Bygg
Bygg

Mannlíf

Sviðamessa Lions í Grindavík haldin með pompi og prakt
Bryggjan var þétt setin.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
sunnudaginn 1. desember 2024 kl. 07:00

Sviðamessa Lions í Grindavík haldin með pompi og prakt

Sviðamessan færð á Bryggjuna vegna mikillar ásóknar

„Ég samþykkti að taka við formennskunni u.þ.b. einu og hálfu ári áður en þessi ósköp gengu yfir í Grindavík,“ segir Eiríkur Óli Dagbjartsson, formaður Lionsklúbbs Grindavíkur en hin árlega sviðamessa þeirra var haldin föstudaginn 1. nóvember. Sviðamessan í fyrra var það síðasta sem gert var fyrir rýmingu og það hefur verið áskorun að halda starfinu gangandi síðan hremmingarnar gengu yfir í Grindavík en mikil stemning skapaðist fyrir sviðamessunni í ár, sem var það fyrsta sem Lions-menn í Grindavík gátu gert í Grindavík.

Oftast hefur sviðamessan verið haldin á Sjómannastofunni Vör en sökum mikils áhuga þurfti að færa messuna í glæsilegan sal Bryggjunnar. Vilhjálmur Lárusson, matreiðslumaður, sem rekur Sjómannastofuna Vör, mætti með pottana og starfsliðið og úr varð dýrinds veisla og höfðu menn á orði að sviðin hefðu bragðast einstaklega vel.

Menn stigu í pontu og ein kona gerði það sömuleiðis, Kristín Linda Jónsdóttir sem er í fimmta sæti á lista Sjálfstæðismanna í Suðurkjördæmi fyrir komandi kosningar. Venjulega er sviðamessan herrakvöld en Kristín og ein önnur kona úr Sjálfstæðisflokknum héldu uppi heiðri kvenna. Það var ekki bara Sjálfstæðisfólk sem mætti, Miðflokksmenn mættu líka og Bergþór Ólafsson steig í pontu og reitti af sér brandara. Menn sungu saman og söngvarinn Geir Ólafsson sem nýlega gaf Grindvíkingum lag, tók nokkur vel valin lög.

Bílakjarninn
Bílakjarninn
Formaður Lionsklúbbs Grindavíkur, Eiríkur Óli Dagbjartsson

Eiríkur hefði líklega geta valið sér betri tíma til að taka við formennsku í Lionsklúbbi Grindavíkur.

„Ég tók við hlutverkinu í sumar en starfið okkar hefst venjulega á haustin. Þegar allt er eðlilegt er fundað tvisvar sinnum í mánuði. Ég var búinn að samþykkja að taka við formennskunni af Herði Jónssyni sem var á undan mér, u.þ.b. einu og hálfu ári áður og auðvitað gat maður ekki séð fyrir hvað var framundan í Grindavík. Þetta hefur verið krefjandi en klúbbmeðlimir eru samstíga og þetta hefur gengið nokkuð vel myndi ég segja. Það er sniðugt hvernig Lions gerir þetta, það er alltaf starfandi þriggja manna stjórn með formanni, gjaldkera og ritara, svo er varanefnd líka klár og situr fundina með aðalstjórninni árið á undan og er því tilbúin að taka við stjórninni. Þetta er raun svipað og alheimsforseti Lions gerir, hann byrjar sem þriðji varaforseti og gengur svo upp ár frá ári og endar sem forseti, er því búinn að hafa góðan tíma til að kynna sér starfið áður en hann tekur svo við. Alheimsforsetinn var einmitt í heimsókn hjá okkur á dögunum og var gaman að setja sig í hlutverk leiðsögumannsins og segja frá því sem borið hefur á góma í Grindavík frá því að hamfarirnar áttu sér stað. Fabrizio Oliveira var djúpt snortinn að sjá Grindavík ég held að þessi heimsókn hans muni ekki minnka líkurnar á að Grindavík fái rausnarlega aðstoð frá hjálparsjóði Lions en hefð er fyrir því að alheimsforsetinn taki við formennsku í sjóðnum að loknu starfi sínu sem alheimsforseti.“

Tvíburabræður

Það er gaman frá því að segja að Eiríkur og Lionsklúbbur Grindavíkur eru nánast eins og tvíburabræður.

„Lionsklúbbur Grindavíkur var stofnaður 1. maí árið 1965 og ég leit heiminn fyrsta sinni tveimur vikum áður, 16. apríl. Því lít ég nokkurn veginn á okkur sem tvíburabræður en ég er búinn að vera félagi í Lions í u.þ.b. tuttugu ár og kann afskaplega vel við mig í þessum félagsskap. Við ætlum að stefna á að funda einu sinni í mánuði í vetur í stað tveggja, menn eru tvístraðir út um allt og við fengum inni í höfuðstöðvum Lions í Kópavogi og kunnum þeim bestu þakkir fyrir. Hver veit, kannski getum við flutt fundina til Grindavíkur en tíminn verður bara að leiða það í ljós, mönnum fannst frábært að geta haldið sviðamessuna en hún var einmitt það síðasta sem við gátum gert í fyrra áður en ósköpin dundu yfir. Það er gott hljóð í okkur Lionsmönnnum og við munum halda ótrauðir áfram,“ sagði Eiríkur.

Jón Steinar Sæmundsson.

