Sonurinn hljóp í skarðið fyrir tippmeistarann
Gamla keppnisskapið fór að krauma
Vinningurinn í tippleik Víkurfrétta var greiddur út um síðustu helgi en þá fór úrslitaleikurinn í elstu og virtustu knattspyrnukeppni heims, FA cup, fram á Wembley leikvanginum í London. Það er höfðinginn Sigurður Óli Þórleifsson hjá Njóttu ferðum sem útvegar miða á leikinn og gistingu.

Tippmeistarinn tímabilið ´24-´25 er Garðmaðurinn Guðjón Guðmundsson eins og margoft hefur komið fram en hann forfallaðist á síðustu stundu, sem betur fer gat eldri sonur hans, Ingimundur, hlaupið í skarðið og ferðuðust hann og blaðamaður Víkurfrétta árla laugardagsins, daginn sem úrslitaleikurinn fór fram. Leikurinn var hin mesta skemmtun og náði Crystal Palace að vinna sinn fyrsta stóra titil en þetta félag var stofnað fyrir u.þ.b. 120 árum síðan.
Guðjón segist hafa verið með syni sínum í anda á meðan leikurinn fór fram.
„Því miður gat ég ekki komist í þessa frábæru ferð en sem betur fer gat Ingimundur sonur minn verið minn fulltrúi en hann hafði aldrei áður komið á Wembley. Ég fór á gamla Wembley-leikvanginn, varð vitni að sannkallaðri knattspyrnuveislu þegar Hollendingar með Johann Cruyff í broddi fylkingar, voru upp á sitt besta. Hollendingar tóku Endlendingana í kennslustund og leikurinn sem endaði bara 0-2, hefði þess vegna geta endað 0-10, svo miklir voru yfirburðir Hollendinganna.
Ég var með í anda á laugardaginn og horfði spenntur á, þetta var hörku skemmtilegur leikur á að horfa, þó svo að bara hafa verið skorað eitt mark í honum. Svona getur fótboltinn verið grimmur, City hefði unnið þennan leik í átta af hverjum tíu skiptum sem hann hefði verið leikinn, Palace komst varla fram yfir miðju fyrstu 30 mínúturnar og í fyrstu sókn sinni skora þeir eina mark leiksins. Það er með hreinum ólíkindum að VAR-dómarinn skyldi ekki sjá þegar markmaður Palace handlék boltann fyrir utan vítateig, og þ.a.l. vísa honum af velli, þetta segir mér enn og aftur að það á að afnema þetta VAR-dæmi. Ef svona augljósum atriðum er ekki snúið við, til hvers þá að vera með þetta? Þetta tefur leikina, tekur allt flæði í burtu og ég vil meina að þetta sé til meiri óþurftar en gagns. Það var einhvern tíma gerð rannsókn á rangstöðudómum í Englandi, í 96% tilfella höfðu línuverðirnir rétt fyrir sér, er það ekki nóg? Mistök dómara hafa alltaf verið hluti af leiknum, marklínutæknin er að virka en leyfum leiknum annars bara að flæða, við viljum geta rifist á mánudegi um hvort dómur var réttur eða rangur.
Annars er ég sæll og glaður með að hafa unnið þennan tippleik, ég hélt að það hefði verið búið að drepast á gamla keppnisskapinu en ég sá svo ekki var um að villast, að það er þarna ennþá. Ég mun alltaf muna lokadaginn í baráttu okkar Bjössa, ég ætlaði sko ekki að missa sigurinn úr höndunum og það var gaman að geta glatt soninn með því að hann gæti mætt á Wembley. Ég þakka kærlega fyrir mig,“ sagði Guðjón að lokum.
Fyrst sinn á Wembley
Það var aldrei vafi í huga Ingimundar, sonar Guðjóns að skella sér á Wembley.
„Ég þurfti ekki að hugsa mig um tvisvar og sagði strax já. Ég hef oft farið út á leiki en aldrei á Wembley, þetta er ótrúlega flott mannvirki og við vorum heppnir með leik og svo var allt í aðdraganda leiksins ótrúlega flott. Englendingar bera greinilega mikla virðingu fyrir þessari elstu og virtustu knattspyrnukeppni heims og sem United-maður var auðvitað gaman að sjá Crystal Palace vinna nágranna okkar í Manchester City. Það hefði verið skemmtilegra upp á stemninguna að sitja með stuðningsmönnum Palace en áhorfslega vorum við á mjög góðum stað. Það var gaman að sjá mark Palace, við gátum ekki verið á betri stað til að sjá það. Það var mikil dramatík í þessum leik, gaman að vera innan um City-stuðningsmenn þegar vítadómurinn var skoðaður og upplifa vonbrigði þeirra þegar vítaspyrnunni var klúðrað! Palace skoraði annað mark en það skoðað í VAR og dæmt ógilt, ég á lengi eftir að muna eftir þessum leik.
Ég hef eins og ég segi, nokkuð oft farið út á leiki, m.a. með Tólfunni að styðja íslenska landsliðið og ég mun segja mínum mönnum frá þessum stuðningsmönnum Palace, þeir voru syngjandi og hvetjandi allan tímann og tóku stuðningsmenn City í karphúsið! Þegar City menn byrjaðu að syngja eitthvað af sínum lögum voru þeir kaffærðir af Palace-stuðningsmönnum og það var gaman að heyra þá kyrja sitt helsta lag, Glad all over, það lag myndi sóma sér vel með góðum Tólfu-texta!

Til að toppa daginn buðu Víkurfréttir svo út að borða og ég fékk að velja staðinn, það kom ekkert annað til greina en Nando´s kjúklingastaðurinn! Við þurftum að vakna eldsnemma á leikdegi fyrir flugið og sem betur fer gat ég eitthvað sofið í vélinni en svo var bara haldið beint á Wembley. Hótelið sem Njóttu ferðir buðu upp á var á fullkomnum stað, við Standsted flugvöllinn og ég viðurkenni að það voru lúin bein sem lögðust á koddann á laugardagskvöld. Góður enskur morgunmatur tekinn og stutt frá hótelinu upp á flugvöll. Ekki amalegt að lenda á Íslandi um tvö-leytið og halda að maður hafi farið í vitlausa flugvél og væri lentur á Spáni! Ég er í skýjunum með þessa ferð og þakka hér með Víkurfréttum og Njóttu ferðum kærlega fyrir mig,“ sagði Ingimundur að lokum.