Vor á Vatnsnesi sló í gegn
Yfir 1000 gestir komu í heimsókn og fögnuðu með Hótel Keflavík í sólinni
Það var sannkölluð vorstemning sem ríkti á Vatnsnesinu helgina 16.–18. maí þegar Hótel Keflavík hélt hátíðlega upp á 39 ára afmæli sitt með bæjarhátíðinni Vor á Vatnsnesi. Sólin skein allan tímann og lék við gesti og gangandi sem streymdu á svæðið en yfir 1000 manns lögðu leið sína í gleðina yfir helgina og nutu lífsins í góðum félagsskap og dásamlegu veðri.
Fjölbreytt dagskrá fyrir alla aldurshópa
Hátíðin fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda og gleðin skein úr hverju andliti. Dagskráin var fjölbreytt og fyrir alla aldurshópa, frá hoppuköstulum fyrir yngstu kynslóðina og matarvögnum við Vatnsneshúsið, yfir í stórglæsilega listsýningu eftir listakonuna Eddu Þóreyju Kristfinnsdóttur sem fékk mikla athygli í sýningarsalnum.
KEF Center: Lifandi hjarta nýs miðbæjar
„Við erum einstaklega glöð að hafa loks opnað dyrnar að Vatnsnesi og nýtt svæðið fyrir samverustundir og gleði bæjarbúa, því þetta er einmitt það sem við viljum: að móta lifandi og aðlaðandi miðbæjarkjarna í kringum Hótel Keflavík sem við köllum með stolti KEF Center,“ segir Steinþór Jónsson hótelstjóri og eigandi Hótel Keflavíkur.
Leikhópur, spa og kampavínshlaup
Leikhópurinn Lotta hélt líflega og krúttlega sýningu á túninu fyrir börnin við Vatnsnes, og í KEF SPA var boðið upp á allskyns viðburði á borð við konukvöld, 80’s kvöld og Eurovision-partý. Rúmlega 100 manns tóku þátt í glæsilegu Moët kampavínshlaupi Hótel Keflavíkur og voru keppendur hvattir áfram af góðri stemningu og glaðværum áhorfendum. Veglegir vinningar komu frá ýmsum fyrirtækjum sem styrktu viðburðinn og voru fyrir 1., 2. og 3. sæti karla og kvenna ásamt spennandi happdrætti þar sem nokkrir heppnir nældu sér í vinning. Lúðrasveit Tónlistarskóla Reykjanesbæjar spilaði nokkur lög við verðlaunaafhendingu við mikla gleði aðstandenda.
Ásamt frábærum tilboðum og uppákomum víðsvegar um allan bæ en fyrirtæki samtaka Betri Bæjar tóku sig saman um að taka þátt í dagskránni. Duus safnahús opuðu líka dyr sínar og buðu öllum gestum frían aðgang að listasýningum þar.
Glæsileg stemning og bjartar framtíðarvonir
„Við erum yfir okkur ánægð með hvernig þetta tókst allt saman. Veðrið, gleðin, þátttakan, þetta var meira en við gátum vonað,“ segir Lilja Karen Steinþórsdóttir, aðstoðarhótelstjóri og markaðstjóri Hótel Keflavíkur. „Ég er svo þakklát fyrir frábæra teymið okkar á KEF sem stóð að því að skipuleggja og alla þá sem lögðu okkur lið í að gera hátíðina svona glæsilega. Við viljum skapa lifandi samkomusvæði fyrir bæjarbúa á Vatnsnesinu og erum nú þegar byrjuð að plana næstu hátíð, sem verður enn stærri og glæsilegri þegar Hótel Keflavík fagnar 40 ára afmæli sínu þann 17. maí 2026.
Hátíðin markaði ekki aðeins tímamót heldur líka nýjan möguleika fyrir miðbæjarstemningu í Reykjanesbæ og samkvæmt viðbrögðum gesta vill enginn missa af næstu hátíð, Vor á Vatnsnesi.“