Mest í slagtogi við sjálfan sig

Jón Steinar Sæmundsson er ljósmyndari í fremstu röð og hafa myndir hans vakið verðskuldaða athygli. Hægt er að sjá myndir hans á Facebook-síðunni Báta og bryggjubrölt.

„Jú, það má kannski segja að það komi fyrir að ég sé hinum megin við myndavélina en ekki sjálfur í viðtali. Það var gaman að koma á þessa sviðamessu, þetta er í fyrsta skipti sem ég kem og ég skemmti mér hið besta, sviðin voru einstaklega góð. Ég er ekki félagi í Lions og er ekki í neinum slíkum félagsskap, er bara mest í slagtogi með sjálfum mér.

Hlutirnir eru farnir að líta betur út í Grindavík, búið að opna bæinn og lífið eykst dag frá degi. Ég vinn hjá Vísi og held að mér sé óhætt að segja að við séum komnir á full afköst. Ég hef verið alla daga í Grindavík að undanförnu en við fjölskyldan settumst að í Innri-Njarðvík, keyrslan í vinnuna er eins stutt og hugsast getur og við ætlum að sjá hvernig málin þróast og munum væntanlega flytja til baka við fyrsta tækifæri. Ég tek myndavélina eiginlega alltaf með mér, ég hef tekið mjög margar myndir af bátum og skipum og svo hef ég líka myndað talsvert af landslagi. Hvort eða hversu góðar myndirnar eru verða aðrir að dæma um, það er enginn dómari í eigin sök. Ég á mikið af myndum af landslaginu hér í kringum Grindavík fyrir þessa atburði, það verður gaman að bera þær myndir við nýjar myndir af sama svæði, gjörbreyttar aðstæður,“ sagði Jón Steinar.

Björn Haraldsson, Bangsi í Bárunni.

Getum séð um okkur sjálf

Björn Haraldsson, öðru nafni Bangsi í Bárunni, hefur ekki látið margar sviðamessurnar fram hjá sér fara.

„Ég stoppaði stutt við í Lionsklúbbi Grindavíkur á sínum tíma, ég hef venjulega verið hálf utanveltu en ég hef alltaf reynt að koma á þessa sviðamessu ef ég hef verið heima. Mér finnst þessi matur mjög góður og félagsskapurinn er alltaf góður og líklega er þetta besta sviðamessan sem ég hef farið á, það er svo gaman að loksins sé búið að opna Grindavík og ég hef á tilfinningunni að nú sé leiðin bara upp á við. Í gríni hefur mér verið núað upp úr því að vera ekki fæddur og uppalinn Grindvíkingur en margir þeirra eru flúnir út úr bænum með skottið á milli lappanna en hér er ég ennþá og er ekki á förum. Við hjónin búum í Auðsholti austur í hverfi, þetta er fallegasti staður í heimi og er það næsta við himnaríki að okkar mati.

Varðandi framtíð Grindavíkur þá verður þetta að fara í gang ekki seinna en í gær! Það er mjög jákvætt að búið sé að opna bæinn og nú þurfum við bara að losna við Almannavarnir og lögreglustjórann, við getum séð um okkur sjálf,“ segir Bangsi.

Geir Ólafsson.

Gaf Grindvíkingum lag

Söngvarinn Geir Ólafsson er venjulega gjafmildur maður og sérstaklega þegar jólahátíðin nálgast en hann hefur undanfarin ár staðið fyrir glæsilegri jólasýningu með galakvöldverði, Las Vegas Christmas show.

„Ég er ekki meira „celeb“ en þeir Grindvíkingar sem eru hér í kvöld, þeir eiga heiður skilinn að vera komnir á þessa skemmtun og ætla sér að byggja bæinn upp. Þegar beiðnin um að troða upp á skemmtuninni barst mér var þakklæti það fyrsta sem flaug upp í huga minn, þakklæti yfir að það sé hægt að halda skemmtun hér á nýjan leik. Ég var nýbúinn að gefa Grindvíkingum lag að gjöf en lagið er reyndar bandarískt en með texta eftir Kristján Hreinsson, einn færasta textahöfund Íslands. Hann undirritaði textablaðið og gaf bæjarstjórn Grindavíkur og ég er mjög stoltur að fá að koma að þessu verkefni, ekki síst þar sem heimsfrægir tónlistarmenn spila í laginu. Ég get nefnt menn eins og Bernie Dresel sem er talinn á meðal bestu trommara í heiminum, Don Randi sem vann mikið með Elvis Presley og ótal fleiri. Þetta eru sömu spilarar og spila undir í Las Vegas Christmas show sem ég hef verið með undanfarin ár, þeir gáfu allir vinnu sína við spila inn á þetta lag og ekki nóg með það, þeir spurðu mikið hvernig Grindvíkingar hefðu það. Það var gaman hvernig ég komst í kynni við þessar kanónur, það byrjaði árið 2003 þegar við vorum að reyna að fá Nancy Sinatra til að halda tónleika hér. Það gekk ekki en Don Randi bauð mér í staðinn að koma út til Hollywood og syngja á veitingastaðnum sínum og það gekk mjög vel og góð kynni tókust á með okkur.

Salan á showið gengur vel en þetta er mjög gott kvöld myndi ég segja, það er þriggja rétta galakvöldverður og frábært show, ég hlakka mikið til,“ sagði Geir að lokum.

Villi kokkur kemur einbeittur með rjúkandi svið og Dóri í Vík fylgist grannt með.