Sóknarfæri í Suðurnesjabæ
Lýðheilsa og hreysti eru hugtök sem snerta okkur öll og ættu að vera veigamiklir áherslupunktar fyrir ríki og sveitarfélög til að setja í forgrunn til að hlúa að heilbrigðu samfélagi. Mikilvægt er að stuðla að því að börn frá leikskólaaldri og uppúr eigi greiðan aðgang að hreyfiúrræðum og íþróttaiðkun til að auka hreyfifærni sína og þroska. Snemmtæk íhlutun, sýnileiki íþrótta og nærumhverfi sem styður við íþróttaiðkun mynda í sameiningu kjöraðstæður fyrir einstaklinga til þess að mynda tengsl og ástríðu fyrir íþróttum sem vonandi verður rauði þráðurinn í gegnum lífshlaup fólks og stuðlar að heilbrigðri sál í hraustum líkama.
Á Suðurnesjum er rík hefð fyrir íþróttaiðkun og ef litið er á svæðið sem eina heild má sjá mikla flóru og fjölbreytni í íþróttastarfi. Á Suðurnesjum búa um 30 þúsund íbúar og bjóða um 20 íþróttafélög uppá barna- og unglingastarf innan sinna raða, allt frá körfubolta og knattspyrnu til siglinga og akstursíþrótta. Ef betur er að gáð kemur þó í ljós ákveðið misræmi milli sveitarfélaga hvað varðar framboð íþróttagreina. Í ljósi þeirra atburða sem átt hafa sér stað á Reykjanesinu undanfarin ár m.t.t. jarðhræringa og eldgosa er Grindavík ekki tekið með inn í þessa upptalningu en ljóst er þó að þar ríkti afar öflugt íþróttastarf fyrir rýmingu bæjarins. Blómlegast er starfið í Reykjanesbæ þar sem íbúar hafa annars vegar aðgengi að tveimur stórum fjölgreinafélögum, sem bjóða uppá nokkrar íþróttagreinar, og hins vegar miklum fjölda af eingreinafélögum, sem sérhæfa sig í einni íþrótt. Í Reykjanesbæ er í boði að stunda rúmlega 20 íþróttagreinar. Í Suðurnesjabæ samanstendur framboð íþróttagreina af knattspyrnu, golfi og nú nýlega handbolta og júdó. Í Vogunum er boðið uppá æfingar í knattspyrnu, sundi, golfi og rafíþróttum. Það gefur því augaleið hversu gjörólíkt umhverfið er fyrir börn og ungmenni þegar kemur að úrvali og aðgengi að íþróttagreinum eftir búsetu innan svæðisins. Fjölmörg dæmi eru fyrir því að börn og ungmenni úr Suðurnesjabæ og Vogum sæki í íþróttagreinar út fyrir sitt sveitarfélag og í nærliggjandi sveitarfélög, þ.m.t. Reykjanesbæ. Má þar taka sem dæmi fimleika, körfuknattleik, borðtennis og tae kwon do. Það má þó ekki gera lítið úr því sem í boði er utan Reykjanesbæjar. Íþróttafélögin í Suðurnesjabæ og í Vogum sníða sér stakk eftir vexti og skal enginn efast um að þar, eins og annars staðar, er boðið uppá gott starf sem haldið er uppi af fólki með ástríðu fyrir íþróttum og sínum íþróttafélögum. Mismunandi stærð sveitarfélaganna spilar einnig veigamikinn þátt í því hversu mikið framboð íþróttagreina er í boði og hversu raunhæft er að halda úti starfsemi á mörgum vígstöðum. Það telst því alla jafna eðlilegt að framboð sé meira í stærri sveitarfélögum.
