Sjónvarp: Litagleði og sól í hjarta á vortónleikum Kvennakórs Suðurnesja
Tónlist, litadýrð og samfélagsgleði 19. og 21. maí í Bíósal duus húsa
Kvennakór Suðurnesja býður til vortónleika undir yfirskriftinni Litagleði dagana 19. og 21. maí í Bíósal Duus safnahúsa í Reykjanesbæ. Tónleikarnir eru hluti af árvissum viðburðum kórsins en að þessu sinni er þemað tileinkað fjölbreytileikanum í samfélaginu – og það með tónlistarvali sem spannar áratugi, heimsálfur og geira.
„Við vildum fagna vorinu og lífinu sjálfu með tónleikum sem bjóða upp á bæði gleði og dýpt,“ segir Guðrún Karítas Karlsdóttir, talskona kórsins. „Þetta er litrík dagskrá, bæði í efnisskrá og framsetningu – og við vonum að gestir fari heim með sól í hjarta.“
Fjölbreytt efnisskrá og litagleði í orðsins fyllstu merkingu
Á efnisskránni eru vel þekkt dægurlög og poppsmellir á borð við True Colors eftir Cindy Lauper, Viva la Vida með Coldplay og Undir þínum áhrifum með Sálinni hans Jóns míns. Einnig verður flutt Only Time eftir Enyu, gospelverk, indjánasöngur og þjóðlag frá Filippseyjum.
„Við höfum valið lög sem við höfum elskað að syngja síðustu 20 ár – og bætt við nokkrum nýjum sem við vonum að verði vel tekið,“ segir Guðrún Karítas. „Það er eitthvað fyrir alla, og tónlistin á að höfða til fólks á öllum aldri.“
Kórkonur munu skreyta sig og salinn í litadýrð sem hæfir yfirskriftinni – og árstíðinni. „Við vildum fanga þetta augnablik vorsins þegar allt lifnar við og samfélagið vaknar til lífsins eftir veturinn.“
Tónleikarnir verða leiddir af kórstjóranum Dagnýju Þórunni Jónsdóttur, með Geirþrúði Fanneyju Bogadóttur við píanóið. Auk þeirra taka þátt Þorvaldur Halldórsson (trommur), Sigurður B. Ólafsson (gítar), Jón Árni Benediktsson (bassi) og Ragnheiður Eir Magnúsdóttir (þverflauta).
Viðburðarríkur vetur að baki
Veturinn 2024–2025 hefur verið annasamur. Í september tók kórinn þátt í Ljósanótt með Syngjandi sveiflu í Duus safnahúsum og í október hélt kórinn utan til Grikklands þar sem hann keppti á alþjóðlegu kóramóti í Kalamata. Þar hlaut kórinn silfurverðlaun í tveimur flokkum – fyrir popp, djass og gospel annars vegar og í almennum flokki kvennakóra hins vegar.
„Við vorum ótrúlega stoltar af frammistöðunni,“ segir Guðrún Karítas. „Að fá viðurkenningu í alþjóðlegu samhengi er góð hvatning fyrir áframhaldandi starf.“
Kórkonur tóku einnig þátt í þrettándagleði í Reykjanesbæ í janúar, fóru í æfingabúðir í Borgarfirði í mars og eru nú þegar byrjaðar að skipuleggja eitt stærsta verkefni kórsins til þessa – Landsmót íslenskra kvennakóra sem verður haldið í Reykjanesbæ 11.–13. júní 2026. „Við reiknum með um 500 kórkonum víðs vegar að af landinu,“ segir Guðrún Karítas. „Það verður stór stund fyrir bæinn okkar.“
Vortónleikarnir Litagleði fara fram í Bíósal Duus safnahúsa mánudaginn 19. maí og miðvikudaginn 21. maí. Miðasala er hafin á tix.is og frekari upplýsingar má finna á samfélagsmiðlum Kvennakórs Suðurnesja.