Bygg
Bygg

Aðsent

Nemenda- og fjölskylduráðgjafar  í grunnskólum Reykjanesbæjar
Föstudagur 9. maí 2025 kl. 06:20

Nemenda- og fjölskylduráðgjafar í grunnskólum Reykjanesbæjar

Í grunnskólum Reykjanesbæjar starfa ráðgjafar sem sinna nemendum og foreldrum þeirra. Markmiðið með þessum störfum er að mynda góð tengsl við heimilin og brúa bilið á milli heimilis og skóla. Stór þáttur ráðgjafanna er að aðstoða nemendur og foreldra þeirra sem er eru að glíma við skólaforðun, líðan og tilfinningar.

Á unglingastigi vinna ráðgjafar með foreldrum/aðstandendum og unglingnum sjálfum til að finna leiðir saman til að fá nemanda til að mæta í skólann. Unnið er með tilfinningar, og fundið út í sameiningu hvað er að valda þessu og stundum eru gerðir samningur um hvernig nemandi ætlar að mæta betur og sett upp skref sem unnið er eftir. Þessu er svo fylgt eftir með reglulegum fundum, í gegnum skilaboð, sms eða tölvupósta. Það kemur fyrir að ráðgjafi fari heim til nemenda til að koma þeim af stað og er þetta allt gert í miklu og þéttu samstarfi við foreldra/aðstandendur. Einnig er unnið með líðan nemenda á unglingastigi og annan vanda sem þau eru að glíma við.

Með yngri nemendur er reynt að koma inn eins snemma og hægt er ef barn er t.d. að glíma við kvíða eða annan tilfinningavanda. Unnið er með fjölskyldu nemenda um hvernig er best að fyrirbyggja kvíðann, hvað er hægt að gera svo að barni líður betur. Skoðað er hvernig gengur heima og hvernig gengur í skólanum og hvaða leiðir er best að fara. Mikilvægt er að komast að niðurstöðu með fjölskyldunni um hvernig og hvað er best að vinna með þannig að allir gangi í takt, að barnið fái sömu skilaboð heima og í skóla um skólasókn og mikilvægi þess að mæta í skólann. Það hefur borið á því að yngstu börnin fái að vera heima þegar þau eru að glíma við kvíða því það er erfitt að senda barnið sitt grátandi í skólann, ef það finnur til í maganum og fl. sem getur bent til kvíða. En okkar reynsla er sú að ef þau fá að vera heima í tíma og ótíma verður það fljótt að vinda upp á sig og erfiðara að mæta í skólann og tilfinningar, bæði foreldra og barn,a fara í mikið ójafnvægi.

Bílakjarninn
Bílakjarninn

Grundvöllur þess að vinnan gangi vel er náin samvinna með nemendum og foreldrum/forráðamönnum. Snemmtæk íhlutun skiptir máli fyrir alla aðila og mikilvægt að foreldrar/forráðamenn finni góðan stuðning frá skólanum þannig að það myndi traust á milli aðila þannig að góð samvinna heimila og skóla verði til fyrirmyndar.

Flest allir grunnskólar í Reykjanesbæ eru með ráðgjafa sem starfa að fullu eða í hlutastarfi í þessum málum, þessi vinna hófst í mars 2023, fyrst í einum skóla og þetta skólaár 2024 – 2025 hafa eins og fyrr segir, flest allir skólar unnið í þessa átt. Árangur af vinnunni er góður og þau mál sem hafa reynst flókin á einhvern hátt hafa fengið farveg í samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna og þau unnin nánar með velferðarsviði Reykjanesbæjar. Segja má að þessar nýju stöður í grunnskólum Reykjanesbæjar séu enn í þróun og er hver skóli að vinna og þróa þessar stöður út frá sínum skóla. Unnið er eftir sama grunni og vonandi með tímanum verður til sérkunnátta í hverjum skóla.

Jenný Þórkatla Magnúsdóttir, fjölskyldufræðingur
í Holtaskóla.