Skjólið fær nýja aðstöðu
Mikilvægt úrræði fyrir fötluð börn í brennidepli
Bæjarráð Reykjanesbæjar leggur ríka áherslu á að finna framtíðar húsnæði fyrir Skjólið, frístundastarf fyrir fötluð börn og ungmenni í bæjarfélaginu. Á fundi bæjarráðs þann 15. maí var tekið vel í tillögu velferðarsviðs um að nýta aðstöðu leikskólans Drekadals að Grænásbraut 910 tímabundið, þegar leikskólinn flytur í nýtt húsnæði í sumar.
Skjólið er lögbundið og afar mikilvægt úrræði sem veitir börnum með fötlun stuðning eftir skóla. Bæjarráð tekur undir mikilvægi þess að finna Skjólinu ekki aðeins tímabundið húsnæði, heldur einnig framtíðarlausn þar sem boðið verði upp á stærri og heildrænni þjónustu fyrir fötluð börn og ungmenni.
Í því samhengi hefur verið horft til húsnæðis hjúkrunarheimilisins Hlévangs að Faxabraut 13, en fyrirhugað er að íbúar hússins flytjist á nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum í lok ársins 2025. Þá er einnig vel tekið í hugmyndir um að Skjólið geti fengið aðstöðu í Keili þegar Drekadalur flytur þaðan út, þó að Fimleikadeild Keflavíkur hafi þegar fengið þar rými.
Málinu hefur nú verið vísað til stjórnar Eignasjóðs til frekari skoðunar.