Ekki alltaf dans á rósum
Knattspyrnumaðurinn Daníel Leó Grétarsson er kominn með yfir tuttugu A-landsleiki og er að klára sitt ellefta ár í atvinnumennsku
„Það yrði gaman að enda ferilinn með Grindavík en það er ómögulegt að segja til um hvenær það yrði. Mér líst vel á liðið núna eftir erfitt ár í fyrra en það er búið að vera hálf súríalíst að fylgjast með stöðu mála í mínum gamla heimabæ síðan hamfarirnar hófust árið 2023. Ég vona að það versta sé yfirstaðið og þessi frábæri bær og samfélag geti byggst upp aftur,“ segir atvinnuknattspyrnumaðurinn og Grindvíkingurinn Daníel Leó Grétarsson. Hann hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu undanfarin ár og er að klára sitt ellefta ár í atvinnumennskunni. Hann hefur farið nokkuð víða en er að klára annað tímabilið sitt í Danmörku og ætlar sér að eiga nokkur ár í viðbót í þessari draumaatvinnugrein knattspyrnumannsins en hann verður þrítugur á þessu ári.

Daníel segir að hann hafi haft mjög góða þjálfara í yngri flokkunum í Grindavík en sá sem hafði mest áhrif á hans knattspyrnuferil var Milan Stefán Jankovic.
„Þeir Jóni Óli Daníelsson, Eysteinn Húni Hauksson og Ægir Viktorsson voru mest með mig í yngri flokkunum og svo tók Milan Stefán við mér. Það var hann sem sá hafsent í mér og setti mig í þá stöðu en fram að því hafði ég verið miðjumaður en Jankó hafði greinilega það mikla trú á mér að þegar ég var í níunda og tíunda bekk sótti hann mig nokkrum sinnum í viku klukkan sex á morgnana og við tókum aukaæfingu í Hópinu. Þegar ég hugsa til baka þá man ég að mér fannst ég ekkert framúrskarandi leikmaður þegar ég var yngri en fyrst ég var valinn í pressuliðið og Shellmótsliðið á Shellmótinu í Eyjum hlýt ég nú eitthvað hafa getað. Ég stækkaði frekar seint eða um fermingaraldurinn, ég hafði alltaf verið miðjumaður og var t.d. markahæstur fyrsta árið mitt í öðrum flokki en það er síðan ekki fyrr en ég fer að koma inn inn í meistaraflokkinn sem Jankó var þá að þjálfa, sem ég færist niður í hafsentinn og þar hef ég verið síðan þá.
Besta jólagjöfin
Ég valdist í einhver úrtök efnilegra leikmanna en man að ég var ekki valinn í það fyrsta og man hversu ósáttur ég var en sem betur fer notaði ég það sem bensín og æfði bara meira. Ég byrjaði að spila með öðrum flokki þegar ég var í þriðja og æfði bara með öðrum flokki, við vorum ekki það margir í mínum árgangi. Ég komst á bekkinn í meistaraflokki þegar ég var á fyrsta ári í öðrum flokki en þá var Guðjón Þórðarson með meistaraflokkinn. Grindavík féll og eftir það spilaði ég nánast eingöngu með meistaraflokki, þ.e. síðustu tvö árin í öðrum flokki spilaði ég ekki mikið þar því ég var alltaf að spila með meistaraflokki. Það var auðvitað frábært tækifæri að byrja svo ungur að spila á fullum krafti í meistaraflokki og þarna er hafsentinn orðin mín staða og það leið ekki á löngu þar til boð um atvinnumennsku kom inn á borð til mín. Daginn eftir lokahófið 2014 flaug ég til Álasund í Noregi og var til reynslu í nokkra daga og man hversu glaður ég var fyrir jólin þegar ég fékk samningsboð, þetta var klárlega besta jólagjöfin þau jólin.“
Atvinnumennskan ekki alltaf dans á rósum
Það tók smá tíma fyrir Daníel að komast í liðið hjá Álasund en svo festi hann sig í sessi.
„Ég var búinn að stefna að atvinnumennsku í nokkurn tíma, æfði mikið aukalega þegar ég var í FS, var á afreksbraut sem þýddi að við æfðum frá klukkan 8 til 10 í stað þess að vera í bókunum, ég lyfti oft í hádeginu svo ég æfði eins og atvinnumaður á þessum tíma. Það voru viðbrigði að fara út en sem betur fer fór Ásdís Vala konan mín með mér, það var gott að hafa hana og fá stuðning frá henni. Ég byrjaði fyrsta leikinn en svo var þjálfarinn rekinn og þá breyttist mín staða og það reyndi vissulega á. Sumir vilja meina að maður sé ekki búinn að „meika það“ fyrr en eftir tíu ár í atvinnumennsku, ég held að það sé eitthvað til í því. Það getur ýmislegt komið upp á, þjálfaraskipti eins og fljótlega eftir að ég gekk til liðs við Álasund, meiðsli koma upp hjá flestum og ég hef fengið minn skerf af því, hef tvisvar þurft að fara í aðgerð vegna þess að ég fór úr axlarlið. Það þarf að vera með sterkan haus, líf atvinnumannsins er ekki bara dans á rósum svo ég er ansi stoltur yfir því að vera á mínu ellefta ári í atvinnumennsku.

