Tilfinningaflóð á fyrsta heimaleik í Grindvík frá rýmingu
Veðurguðirnir skörtuðu sínu fegursta á laugardaginn en þá var merkilegur atburður í Grindavík, knattspyrnulið bæjarins var að leika fyrsta heimaleik í íþrótt síðan fyrir hamfarirnar í nóvember 2023. Knattspyrnudeildin lagði mikið í daginn, hoppukastalar og kandýfloss fyrir krakkana, grillaðir borgarar og til að ganga úr skugga um að veðrið yrði gott, var tónlistarmaðurinn Ingó Veðurguð fenginn til að skemmta.

Haukur Einarsson var hálf meir á þessum tímamótum, að sjálfsögðu var spjallið við hann tekið inn í gula húsinu svokallaða, sem var reist árið 1986 af forkálfum knattspyrnudeildarinnar.
Sál í húsinu
„Það er mikil sál í þessu húsi, hér ólst maður upp má segja. Þetta er frábær dagur myndi ég segja, það er ofboðslega gaman að geta leikið aftur hér í Grindavík og myndi ég segja að dagurinn hafi tekist fullkomlega, eina sem vantaði var sigur í leiknum en hann kemur bara næst.
Það skal alveg viðurkennt að þetta er búið að vera mjög erfitt frá rýmingu 2023, stundum vorum við alveg við það að bugast en við gáfumst aldrei upp og ég er rosalega stoltur af samfélaginu mínu, af fólkinu mínu. Allt sem ég á í dag er vegna Grindavíkur, þess vegna er maður að leggja þetta á sig. Róðurinn hefur verið ansi þungur oft á tíðum en vonandi sjáum við fram á bjartari tíma. Þetta var erfitt í fyrra, við getum seint fullþakkað Víkingunum sem hýstu okkur í Safamýrinni og við fengum aðstoð margra annarra félaga, þau gripu okkur má segja og fyrir það verðum við ævinlega þakklát. Stemningin fyrir liðunum okkar náðist bara aldrei á neitt flug, við vorum ekki „heima“ og við settum stefnuna strax á að geta leikið heimaleikina hér í Grindavík og eru allir himinlifandi hér í dag.
Markmið okkar fyrir sumarið er held ég bara að njóta, við ætlum að gera okkar besta og munum gera okkar til að laða Grindvíkinga til að koma í gamla heimabæinn, koma á leik og hitta fólkið sitt. Við erum að gera þetta fyrir Grindvíkinga, ég vona að fólk muni líta á þetta eins og hefur verið hjá körfuboltaliðunum, að sýna sig og sjá aðra Grindvíkinga,“ sagði Haukur.
Lék á gamla malarvellinum
Hjálmar Hallgrímsson var einn lykilmanna knattspyrnu- og körfuknattleiksliða Grindavíkur en undanfarið hefur hann staðið í broddi fylkingar í bæjarstjórnarmálum Grindvíkinga.
„Ég spilaði eitthvað um 300 knattspyrnuleiki og þótt ég hafi ekki leikið á þessum grasvelli, þá á ég góðar minningar því áður en grasið kom var hér góður malarvöllur, það var gaman þegar bílunum var lagt meðfram hliðarlínunni. Þetta voru góðir tímar en sem betur fer er aðstaðan orðin allt önnur í dag.
Þetta er frábær dagur, það er frábært að fá liðið aftur heim, ég lít á þetta sem táknrænt merki í endurreisn bæjarins. Það er frábært að sjá allt þetta fólk, maður skynjar vonina í brjósti fólks, sumarið er framundan og Sjóarinn síkáti, svo nú verður þetta bara upp á við hjá okkur, það er ég sannfærður um. Svo vona ég að mínir menn geri Stakkavíkurvöllinn að vígi og það verði erfitt fyrir andstæðinginn að mæta Grindavík, eins og var þegar ég spilaði,“ sagði Hjálmar.
Meyr vallarstjóri
Gunnlaugur Hreinsson gengdi stöðu vallarstjóra Grindavíkurvallar um tíma en var búinn að láta af störfum sökum aldurs en var meira en til í að hjálpa knattspyrnudeildinni við að koma Stakkavíkurvellinum í stand fyrir sumarið. Hann átti erfitt með að hemja tilfinningar sínar á þessum merka degi.
„Ég er ofboðslega glaður, það er frábært að sjá alla þessa Grindvíkinga og ég verð bara meyr þegar ég hugsa um þetta. Ég var vallarstjóri fram í janúar 2023 og þá áttu heldri árin einfaldlega að taka við með alls kyns ævintýrum en þau urðu heldur betur öðruvísi. Þetta er búinn að vera erfiður tími, það fer vel um okkur í Hveragerði en við söknum Grindavíkur. Það var engin spurning í mínum huga að svara kalli Hauks og félaga í knattspyrnudeildinni og hef ég ekið hingað daglega með bros á vör undanfarnar tvær vikur. Við slógum völlinn af og til í fyrra svo hann færi ekki í algera órækt og ég held að hann sé upp á sitt besta hér í dag. Mín vinna undanfarið hefur verið að koma öllu í stand, finna út hvar línurnar eiga að vera, setja net í mörkin, koma vélum í gang o.s.frv. Starfsmenn Golfklúbbs Grindavíkur munu sjá um sláttinn á vellinum en þessi völlur hefur alltaf verið talinn mjög góður grasvöllur, það verður enginn knattspyrnumaður svikinn af því að leika á Stakkavíkurvellinum í sumar.
Varðandi leik dagsins þá hef ég bara enga tilfinningu fyrir því hvernig hann fer, mér finnst úrslitin í raun vera algert aukaatriði, aðalatriðið er að við erum að leika knattspyrnu í Grindavík á ný,“ sagði Gunnlaugur að lokum en leikurinn var bráðskemmtilegur og endaði með 3-3 jafntefli.

