíðin BAUN fór fram dagana 2.–11. maí síðastliðinn með fjölbreyttri dagskrá fyrir börn og fjölskyldur í Reykjanesbæ.
Börn á leikskólaaldri og nemendur í 1.–7. bekk fengu afhent svokölluð BAUNabréf sem innihéldu verkefni, viðburði og þrautir sem fjölskyldur gátu tekið þátt í saman. Í fyrsta skipti var einnig boðið upp á BAUN+ fyrir unglinga í 8.–10. bekk, þar sem þátttakendur tóku þátt í skemmtilegum QR-kóða leik með það að markmiði að virkja eldri nemendur.
Hæfileikahátíð grunnskólanna var haldin í Stapa þar sem úrvalsatriði úr árshátíðum skólanna voru sýnd og fékk hún góðar viðtökur.
Þátttaka í hátíðinni var afar góð, og heimsóttu til að mynda um 4.300 gestir Duus safnahús á meðan á BAUN stóð.
„Hátíð sem þessi krefst mikillar samvinnu á milli stofnana bæjarins og leggja félagasamtök í bænum einnig sitt af mörkum til að gera hátíðina að veruleika. Markmið BAUN er að stuðla að aukinni vellíðan barna og íbúa í Reykjanesbæ og skapa tækifæri fyrir fjölskyldur til virkrar þátttöku í samfélaginu,“ segir í fundargerð Menningar- og þjónusturáðs 27. júní sl.