Með sameiningu Sandgerðis og Garðs í eitt sveitarfélag, Suðurnesjabæ, þann 10. júní 2018 varð til næststærsta sveitarfélag svæðisins í dag með um 4.000 íbúa (ef við miðum við núverandi stöðu Grindavíkur). Hvað telst mikið eða lítið framboð íþróttagreina er í mörgum tilfellum huglægt mat en fyrir sanngirnissjónarmið er e.t.v. heppilegast að miða samanburðinn við álíka stór sveitarfélög og Suðurnesjabæ. Í þessum skilningi skulum við notast við sveitarfélögin Skagafjörð (4.300 íbúar), Borgarbyggð (4.100 íbúar), Vestmannaeyjar (4.400 íbúar), Ísafjörð (3.800 íbúar) og Hveragerði (3.300 íbúar). Eins og áður segir býður Suðurnesjabær uppá 4 íþróttagreinar til iðkunar og þar af eru tvær þeirra tiltölulega nýjar á lista og á þróunarstigi. Í samanburði við þau sveitarfélög sem hér á undan voru talin upp þykir framboðið ekki vera uppá marga fiska. Í Skagafirði (9 íþróttagreinar í boði), í Borgarbyggð (8 íþróttagreinar í boði), í Vestamannaeyjum (13 íþróttagreinar í boði), á Ísafirði (11 íþróttagreinar í boði) og í Hveragerði (8 íþróttagreinar í boði) er framboð í minnsta lagi tvöfalt meira en það sem Suðurnesjabær státar af. Ástæður fyrir þessari skekktu mynd geta verið margs konar en líklegt er að ein þeirra sé ungur aldur sameinaðs sveitarfélags og þeir vaxtaverkir og hindranir sem Suðurnesjabær hefur staðið frammi fyrir síðustu misseri. Lengi hefur staðið til að leggja gervigrasvöll á svæðinu en illa hefur gengið að komast að sátt um staðsetningu vallarins og hefur málið m.a. klofið bæjarstjórn og orðið að þrætuepli milli byggðakjarna. Þörfin fyrir slíka heils árs knattpyrnuaðstöðu er brýn, eins og formenn beggja félaga hafa réttilega bent á, og myndi sátt um málið ýta undir að grunnur yrði lagður að framtíðarhorfum sveitarfélagsins í íþróttamálum. Ákallið eftir slíkri aðstöðu er þekkt stef og óhætt að segja að hún sé nauðsynleg fyrir íþróttastarfið til að íþróttafélögin séu samkeppnishæf í aðstöðumálum gagnvart öðrum íþróttafélögum. Bætt aðstaða getur komið í veg fyrir brottfall iðkenda úr sínum uppeldisfélögum til nærliggjandi sveitarfélaga sem hafa slíka aðstöðu til umráða. Undanfarin áratug eða svo hafa yngri flokkar í Suðurnesjabæ staðið höllum fæti í þessum efnum og þónokkur dæmi um unga iðkendur sem sækja í íþróttafélög í Reykjanesbæ, m.a. á þessum forsendum. Erfitt er að fullyrða um afdrif þeirra sem yfirgefa sín uppeldisfélög snemma á lífsleiðinni og þau tengsl sem þeir mynda en þó má draga þá ályktun að iðkendur séu líklegri til þess að mynda órjúfanleg bönd við uppeldisfélög sín ef þeir endast út unglingsárin innan þeirra raða. Í Suðurnesjabæ eru tvær íþróttamiðstöðvar þar sem aðstaða til íþróttaiðkunar eru góðar og myndi losna um tíma í þeim mannvirkjum með því að færa knattpyrnu alfarið út á gervigrasvöll. Með fjölgun lausra tíma í íþróttamannvirkjum sveitarfélagsins gæti skapast frjósamari jarðvegur fyrir aðrar íþróttagreinar til þess að ryðja sér til rúms og verða um leið líklegri til að halda dampi.
Á nýliðnum vetri undirrituðu formenn Víðis í Garði og Reynis í Sandgerði viljayfirlýsingu um stofnun nýs, sameinaðs íþróttafélags. Félögin hafa í samstarfi við íþrótta- og tómstundaráð Suðurnesjabæjar unnið hörðum höndum að því að kortleggja stöðuna og gert vel í að innvinkla almenning inn í ferlið, m.a. með opnum íbúafundi þar sem þátttakendum gafst kostur á því að setja mark sitt á framtíðarsýn, segja skoðun sína á fyriráætlaðri sameiningu og koma með athugasemdir um framkvæmdina. Til stendur að félagsmenn beggja félaga kjósi um sameininguna á aðalfundum félaganna um miðjan maí og gefst félögum Reynis og Víðis því kostur á því að samþykkja eða hafna tillögunni. Undirrituð mættu á opinn íbúafund í Gerðaskóla þann 14. janúar s.l. þar sem vel var mætt og ólíkar raddir fólks fengu að heyrast. Þátttaka í framtíðarsýninni og þeirri vinnu sem lögð var af stað með í borðavinnu á íbúafundinum sýndu að skýrt ákall er frá bæjarbúum að þróun þurfi að eiga sér stað í íþróttamálum í sveitarfélaginu. Mikill vilji virðist vera til staðar að búa þannig um hnútana að Suðurnesjabær geti státað sig af öflugu og fjölbreyttu íþróttastarfi. Sama hvort íbúar Suðurnesjabæjar séu hliðhollir eða andvígir sameiningu íþróttafélaganna þá virðast samnefnarar um vilja til framfara og þróunnar liggja báðum megin við línuna.
