Það þarf ákveðinn aga til að rífa sig upp fyrir allar aldir og mæta á sundæfingu
Sundfólk úr sunddeild ÍRB hefur verið að gera það gott að undanförnu og eru nokkrir á leiðinni erlendis í sumar til að keppa fyrir Íslands hönd. Sunddeildir Keflavíkur og Njarðvíkur voru sameinaðar árið 2001 undir nafni ÍRB og hefur Steindór Gunnarsson allan tímann verið að þjálfa. Hann hefur í nítján ár af þessum 24 gegnt stöðu yfirþjálfara og hann segir framtíð sundíþróttarinnar í Reykjanesbæ bjarta.
Þessir sundmenn eru að fara keppa fyrir Íslands hönd í sumar:
Guðmundur Leo Rafnsson sem mun keppa á Smáþjóðaleikunum í Andorra um miðjan maí, á EM 23 í Slóvaíku í lok júní og á HM í Singapore í lok júlí.
Eva Margrét Falsdóttir mun keppa á EM 23 og Smáþjóðleikunum og Denas Kazulis mun keppa á Evrópumeistaramóti unglinga 18 ára og yngri en mótið verður haldið í Slóvakíu.
Þessir ungu og efnilegu sundmenn munu svo keppa á Taastrup open í Damörku; Daði Rafn Falsson, Denas Kazulis, Eydís Jóhannesdóttir, Julian Jarnutowski og Viktor Bergmann Arnarsson.
Steindór fór yfir sinn feril sem sundþjálfari og ræddi líka um stöðu ÍRB.
„Ég hef þjálfað sund síðan 1991, fyrst hjá UMFN en síðan fyrir sameinað lið ÍRB síðan 2001, þar af í nítján ár sem yfirþjálfari. Sundmenn mínir hafa unnið samtals 378 Íslandsmeistaratitla og ég er auðvitað stoltur af því. Eins er ég stoltur af því að hafa þjálfað Evrópu- og Norðulandameistara auk Norðurlandameistara unglinga. Ég hef líka þjálfað Ólympíu-fara.
Það eru mikil efni hjá okkur í dag og vil ég sérstaklega minnast á Guðmund Leo í því sambandi en hann er eini sundmaðurinn í sögu ÍRB sem hefur náð lágmörkum fyrir heimsmeistaramót bæði í 50m og 25m laug. Hann er fjórfaldur Íslandsmeistari, vann 50, 100 og 200m baksund, og 100m skriðsund. Eva Margrét er líka mjög efnileg og er þrefaldur Íslandsmeistari (greinar?).
Þótt við keppum undir merkjum ÍRB þá er sundfólkið áfram tengt Njarðvík og Keflavík, ég myndi ekki segja að beinn rígur hafi verið þegar keppt var undir merkjum UMFN og Keflavíkur en vissulega var samkeppni, þú vildir gera betur en granninn hinum megin við lækinn.
Í dag eru um 250 iðkendur, það telst nokkuð margt m.v. fjölda íbúa. Við erum með frábæra aðstöðu en það er vöntun á færum sundþjálfurum. Þegar ÍRB var stofnað árið 2001 gátum við bara æft úti svo það var mikil bylting þegar Vatnaveröldin kom. Við byrjum æfingar kl. sex á morgnana í dag en vorum að byrja hálf sex, við erum með lyklavöldin, þ.e. það þarf ekki starfsmaður að opna fyrir okkur. Við æfum líka í Njarðvíkurlaug, í Akurskóla og Heiðarskólalaug, það er gott fyrir yngri iðkendur að geta labbað í sína laug. Í dag náum við að klára allar æfingar fyrir kl. átta en hér áður fyrr þurftum við að vera lengra fram á kvöldið.“
Mikill sjálfsagi
Það eru ekki allir íþróttamenn sem eru mættir á æfingu kl. sex á morgnana en sundmenn búa yfir miklum sjálfsaga og það virðist haldast í hendur með góðum árangri í námi.
„Ég vil trúa því að börn sem byrja að æfa sund tileinki sér góðan sjálfsaga og oftar en ekki gengur sundfólki betur í skóla, fjölmargir dúxar í FS undanfarin ár er sundfólk úr ÍRB. Það þarf ákveðinn aga til að rífa sig upp fyrir allar aldir og mæta á æfingu, þetta gerir sundfólk með glöðu geði. Sá sem æfir einstaklingsíþrótt stendur og fellur með sjálfum sér, hann getur ekki treyst á liðsfélaga eins og í boltaíþróttum.
