Þorbjörn Aðalfundir
Þorbjörn Aðalfundir

Fréttir

Breytingar framundan á grenndarstöðvum í Reykjanesbæ
Laugardagur 24. maí 2025 kl. 06:10

Breytingar framundan á grenndarstöðvum í Reykjanesbæ

Hagræðing og betri aðkoma markmiðið

Grenndarstöðvum í Reykjanesbæ verður breytt í sumar með það að markmiði að bæta aðgengi, útlit og hagræða í rekstri. Þetta kom fram á fundi umhverfis- og skipulagsráðs Reykjanesbæjar sem haldinn var 16. maí síðastliðinn.

Í dag eru sex grenndarstöðvar starfandi í sveitarfélaginu – tvær í Innri Njarðvík, tvær í Keflavík, ein á Ásbrú og ein í Höfnum. Flestar þeirra voru settar upp árið 2021. Nú hefur Reykjanesbær, í samvinnu við Kölku, hafið vinnu við endurskipulagningu stöðvanna og verður breytingum hrundið í framkvæmd í vor eða sumar.

Með breytingunum er stefnt að því að gera grenndarstöðvarnar aðlaðandi og snyrtilegar svo þær styðji betur við markmið um aukna endurvinnslu og bætta flokkun íbúa. Óskað var eftir afstöðu ráðsins til núverandi og mögulegra nýrra staðsetninga, sérstaklega í tengslum við ný hverfi og breytingar á deiliskipulagi eldri hverfa. Einnig var óskað eftir skýrum reglum um leyfisveitingar fyrir skjólveggjum við stöðvarnar.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Ráðið samþykkti að heimila breytingar á deiliskipulagi Dalshverfis III, Dalshverfis I og Tjarnarhverfis til að gera ráð fyrir grenndarstöðvum. Þar sem ekki er í gildi deiliskipulag fyrir önnur svæði, skal gera ráð fyrir slíku í nýju skipulagi ef staðsetning hentar. Að öðrum kosti skal kynna tillögur að staðsetningum sérstaklega áður en endanleg ákvörðun er tekin.