Þátttaka barna og ungmenna í íþróttastarfi er ein besta forvörn sem fyrir finnst. Það er engum blöðum um það að fletta hver ávinningurinn af íþróttaiðkun er, sama hvort um ræðir félagslegan, líkamlegan eða andlegan ávinning. Það ætti því að vera vilji okkar allra að börn hafi kost á því að stunda íþróttir og hafi þess kost að finna sér íþrótt sem þau hafa ástríðu fyrir. Börn eru mismunandi eins og þau eru mörg. Við komum öll úr ólíkum aðstæðum, með mismunandi bakgrunn og ólík áhugasvið. Erfitt er að finna eitthvað eitt sem öllum geðjast að eða allir finna sig í og því mikilvægt að umhverfið sem við ölumst upp í bjóði uppá fjölbreytta valkosti sem auka líkurnar á því að einstaklingar finni sig í íþróttum, njóti þeirra og endist í þeim. Sennilega hafa íþróttir sjaldan verið í meiri samkeppni um tíma barna og unglinga eins og í dag þar sem aðrir afþreyingarkostir eru freistandi og höfða sterkt til þessa hóps. Almennt hefur þátttaka barna og unglinga í íþróttastarfi verið að dvína undanfarin áratug. Samkvæmt tölum úr starfsskýrsluskilakerfi ÍSÍ og UMFÍ fyrir árið 2023 voru iðkendur í Reyni Sandgerði á bilinu 17-18 ára samtals núll. Hjá Víði í Garði var einn iðkandi á þessu aldursbili skráður til æfinga. Ef við skoðum grunnskólaaldurinn í þessu samhengi þá voru 109 iðkendur hjá Reyni Sandgerði á aldursbilinu 6-16 ára og hjá Víði Garði voru iðkendur 81. Yngri flokkar félaganna hafa um árabil keppt undir sameinuðum merkjum Reynis og Víðis og þar með getum við sagt að 190 grunnskólabörn hafi stundað íþróttir innan félaganna á þessum tíma. Það stingur óneitanlega að sjá brottfallið sem virðist eiga sér stað á menntaskólaárum og það telst í besta falli óeðlilegt að aðeins eitt ungmenni á bilinu 17-18 ára hafi æft innan félaganna á þessum tíma í jafn stóru sveitarfélagi og Suðurnesjabær er. Vissulega er eðlilegt að eitthvað brottfall eigi sér stað á þessum tíma en betur má ef duga skal. Ef lesið er á milli línanna má leiða að því líkur að erfitt sé fyrir sjálfbæra endurnýjun í meistaraflokksstarfi að eiga sér stað þegar grasrótarstarfið skilar fáum eða jafnvel engum iðkendum uppúr yngri flokka starfinu. Lykillinn að þeirri vegferð eru stórir yngri flokkar þar sem samkeppni er til staðar, utanumhald er eins og best verður á kosið og eðlilegt brottfall kemur ekki niður á lífslíkum árganga eða flokka eftir því sem þeir verða eldri.
