Bygg
Bygg

Íþróttir

Einvígi Garðbúanna
Garðbúarnir Guðjón Guðmundsson og Björn Vilhelmsson börðust hatrammlega á æfingum Víðis á sínum tíma.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 10. maí 2025 kl. 06:05

Einvígi Garðbúanna

Um helgina mun koma í ljós hver tippmeistari Víkurfrétta tímabilið ´24-´25 verður og ekki nema alger undur og stórmerki gerist, er ljóst að baráttan er á milli Garðbúanna Guðjóns Guðmundssonar og Björns Vilhelmssonar. Sá fyrrnefndi er með 27 rétta, Björn er með 26 og næstur kemur Brynjar Hólm með 21 leik réttan. Síðastur en jafnframt vinsælasti keppandinn (Dalalíf), er trommarinn geðþekki Joey Drummer, með 15 leiki rétta.
Forystusauðurinn Guðjón Guðmundsson ætlar sér að halda jarðtengingu þar til yfir lýkur.

„Eftir að hafa leikið knattspyrnu í „töttögu og femm ár“ hefur talsvert mikil reynsla safnast í bankann hjá mér og ég ætla mér að nýta hana. Þetta er enginn munur milli mín og míns gamla Víðisfélaga og vitandi hversu mikill keppnismaður Björn er, þá veit ég að ég má ekki slaka á í eina einustu sekúndu. Mig grunar að ég þurfi ellefu rétta á laugardaginn, ég lá alla vega mjög vel yfir þessum seðli og eigum við ekki bara að segja að ég jafni minn besta árangur til þessa, 12 réttir á fyrsta seðlinum sem ég keppti,“ segir Guðjón.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Björn Vilhelmsson var alltaf þekktur fyrir mikla baráttuhörku á sínum knattspyrnuferli og er greinilegt að hann tekur hörkuna með sér í tippleik Víkurfrétta.

„Það er bara einn réttur leikur á milli mín og Guðjóns, annar eins munur hefur verið unninn upp og gæti ég ritað heila opnu í Víkurfréttum af knattspyrnuleikjum sem ég tók þátt í að snúa við taflinu. Nú gildir bara að beita sálfræðinni á Guðjón, reyna að komast inn í hausinn á honum, ég mun íhuga það leikskipulag vel í aðdraganda helgarinnar. Ég er alls ekki búinn að gefast upp og ætla mér eftir sem áður að vinna þennan leik og mæta á Wembley 17. maí,“ sagði Björn.

Brynjar Hólm sér eftir á að hyggja að hann fagnaði Englandsmeistaratitli Liverpool full glaðlega og því fór sem fór.

„Ég var smeykur um að fagnaðarlætin myndu koma mér í bobba í tippleiknum. Mér var bara mikið í mun að hjálpa mínum mönnum að landa Englandsmeistaratitlinum og tek þann titil frekar en tippmeistara Víkurfrétta, með fullri virðingu fyrir þeim frábæra titli. Ég sé sæng mína upp reidda og hlakka til að sjá einvígi Garðbúanna,“ sagði Brynjar.

Joey var borubrattur að vanda.

„Ég virkilega trúði fyrir þessar tvær lokaumferðir, sá töluna 33 fyrir mér sem hefði þýtt að ég hefði tekið 13 rétta í þeim báðum. Stundum dreymir manni einhverja vitleysu svo ég neyðist til að játa mig sigraðan í þessum leik en ég ætla mér að enda þetta með reisn og ætla að vinna daginn, helst með 13 réttum,“ sagði Drummsen.