Þorbjörn Aðalfundir
Þorbjörn Aðalfundir

Fréttir

Dýpkun Njarðvíkurhafnar að ljúka
Pétur mikli hefur verið á þönum á hafnarsvæðinu í Njarðvík síðustu misseri. VF/Hilmar Bragi
Laugardagur 24. maí 2025 kl. 06:05

Dýpkun Njarðvíkurhafnar að ljúka

Skjólgarður kemur næst en varðskipin láta ekki sjá sig

Framkvæmdum við dýpkun Njarðvíkurhafnar er nú að ljúka og undirbúningur hafinn að næsta áfanga, sem felur í sér gerð skjólgarðs sunnan við núverandi hafnarmannvirki. Þetta kom fram á fundi atvinnu- og hafnarráðs Reykjanesbæjar sem haldinn var þann 15. maí.

Dýpkunarframkvæmdirnar hófust fyrir ári síðan og náðu til hafnarsvæðisins sjálfs og innsiglingarinnar. Verkefnið er liður í eflingu hafnarinnar og að bæta móttökugetu hennar. Áður hafði, í maí 2023, verið undirrituð viljayfirlýsing milli Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar, Landhelgisgæslu Íslands og þáverandi dómsmálaráðherra um að koma þar upp aðstöðu fyrir skipastól Landhelgisgæslunnar, samhliða uppbyggingu skjólgarðsins.

Ekki hefur þó tekist að ná endanlegu samkomulagi við stjórnvöld um uppbyggingu aðstöðunnar, þrátt fyrir fullan vilja af hálfu Reykjaneshafnar og bæjarins. Af þeim sökum samþykkti atvinnu- og hafnarráð að fara mætti fram með einfaldari útfærslu á skjólgarðinum en upphaflega var gert ráð fyrir. Sú útfærsla mun þó ekki útiloka frekari uppbyggingu fyrir Gæsluna í framtíðinni, þegar samkomulag næst.

Bílakjarninn
Bílakjarninn