Mikil aukning í heimsóknum í íþróttamannvirki Suðurnesjabæjar
Íþrótta- og tómstundaráð Suðurnesjabæjar lýsir yfir ánægju sinni með mikla aukningu í heimsóknum í íþróttamannvirki sveitarfélagsins á fyrsta ársfjórðungi ársins. Samkvæmt nýjustu tölum hefur heimsóknum fjölgað um 29,8 prósent miðað við sama tímabil í fyrra, sem samsvarar 17.250 fleiri heimsóknum.
„Þessar tölur sýna svart á hvítu hversu mikilvæg starfsemi fer fram í þessum mannvirkjum,“ segir í afgreiðslu ráðsins.
Aðstaðan í íþróttamannvirkjum bæjarins nýtist vel og fjölbreytt. Þar fer m.a. fram kennsla í skólaíþróttum og sundi fyrir báða grunnskóla sveitarfélagsins, starfsemi frístundaheimilanna, þrekæfingar fyrir eldri borgara og unglinga, sundæfingar, vatnsleikfimi og fjölbreytt hóptímastarf. Þá má nefna karla-jóga, þrektíma, zumba, pilates, spinning, línudans og ekki síður þrjár mismunandi jógaæfingar með Mörtu. Einnig er boðið upp á æfingar í júdó, körfubolta, handbolta og fótbolta, auk fjölmargra viðburða sem halda utan um öflugt tómstunda- og íþróttalíf í bænum.
Ráðið telur þessa aukningu staðfesta að fjárfesting í íþróttamannvirkjum skili sér með bættri lýðheilsu, öflugri samfélagsþátttöku og ánægðari íbúum.