Mannlíf

Systurnar láta til sín taka í félagsmálum Garðbúa
Gullý og Jóna Sigurðardætur á skrifstofu SI raflagna. VF/SDD
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 31. ágúst 2024 kl. 06:04

Systurnar láta til sín taka í félagsmálum Garðbúa

Systurnar Gullý og Jóna Sigurðardætur úr Garðinum eru dætur rafvirkjameistarans Sigurðar Ingvarssonar og Kristínar Erlu Guðmundsdóttur sem stofnuðu fyrirtæki sitt, SI raflagnir, árið 1969. Fyrirtækið hefur alltaf verið í Garðinum en er líka með bækistöð í Kópavogi þar sem stór hluti rekstursins fer fram á höfuðborgarsvæðinu og auðvitað á öllum Suðurnesjunum. Systurnar reka skrifstofu fyrirtækisins og hafa lengi látið til sín taka í félagsmálum Garðbúa, eru báðar virkar í kvenfélaginu Gefn og Gullý hefur lengi verið viðloðandi starf knattspyrnudeildar Víðis.

Jóna segir að ný kynslóð sé nokkurn veginn tekin við af pabba þeirra en sá gamli kíkir ennþá við, tekur til á verkstæðinu og fer i sendiferðir ef þarf. Sigurður og kona hans, Kristín Erla Guðmundsdóttir, fylgjast bæði vel með því sem er að gerast innan fyrirtækisins.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Vaxið fiskur um hrygg

„Pabbi er af þessari kynslóð þar sem engu má henda. Við erum ennþá með fullt af gömlu dóti inni á lager sem ég hef enga trú á að verði nokkurn tímann notað.

Þessu fyrirtæki hefur vaxið fiskur um hrygg má segja allar götur síðan pabbi stofnaði það árið 1969 í bílskúrnum hér í Garðinum. Fljótlega var hann búinn að bæta við starfsfólki og þegar mest var voru starfsmennirnir 36 en í dag eru að jafnaði tuttugu rafvirkjar sem starfa hjá fyrirtækinu. Lengi vel rákum við verslun hér í Garðinum en svo kom að því að við opnuðum búð í Keflavík árið 2006. Vorum þá að selja bæði raftæki og íþróttavörur en lokuðum versluninni árið 2017. SI raflagnir er með útibú í Kópavogi, það veitir  ekkert af því þar sem við erum með mikla starfsemi á höfuðborgarsvæðinu og með stóran hóp viðskiptavina.

Segja má að þetta sé fjölskyldufyrirtæki, eiginmenn okkar Gullýar eru báðir rafvirkjar og synir okkar vinna líka hjá fyrirtækinu. Elías Líndal, maður Gullýar, er úr Njarðvík og Ólafur Róbertsson, maðurinn minn, er úr Keflavík. Ólafur lék lengi með knattspyrnuliði Víðis. Segja má að þeir séu teknir við daglegum rekstri fyrirtækisins ásamt okkur systrum en eins og ég segi, pabbi er ennþá með puttann á púlsinum,“ segir Jóna.

Rafvirkjameistarinn Sigurður Ingvarsson (l.t.v.) ásamt starfsmönnum SI raflagna.

Víðir og félagsstörf

Systurnar hafa löngum látið til sín taka í félagsmálum Garðbúa og eru báðar virkar í kvenfélaginu Gefn og Gullý hefur síðan hún var lítil stelpa komið að starfi knattspyrnufélags bæjarins, Víðis.

„Ég man eftir mér ungri að selja inn á leiki Víðis og hef alltaf tekið einhvern þátt í starfinu. Gekk fyrst í stjórn þegar ég var átján ára og sömuleiðis hef ég verið í stjórn KSÍ. Þetta hefur verið mjög skemmtilegur og gefandi tími. Við náðum auðvitað mögnuðum árangri á níunda áratugnum þegar við vorum með liðin okkar í efstu deildum bæði karla og kvenna, nánast eingöngu skipað heimamönnum en þá bjuggu tæplega þúsund manns í Garðinum. Oft voru fleiri á heimaleikjum okkar en íbúafjöldi bæjarins var og er mér til efs að þetta afrek verði nokkurn tíma leikið eftir. Í dag er miklu meira um erlenda leikmenn en við erum búin að sameina barnastarfið með Reyni Sandgerði en stelpurnar fara í fimmta flokki yfir til Reykjanesbæjar og spila með RKVN. Eflaust munu meistaraflokkarnir sameinast á endanum, það getur ekki verið gott að nágrannaliðin séu að slást um sömu krónurnar og sömu leikmenn. Hins vegar þarf margt að gerast í hugsunarhætti beggja aðila áður en meistaraflokkarnir sameinast, við verðum að sameinast inn á við áður en við ætlum að ganga skrefið og sameinast inni á vellinum,“ segir Gullý.

„Við systur óskum Suðurnesjabúum gleðilegra Vitahátíðardaga og skorum á bæjarbúa að taka þátt í hátíðinni og njóta samverunnar saman,“ sögðu systurnar að lokum.