Ég var í fimm og hálft ár hjá Álasund, var virkilega búinn að stimpla mig inn undir lok annars tímabilsins og var lykilmaður þar til ég vildi prófa nýja hluti. Þeir höfðu séð mig í landsleik þar sem ég lék sem vinstri bakvörður svo ég byrjaði í þeirri stöðu en átti síðan góðan fund og var gefinn séns á hafsents-stöðunni og hélt þeirri stöðu til loka ferilsins hjá Álasund. Þegar ég átti innan við sex mánuði eftir af samningnum mátti ég tala við önnur lið og tók ákvörðun um að ganga til liðs við Blackpool í Englandi. Þeir vildu síðan fá mig fyrr svo ég var keyptur til liðsins sem þá var í C-deildinni í Englandi. Það hafði lengi verið draumur að spila í Englandi og þetta var góður tími fyrir utan að ég fór úr axlarlið og missti því talsvert úr auk þess sem þetta er á þeim tíma sem covid var í gangi. Þetta voru viðbrigði, ég fór úr gervigrasfótbolta í alvöru karlafótbolta má segja, við fórum upp úr C-deildinni upp í Championship deildina. Ég aðlagaðist nokkuð fljótt og var í liðinu en svo fór ég úr axlalið og þurfti að fara í aðgerð.

Þegar ég kom til baka úr meiðslunum var erfitt að komast í liðið og úr varð að þeir leyfðu mér að fara og ég samdi við Slask Wroclaw í Póllandi. Við fjölskyldan kunnum mjög vel við okkur þar en það var ýmislegt í fótboltakúltúrnum sem ég kunni ekki að meta svo við vorum bara í eitt og hálft þar. Þriðja barnið okkar var á leiðinni og ég lýsti yfir áhuga á að yfirgefa félagið og því var mjög gott þegar Sönderjysk í Danmörku sýndi mér áhuga og keypti mig. Ég er að klára annað tímabilið mitt og þetta hentar okkur fjölskyldunni eftir talsvert flakk. Ég skrifaði undir fjögurra ára samning og við vonumst til að vera hér í einhvern tíma því okkur líður mjög vel hér, Daninn er líkur okkur Íslendingum. Ég tel mig eiga talsvert inni og mun vonandi geta leikið sem atvinnumaður lengur en núverandi samningur gildir. Sönderjysk var í næstefstu deild þegar ég kom og við fórum beint upp, þetta er langtímaverkefni má segja og ég er ánægður að fá að taka þátt í að byggja þetta félag upp. Liðið er í bæ sem heitir Haderslev og er við landamærin að Þýskalandi. Okkur fjölskyldunni líður mjög vel hér, við eigum þrjú börn, strákur fæddur 2018 og tvær stelpur, fæddar 2021 og 2023,“ segir Daníel.

Yfir 20 landsleikir
Daníel var ekki valinn í unglingalandslið fyrr en hann var byrjaður að spila reglulega með Grindavík og fyrsta kallið kom frá U-19 landsliðinu. Hann lék talsvert með U-21 en kom ekki til álita í A-landsliðið fyrr en 2021 má segja.
„Ég var kallaður í einhver úrtök, t.d. fyrir U-17 en komst ekki í liðið. ´95 árgangurinn var sterkur og sendum við t.d. tvö lið til leiks á Norðurlandamótið sem var haldið á Akureyri en ég komst í hvorugt liðið. Eftir að ég spilaði með U-21 var ég þrisvar valinn í A-landsliðsverkefni eftir áramót þar sem m.a. var farið til Bandaríkjanna. Eric Hamren sem tók við af Heimi var þá með liðið en svo tók Arnar Viðars við og þá byrjaði ég almennilega að spila. Þetta var auðvitað erfiður tími hjá landsliðinu eftir ótrúlegt gengi gamla bandsins. Ég hef haldið sætinu meira og minna síðan þá og er kominn með rúma tuttugu A-landsleiki. Ég var meiddur þegar Arnar Gunnlaugs tók við í sínum fyrstu leikjum en er búinn að heyra í honum. Ég er inni í myndinni og verð vonandi hluti af hópnum sem verður valinn fyrir leikina í sumar. Svo byrjar næsta undankeppni í haust, fyrir HM. Við erum með Frökkum, Úkraínu og Azerbaijan í riðli og ég tel raunhæft markmið vera að ná öðru sætinu, sem gefur umspil. Mér líst vel á Arnar sem þjálfara og er spenntur fyrir framtíðinni. Ég er á góðum stað hjá mínu félagsliði, er heill eftir síðustu axlaraðgerð og held mér vonandi heilum en maður getur aldrei sagt til um það. Það eina sem maður getur gert er að reyna bæta sig, maður má aldrei vera sáttur því þá getur maður sofnað á verðinum en fyrir utan atvinnumennskuna er ég í fjarnámi í viðskiptafræði við Háskólann á Akureyri. Ég á að geta náð í einn til tvo samninga í atvinnumennsku í viðbót en hvort maður endar ferilinn á Íslandi er ómögulegt að segja til um en það yrði gaman að enda ferilinn með Grindavík,“ sagði Daníel Leó að lokum.
