Hjálmar halda stórtónleika í Stapa á laugardaginn
Reggaehljómsveitin Hjálmar stígur á stokk í Stapa í Hljómahöll næstkomandi laugardagskvöld, 24. maí. Tónleikarnir hefjast klukkan 20:00 en húsið opnar klukkan 19:00.
Hjálmar hafa lengi verið á meðal ástsælustu hljómsveita landsins og þykja þekktir fyrir kraftmikla og lifandi sviðsframkomu. Sveitin á sérstök tengsl við Reykjanesbæ því hún var stofnuð þar árið 2004 og hefur alla tíð haldið tengslin við bæinn.
Á rúmlega tuttugu ára ferli hefur Hjálmar gefið út níu breiðskífur og átt ótal vinsæl lög sem landsmenn kunna flestir utan að, meðal annars Leiðin okkar allra, Ég vil fá mér kærustu, Borgin, Manstu, Ljósvíkingur, Bréfið, Lof og Vísa úr Álftamýri.
Hljómsveitina skipa þeir Guðmundur Kristinn Jónsson, Helgi Svavar Helgason, Sigurður Guðmundsson, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og Þorsteinn Einarsson.
Tónleikarnir í Stapa eru kærkomið tækifæri fyrir aðdáendur sveitarinnar til að upplifa Hjálma á heimavelli – þar sem allt byrjaði.
Kaupa miða.