Góð þátttaka í Stóra plokkdeginum
Stóri plokkdagurinn fór fram sunnudaginn 27. apríl og var fólki hvarvetna í Reykjanesbæ boðið að taka þátt í átaki til að hreinsa umhverfið með því að tína rusl í sínu nærumhverfi. Sett voru upp plokk-ker á fjórum stöðum í bænum þar sem hægt var að skilja eftir ruslið, en auk þess gátu íbúar sent póst á umhverfismiðstöðina til að láta sækja það.
Sjálfbærniráð Reykjanesbæjar fagnar vel heppnuðum degi og sendir þakkir til allra þeirra sem tóku þátt og lögðu hönd á plóg við að fegra bæinn. Í ljósi þess að veðrið á Suðurnesjum getur verið skrautlegt og vindasamt vill ráðið minna á að mikilvægt sé að plokka líka á venjulegum dögum – jafnvel í stuttu rölti.
„Saman getum við gert Reykjanesbæ að fallegum og snyrtilegum bæ alla daga, ekki bara þegar við höldum sérstaka plokkdaga,“ segir í bókun ráðsins. Það sé mikilvægt að bæjarbúar haldi áfram að taka þátt í að hlúa að umhverfi sínu, hver á sinn hátt.