Styrkjum til sex verkefna úthlutað úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar
Styrkjum úr Menningarsjóði Suðurnesjabæjar var formlega úthlutað á sumardaginn fyrsta, þann 24. apríl síðastliðinn. Athöfnin fór fram á Bókasafni Suðurnesjabæjar. Að þessu sinni hlutu sex verkefni styrki fyrir samtals 1.960.000 krónur, en alls bárust níu umsóknir innan umsóknarfrests. Ein umsókn barst of seint til að koma til greina við úthlutun.
Þau sem hlutu styrk í ár voru:
Kristjana Kjartansdóttir og Helga S. Ingimundardóttir – fyrir gerð söguskiltis við Prestvörðu í Leiru. 500.000 kr.
Þekkingasetur Suðurnesja – vegna markaðs- og kynningarverkefnis tengt Háskólaþjónustu setursins. 250.000 kr.
Bogi Jónsson – fyrir lokafrágang við listaverkið Sólgangur. 150.000 kr.
Byggðasafnið á Garðskaga – fyrir fræðslu um gömlu jólin og jólasiði. 110.000 kr.
Bókasafn Suðurnesjabæjar – fyrir annan áfanga málþings um rithöfundinn Ingibjörgu Sigurðardóttur sem hefði orðið 100 ára í ár. 550.000 kr.
Sigurbjörg Hjálmarsdóttir og Kári Sæbjörn Kárason – fyrir tónlistar- og bókakvöldið Inn með gleði og frið. 400.000 kr.
Í reglum sjóðsins kemur fram að hlutverk hans sé að efla menningarlíf í Suðurnesjabæ með því að styrkja einstaklinga og félagasamtök til virkrar þátttöku í menningarstarfsemi. Sjóðurinn fær árlegt framlag úr fjárhagsáætlun bæjarins og getur auk þess tekið við gjöfum til að styðja menningarverkefni.