Föðurbetrungur sem valdi frekar knattspyrnu
Gabríel Aron Sævarsson, framherji Keflavíkur í knattspyrnu, hefur vakið athygli á þessu tímabili en fyrstu fregnir hermdu að hann hefði skorað þrennu á sunnudaginn í útileik á móti Þór Akureyri. Eftir að eitt markanna hafði verið skoðað betur, kom í ljós að um sjálfsmark var að ræða og því fór hin eftirsóknarverða þrenna fyrir lítið. Gabríel hefur skorað þrjú mörk til þessa í Lengjudeildinni og er markahæstur ásamt tveimur öðrum og síðast en ekki síst er lið Keflavíkur á góðu róli, eru efstir í Lengjudeildinni og eru komnir í 8-liða úrslit Mjólkurbikarsins.
Gabríel æfði körfuknattleik fram til fimmtán ára aldurs og þar sem hann hafði verið valinn í landsliðsúrtök í þeirri íþrótt, eru allar líkur á að hann hafi þá þegar verið orðinn föðurbetrungur í þeirri íþrótt en pabbi hans er sjónvarpsstjarnan og fyrrum körfuknattleiksmaðurinn Sævar Sævarsson.
„Ég fann um fimmtán ára aldurinn að ég hefði meiri áhuga á fótbolta og því lagði ég körfuboltanum og ef þú segir að ég hafi verið orðinn betri en pabbi í körfu á þeim tímapunkti, þá tek ég því glaður,“ segir Gabríel hlæjandi.
Gabríel er metnaðarfullur og er með háleit markmið, ekki síst hvað varðar nám en hann er með á borðinu tilboð frá nokkrum háskólum í Bandaríkjunum.
„Ég vil auðvitað ná sem lengst í fótbolta en ég ætla ekki að leggja allt undir í þeirri viðleitni að komast í atvinnumennsku. Mér hefur alltaf gengið vel að læra og vonandi mun ég halda til Bandaríkjanna í haust í háskólanám samhliða því að leika knattspyrnu með liði viðkomandi skóla. Sumir vilja líta á þetta sem ígildi atvinnumennsku, ef ég myndi eingöngu skrá mig í skólann þá hlaupa skólagjöldin á mörgum milljónum og eftir slíkt nám stend ég betur að vígi þegar knattspyrnuferlinum lýkur. Ég myndi æfa og keppa við bestu aðstæður og spila heima á sumrin og ef ég held áfram að bæta mig og spila vel, veit maður aldrei nema lið utan úr heimi sýni áhuga og þá myndi ég auðvitað skoða möguleika á atvinnumennsku. Til að byrja með er ég mjög ánægður með þessa ákvörðun um háskólanám og vonandi gengur það upp, þetta ætti að koma í ljós á næstunni.“

Þrennan bíður betri tíma
Gabríel hefur farið vel af stað á þessu tímabili og fyrir utan tap á heimavelli í annarri umferð á móti Þrótti Reykjavík, hefur gengi Keflvíkinga verið mjög gott en það er mikilvægara í huga Gabríels, á móti því að hann skori mikið af mörkum.
„Ég er ekki með nein markmið hvað varðar markafjölda, í mínum huga er miklu mikilvægara að liðinu gangi vel, ég vil frekar skora ekkert og liðið mitt vinnur, en skora í hverjum leik í tapliði. Sem sóknarmaður vill maður auðvitað skora og það er skemmtilegra en liðið hefur og mun alltaf verða númer eitt, tvö og þrjú hjá mér. Auðvitað er alltaf gaman að skora þrennu en ég vissi strax að ég myndi ekki fá umrætt mark á móti Þór skráð á mig, boltinn breytti það mikið um stefnu af varnarmanninum. Þrennan kemur bara síðar. Gengi okkar hefur verið mjög gott í upphafi móts, það er bara þessi eini leikur á móti Þrótti Reykjavík sem gefur súrt bragð í munninn en sá leikur var ekki leikinn við bestu aðstæður, hvasst og það kannski hentaði Þrótturunum betur en okkur. Við misstum líka mann út af undir lok fyrri hálfleiks en þá var staðan 0-0. Auðvitað hefði verið gott að halda stiginu en það þýðir ekki að grenja yfir því, það er bara upp, upp og áfram.
Við erum að spila vel, erum á góðri leið í bikarnum svo sumarið lítur vel út. Við ætlum okkur beint upp og auðvitað yrði súrt fyrir mig að þurfa yfirgefa liðið um miðjan ágúst ef ég fer í bandaríska háskólaboltann, tala nú ekki um ef bikarúrslitaleikur er framundan en það er ekki alltaf á allt kosið. Ég er mjög spenntur fyrir þessu dæmi í Bandaríkjunum og vona að það gangi upp en fyrst og fremst er ég einbeittur að Keflavík og ef ég skora mörk þá er það bara bónus,“ sagði föðurbetrungurinn í lokin.