Kröfur til íþróttastarfs hafa aldrei verið meiri en þær eru í dag og eins og í flestum íþróttafélögum liggur mikil ábyrgð á herðum sjálfboðaliða og stjórnarfólks. Innan íþróttahreyfingarinnar eru kröfur á þennan hóp fólks sífellt að verða meiri og þörfin fyrir fleiri launuð stöðugildi innan íþróttafélaga því brýn þar sem ekki er hægt að ætlast til að fólk sem sinnir annarri vinnu utan sjálfboðaliðastarfa geti staðið fullan straum af þeim verkefnum sem íþróttafélög standa frammi fyrir á degi hverjum. Rekstrarumhverfið er krefjandi og á litlu svæði er hart barist um bitana og takmarkað fjármagn er í boði til að halda úti meistaraflokksstarfi, stöðugildum þjálfara, aðbúnaði og öðrum tilfallandi kostnaði. Að þessu leytinu til eru hagkvæmnissjónarmið ríkjandi þegar litið er til mögulegrar sameiningar félaganna þar sem tækifæri til þess að sameina krafta góðs og öflugs fólks í eina sæng hefur mikla möguleika til þess að auka gæði starfsins, stækka hóp sjálfboðaliða og þeirra sem áhuga hafa á því að sitja í stjórnum. Auk þess gæti framkvæmdastjóri í fullu starfi tekið hitann og þungann af daglegum rekstri félagsins og borið ábyrgð á faglegu starfi inann þess. Að því sögðu væri vissulega gott að vita til þess að styrktaraðilar og velunnarar gætu flykkt sér á bakvið eitt félag og skapað myndarlegt bakland fyrir eitt félag sem hefði meira á milli handanna en tvö aðskilin félög, að því gefnu að styrktaraðilar átti sig á þeirri samfélagslegu ábyrgð sem hvílir á þeim að styðja við slíka aðgerð. Faglegt umhverfi í kringum nýtt félag gæti orðið með besta móti, ef vel er að málum staðið, og gæti slíkt umhverfi ýtt undir keðjuverkjun í formi þess að eftirsóknarvert yrði að starfa hjá félaginu og þeim mun auðveldara yrði að ráða til sín reynslumikla þjálfara sem gætu aðstoðað með uppbyggingu og stefnu í þjálfaramálum innan félagsins, sé þess þörf.
Ljóst er að miklar tilfinningar eru í umræðunni um sameiningarmál í Suðurnesjabæ og ef marka má hljóðið í gestum á íbúafundi var saga íþróttafélaganna og táknrænt gildi þeirra ofarlega í huga fólks þegar kemur að hindrunum í veginum. Það er skiljanlegt að erfitt geti verið að sjá fyrir sér nýtt upphaf sem markar endalok einhvers sem fólk hefur tekið ástfóstri við og hlúð að alla sína ævi. Margar kynslóðir hafa unnið óeiginjarnt starf í þágu Víðis og Reynis og átt stóran hlut í því að byggja félögin upp og viðhalda þeim. Þessu fólki verður aldrei fullþakkað. Aftur á móti höfum við séð ágætlega heppnaðar sameiningar íþróttafélaga þar sem vel hefur tekist til að skrá og viðhalda sögunni og gera hana sýnilega þeim sem ekki voru uppi á þeim tíma. Sem dæmi má nefna sameiningu Þórs og Týrs í ÍBV sem þótti erfitt fjall að klífa á sínum tíma en sagan hefur sýnt okkur að þar var mikið gæfuskref tekið fyrir framtíð íþróttalífs í Vestmannaeyjum. Það er einmitt á þeim forsendum sem líta þarf á málið. Hvernig á framtíðin að líta út? Fyrir hvern er framtíðin? Augljósa svarið er að framtíðin er ekki okkar sem munum eftir Þór og Týr heldur þeirra sem erfa það sem upp er byggt eða eftir er skilið. Börnin. Eftir 10 ár getum við spurt okkur hvort vel hafi til tekist og hvort rétt hafi verið að sameina félögin eða hvort rétt hafi verið að sameina ekki, eftir því hvernig kosið verður þegar að því kemur. Ef mið er tekið af þeim sóknarfærum sem sameining Víðis og Reynis getur haft í för með sér, og því ákalli frá bæjarbúum um þróun íþróttamála í sveitarfélaginu, er raunin sú að stofnun nýs félags geti orðið mikil lyftistöng til framtíðar. Íþróttafélag sem sameinar næstu kynslóð og þær sem á eftir þeim koma. Það er lítið því til fyrirstöðu að merkjum og fánum gömlu rótgrónu íþróttafélaganna sé haldið hátt á lofti og saga þeirra skráð og til sýnis á viðeigandi stöðum í samfélaginu. Um leið leyfum við gömlum glæðum hrepparígsins að lifa með þeim sem tóku þátt í að skrifa söguna og voru hluti af henni. Það ætti að vera keppikefli og stolt samfélagsins að búa þannig um hnútana að framtíðin líti betur út en nútíminn og fortíðin. Fari svo að vilji félagsmanna verði á þann veg að félögin verði ekki sameinuð vonumst við til að Víðir og Reynir haldi áfram að vinna saman í þágu allra íbúa Suðurnesjabæjar með framtíðina að leiðarljósi.
Sigurður Friðrik Gunnarsson
Petra Ruth Rúnarsdóttir
Höfundar eru svæðisfulltrúar íþróttahéraða á Suðurnesjum