HS Veitur
HS Veitur

Fréttir

Komið með sokkinn strandveiðibát til Njarðvíkur
Komið með bátinn á kafi til Njarðvíkurhafnar síðdegis. VF/Hilmar Bragi
Hilmar Bragi Bárðarson
Hilmar Bragi Bárðarson skrifar
miðvikudaginn 21. maí 2025 kl. 17:11

Komið með sokkinn strandveiðibát til Njarðvíkur

Strandveiðibátur sem strandaði í Leirunni í nótt sökk þegar hann var dreginn af hólmanum undir morgun. Tryggingafélag bátsins óskaði eftir því að flaki bátsins yrði komið í land og Köfunarþjónusta Sigurðar fékk því björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein til liðs við sig og sótti flakið í Leiruna.

Áhafnir björgunarskipsins Hannesar Þ. Hafstein og björgunarbátsins Njarðar voru kallaðar út í morgun af stjórnstöð Landhelgisgæslunnar vegna strandsins. Báturinn hafði siglt upp í hólmann utan við Hólmsvöll í Leiru og sat þar fastur. Nærstaddir bátar biðu á vettvangi þar til björgunarskipin komu á vettvang en sjómaðurinn sem var á strandveiðibátnum hafði komist af sjálfsdáðum í landi í hólmanum. Hann hafði slasast við strandið í nótt en þar sem bátnum var siglt á hólmann er mjög aðdjúpt og lóðréttur klettaveggur.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Reynt var að þétta brot á bátnum áður en hann var dreginn af strandstað en þá var mikill leki kominn að honum. Báturinn sökk því fljótlega eftir að hann var dreginn af hólmanum.

Það var svo um hádegisbil í dag að tryggingafélag bátsins óskaði eftir því að honum yrði komið til hafnar. Köfunarþjónusta Sigurðar fékk björgunarskipið Hannes Þ. Hafstein til að draga bátinn, sem var á kafi í sjó. Fyrst sóttist ferðin seint en allt í einu flaut báturinn upp og var hálfur í kafi þannig að björgunarskipið gat aukið við ferðina.

Þannig komst Hannes Þ. Hafstein með bátinn til hafnar Njarðvík nú síðdegis. Þar steinsökk báturinn skammt frá hafnargarðinum. Sigurður Stefánsson, kafari, átti reyndar von á að það myndi gerast. Báturinn fær að hvíla á botni hafnarinnar þar til á morgun að ráðist verður í að hífa hann á land.

Útkallið hjá björgunarsveitunum í morgun í Leiruna var níunda útkallið vegna strandveiðibáta á aðeins tveimur sólarhringum.


Frá vettvangi strandsins snemma í morgun. VF/Hilmar Bragi