Möllerinn haldinn í 25. skipti hjá Golfklúbbi Grindavíkur
Eitt elsta mótið í sögu Golfklúbbs Grindavíkur er hið rómaða mót, „Möllerinn.“ Möllerinn er fyrirtækjakeppni þar sem tveir kylfingar leika betri bolta-fyrirkomulag. Sigurvegari í ár var lið Grindarinnar eftir harða baráttu við lið Jóns & Margeirs.
Það sem kannski bar hæst var að upphafsmaður Möllersins, Aðalgeir Jóhannsson, var gerður að heiðursfélaga GG.
„Mótið í ár tókst einkar vel myndi ég segja,“ segir formaður GG, Hávarður Gunnarsson.
„Það var uppselt í mótið sem var leikið við frábærar aðstæður. Issi bauð upp á fisk & franskar fyrir mót, eftir mót var dýrindis lambalæri sporðrennt og kylfingar gerðu sér glaðan dag á þessum merku tímamótum í sögu klúbbsins. Alli á Eyri [Aðalgeir Jóhannsson] er ein af goðsögnum GG og var einkar ánægjulegt að heiðra hann á þessum tímamótum.
Hljóðið í okkur GG-fólki hefur sjaldan eða aldrei verið eins gott, það hefur mikil aukning verið í klúbbnum á þessu ári, fólk greinilega kann að meta þetta lága ársgjald sem við erum að bjóða upp en þar fyrir utan hefur umferðin á vellinum verið gríðarlega góð. Það er bara bjart framundan hjá GG,“ sagði Hávarður.

Alli á Eyri var djúpt snortinn.
„Ég átti ekki von á þessu og er bara hrærður yfir þessum titli. Það hafa fjölmargir komið að starfi GG í gegnum tíðina og ég er stoltur yfir að hafa verið formaður um tíma og er auðvitað stoltur yfir því að hafa komið þessu flotta móti á á sínum tíma. Það er mikill meðbyr með GG þessa dagana, það skynjar maður langar leiðir og framtíðin er bara björt. Ég reyni að spila eins og heilsan leyfir, ég mun seint teljast til betri kylfinga GG en ég hef afskaplega gaman að þessu,“ sagði Alli að lokum.






