Laugardagur 24. maí 2025 kl. 06:20

Börnin léku á als oddi í Hljómahöll

Á dögunum fór fram lokahátíð verkefnisins Leikgleði  í grunnskólum Reykjanesbæjar. Í verkefninu hefur verið unnið með nám þar sem málörvun, gleði, leikur, hópefli, virk þátttaka nemenda og frjáls tjáning hefur verið í aðalhlutverki.

Verkefnið hófst í raun fyrir tveimur árum í leikskólum Reykjanesbæjar og gekk það vel að sótt  var aftur um styrk í Sprotasjóð til að vinna með verkefnið í grunnskólum bæjarins í 1. og 2. bekk. Hljómahöllin var þétt setin þennan dag og öll komu börnin fram á þessu fræga sviði og hver veit nema sum þeirra eigi eftir að leggja einhvers konar listir fyrir sig í framtíðinni.

Frá vinstrik Ólöf Kristín Guðmundsdóttir, Ingibjörg (Imma) Ásdís Sveinsdóttir og Birte Harksen.

Ólöf Kristín Guðmundsdóttir eða Lóa eins og hún er jafnan kölluð, er kennsluráðgjafi á Menntasviði Reykjanesbæjar. Hún stýrir verkefninu og fékk sérfræðinga úr höfuðborginni, leikskólakennarana Ingibjörgu (Imma) Ásdísi Sveinsdóttur og Birte Harksen, sér til halds og trausts þennan sólríka dag.

„Hugmyndin af þessu öllu vaknaði þegar ég fór á námskeiðið Málörvun með sögum og söng sem var í Menntafléttunni hjá Háskólanum á Akureyri, Birte var kennari á því námskeiði. Þegar ég var á námskeiðinu fékk ég þá hugmynd að þetta væri akkúrat eitthvað fyrir okkur í Reykjanesbæ til að vinna með yngstu börnunum okkar. Ég átti samtal við leikskólastjóra í leikskólum bæjarins sem tóku allir vel í þessa hugmynd, svo sóttum við um styrk hjá Sprotasjóði sem við fengum og verkefnið fór á fullt og allir voru mjög áhugasamir í vinnunni. Í framhaldi af frábærum árangri með verkefnið sóttum við aftur um styrk til að færa vinnuna inn í fyrstu tvo bekki grunnskólanna þar sem áhersla var á að vinna með þyrlusögur og skuggaleikhús. Mikil og frábær vinna fór fram í öllum grunnskólunum í vetur og áhugi nemenda var mjög mikill eins og sést vel á þátttöku þeirra hér í dag. Margir skólar unnu metnaðarfull verkefni, eins og að gefa út bók þar sem nemendur gerðu sögu og teiknuðu myndirnar. Einn skólinn sýndi hér myndband af leikriti sem var unnið út frá sögu sem nemendur bjuggu sjálf til, svo dæmi séu tekin. Kennarar voru einnig mjög áhugasamir og vann til dæmis einn kennari Meistaraprófs, ritgerð sína út frá vinnu með verkefnið Leikgleði.

Það hefur komið fram sú hugmynd að halda áfram með verkefnið næsta vetur bæði í leik-og grunnskólum, og er ég nokkuð viss um að svo verði,“ segir Ólöf.

Sögur og söngur í starfi með börnum

Fyrir utan leikskólakennaramenntunina er Imma menntaður bókamenntafræðingur auk þess sem hún fékk kennsluréttindi í gegnum listnám sitt í Myndlista- og handíðaskólanum, sem í dag heitir Listaháskóli Íslands.

„Við vorum byrjaðar með verkefni í leikskólunum sem við kölluðum Leikur af bókum þar sem við lásum sögu og lékum söguna, það var mjög skemmtilegt og börnin höfðu mikið gaman af. Svo færðum við okkur inn í grunnskólana, sýndum börnum skuggaleikrit og verkefnið hefur vaxið og dafnað síðan þá. Þetta hefði samt aldrei gengið upp ef ekki væri fyrir vilja og áhuga allra kennaranna að taka þátt í þessu, hlutverk okkar Birte var bara að veita kennurunum innblástur og halda utan um verkefnið ásamt Lóu verkefnastjóra.

