Larissa Sansour með fyrstu sýningu sína á Íslandi í Listasafni Reykjanesbæjar
Fimmtudaginn 22. maí kl. 18:00 opnar einkasýning listakonunnar Larissu Sansour í Listasafni Reykjanesbæjar. Sýningin nefnist Fortíðin var aldrei, hún bara er, og markar fyrsta sinn sem verk hennar eru sýnd hér á landi. Öll eru velkomin á opnunina og aðgangur að sýningunni er ókeypis.
Sansour er palestínsk-dönsk listakona, fædd í Austur-Betlehem árið 1973, og hefur skapað sér alþjóðlega viðurkenningu fyrir kvikmyndainnsetningar sem takast á við pólitísk og persónuleg málefni Palestínu. Hún hefur sýnt í virtum söfnum á borð við MOMA í New York og Tate Modern í London, og árið 2019 var hún fulltrúi Danmerkur á Feneyjatvíæringnum í myndlist. Verk hennar eru gjarnan unnin í samstarfi við rithöfundinn og leikstjórann Søren Lind, og endurspegla sameiginlega sýn þeirra á fortíð, minningu og framtíð.
Helga Þórsdóttir, safnstjóri Listasafns Reykjanesbæjar, segir það mikinn heiður að hýsa fyrstu sýningu Sansour á Íslandi:
„Það er stórviðburður að verk Larissu Sansour séu nú sýnd á Íslandi í fyrsta sinn. Það er mikil eftirspurn eftir hennar verkum. Meðal nýlegra einkasýninga hennar má nefna sýningar í Amos Rex safninu í Helsinki og Göteborg Konsthall í Gautaborg.
Það er því mikill heiður fyrir Listasafn Reykjanesbæjar að fá tækifæri til að vinna með henni og setja upp sýningu á verkum hennar. Verk Sansour fjalla um þá dystópíu sem hefur dunið á palestínsku þjóðinni frá 1948. Viðfangsefni verka hennar er svo nátengd þeim atburðum sem nú eiga sér stað í Palestínu að halda mætti að listamaðurinn væri völva sem sér framtíðina fyrir.“
Sýningarstjóri er Jonatan Habib Engqvist, virkur á íslenskum og alþjóðlegum vettvangi, og segir hann sýninguna spegla jarðhræringarnar á Reykjanesskaga og fjölbreytt samfélag Suðurnesja.
Sýningin stendur frá 22. maí til 17. ágúst 2025.