Sundkona toppar í kringum 25 ára aldurinn en sundmaður getur verið að toppa upp að þrítugsaldri. Elstu krakkarnir sem eru að æfa hjá okkur eru rúmlega tvítug svo þau eiga nóg eftir.
Ég var landsliðsþjálfari árið 2004 og fór þá með tvo sundmenn á Ólympíuleika í Aþenu, þetta voru Örn Arnarson og Íris Edda Heimisdóttir en Íris er frá Reykjanesbæ og Örn skipti yfir til okkar hjá ÍRB svo ég þjálfaði þessa tvo Ólympíufara. Svo átti ég sundmenn á leikunum 2008, þau Erlu Dögg og Árna Má og Árna svo aftur 2012. Jafnframt þjálfaði ég Má Gunnarsson á Ólympíuleikunum 2021 en það voru mjög skrýtnir leikar, á Covid tímum. Ég fór með honum á leikana og gat nánast ekki séð neitt af Japan, mér var bara heimilt að vera inni á hótelherbergi eða í Ólympíuþorpinu í þann hálfa mánuð sem ég var í Tokyo. Síðan 2012 höfum við ekki átt neina en ég hef mikla trú á að við munum eiga fulltrúa á næstu leikum, árið 2028. Það er orðið erfiðara að komast inn á Ólympíuleika, það er búið að lækka lágmörkin, t.d. í 100m bringusundi kvenna, þegar ég var að byrja þjálfa var lágmarkið 1:13,4 en í dag er það 1:06,8. Það hefur orðið mikil þróun í sundinu en við Íslendingar höfum náð að fylgja þeirri þróun vel og ég hef mikla trú á að ÍRB eigi góðan möguleika á að eiga fulltrúa á næstu Ólympíuleikum. Fyrir utan þessa krakka sem eru að fara keppa fyrir Íslands hönd í sumar eru fleiri mjög efnilegir sundmenn hjá okkur en það að keppa á Ólympíuleikum er æðsta takmark sundfólks og yrði mjög gaman ef draumurinn rætist árið 2028, ég hef fulla trú að sú verði raunin,“ segir Steindór.
Þróun í sundþjálfun
Steindór man þann tíma sem hann tók sundæfingar upp á VHS-spólu, í dag hefur tækni fleygt mikið fram en hvaða ráð er hann með fyrir hinn almenna borgara sem vill gera sund að sinni líkamsrækt en oft er talað um sund sem bestu alhliða líkamsræktina.
„Við fáum aðila til Íslands til að halda þjálfaranámskeið en þjálfun hefur breyst gríðarlega undanfarin ár. Í dag eigum við upptökuvél sem myndar í kafi, það er augljóst hversu miklu betra það er en í gamla daga þegar maður tók upp ofan vatns. Það er gífurlegt magn kennslumyndbanda á Youtube og því er auðvelt að fylgjast vel með því nýjasta í sundtækninni. Sundþjálfari getur endalaust bætt við sig fróðleik og ég er á því að staða sundíþróttarinnar á Íslandi sé sterk, það er vel staðið að öllu hjá okkur í ÍRB að mínu mati. Það er mikill metnaður hjá okkur og dugnaður, við erum mjög góða stjórn og foreldrarnir eru virkir í starfinu, þetta helst allt saman í hendur og góður andi er í félaginu. Það er eitt sundfélag sem stendur okkur framar, SH [Sundfélag Hafnarfjarðar] en þá er gott að hafa eitthvað til að miða sig við, við stefnum sem hæst.
Það vita allir hversu hollt er fyrir fólk að stunda líkamsrækt, sama hvaða nafni hún heitir en ég vil meina að sund sé besta alhliða líkamsræktin því þú ert að reyna á svo marga vöðva auk þess sem þú byggir upp úthald. Það er líka lítil sem engin meiðslahætta í sundi, maður fær ekki högg á liði t.d. Fólk er auðvitað misgott að synda og myndi ég hvetja áhugasama til að fara á sundnámskeið, ég hef séð um slíkt þar sem ég næ að stórbæta skriðssundstækni viðkomandi svo dæmi sé tekið. Það verður miklu skemmtilegra að synda þegar maður er betri að synda.
Ég er bjartsýnn á framtíð sundíþróttarinnar hér í Reykjanesbæ, við stöndum vel á landsvísu og fyrir utan þá krakka sem eru að fara í landsliðsverkefni í sumar eru nokkrir mjög efnilegir. Það kæmi mér á óvart ef ekki verður keppandi frá ÍRB á næstu Ólympíuleikum,“ sagði Steindór að lokum.