Ég er sannfærð um að börnin hafa ofboðslega gott af þessu, þetta er mikil valdefling fyrir þau en þau fá bæði tækifæri á að skapa og leika, sumir setja sig í raun í hlutverk leikstjóra og ég veit að börnin hafa gott af því að æfa sig í að koma fram, þetta mun valdefla þau í framtíðinni,“ segir Imma.

Birte sem er dönsk og kallar sig Birta, segir að þær Imma hafi lengi unnið að svona þróunarverkefnum inni í leikskólunum. Hún skýrði út hvað þyrlusaga þýðir og hvaðan þetta samheiti yfir það sem börnin eru að gera, kemur.

„Við Imma höfum verið að halda námskeið fyrir kennara og annað starfsfólk, í að nota sögur og söng í starfi með börnum. Þannig kom það til að við vorum beðnar um að vera sérfræðingar í þessu þróunarverkefni hér í Reykjanesbæ. Við byrjuðum inni í leikskólunum og svo var ákveðið að færa þetta inn í grunnskólana, fyrst fyrir 1. bekk en á þessu skólaári var 2. bekkur líka tekinn inn.

Ástæðan fyrir að þessi gjörningur er kallaður þyrlusaga er að drengur sem var að taka þátt í þessu, steig inn á sviðið og sagðist vera þyrla og lék þyrlu, þannig varð til þetta samheiti, þyrlusaga. Þetta virkar þannig að barnið eða börn, fá hugmynd að sögu, skrifa hana niður ef þau eru byrjuð að læra að lesa og skrifa, sjá svo söguna fyrir sér og heimfæra hana yfir á svið í leikþátt. Sum börnin eru komin í hlutverk leikstjóra og úr verður að börnin njóta sín til hins ýtrasta við sköpun og túlkun, þau vinna verkefnið saman, læra að vinna saman. Ég er algerlega sannfærð um að þetta mun reynast börnunum frábært veganesti inn í lífið, ekkert endilega að þau leggi leiklist, söng eða dans fyrir sig, þetta mun bara nýtast þeim í sjálfu lífinu,“ segir Birta.

Listafólk framtíðarinnar

Hafsteinn Logi Atlason og Sóllilja Alaia Roa Valsdóttir eru í 2. bekk í Njarðvíkurskóla, þeim fannst verkefnið mjög skemmtilegt.

„Við erum saman í bekk og það er búið að vera rosalega gaman að taka þátt í þessu, við byrjuðum í fyrra í 1. bekk, vorum þá að skrifa þyrlusögur og það var gaman að sýna það hér í Hljómahöllinni. Lagið sem við æfðum og fluttum heitir Það er skemmtilegast að leika sér þegar allir eru með, við ætlum bæði að verða söngvarar þegar við verðum stór,“ sögðu bekkjarsystkinin.

Sóldís Lilja Jónsdóttir vinstra megin, Gabríela Rós Völudóttir hægra megin.

Gabríela Rós Völudóttir og Sóldís Lilja Jónsdóttir eru í Heiðarskóla, það kæmi ekki á óvart að þær eigi eftir að leggja einhverja listgrein fyrir sig þegar þær verða stórar.

„Við höfum verið að æfa einu sinni í viku í allan vetur, þetta er búið að vera mjög skemmtilegt. Við ákváðum lagið sem við sungum á árshátíðinni okkar, það lag var líka í Krakkaskaupinu. Við ætlum að verða dansarar þegar við verðum stórar, við erum að æfa í Danskompaní. Jú, við ætlum líka að verða leikarar og söngvarar,“ sögðu þessar upprennandi listakonur að lokum.