Stapi var uppeldisstöðin okkar - Magnús og Jóhann sungu í sextugum Stapa
Á 60 ára afmæli Stapa sneru félagarnir Magnús Þór Sigmundsson og Jóhann Helgason, betur þekktir sem Magnús og Jóhann, aftur á vettvanginn þar sem þeir tóku fyrstu alvöru skrefin og léku nokkrar af sínum bestu perlum fyrir gesti. Víkurfréttir tóku þá tali baksviðs eftir tónleikana þar sem þeir segja frá æfingatímum í húsinu, fyrstu giggum, sérstöku „símasamstarfi“ og nýju efni.
„Þetta var uppeldisstöð, ekki spurning,“ segir Jóhann þegar við hittum þá bakviðs eftir tónleika í Stapa á afmælisdeginum. Þeir muna ekki nákvæmlega hvenær þeir komu fyrst fram í húsinu, en nefna árin 1965 til 1968 sem upphafstíma. Jóhann steig snemma á svið með Rofum, Magnúsi var síðar boðið með í þá hljómsveit, „af því hann var svo góður á gítar“.
Húsvörðurinn lykillinn að húsinu
Ólafur Sigurjónsson, húsvörður í Stapa á fyrstu árunum, réði miklu um það að ungt tónlistarfólk fengi aðstöðu til æfinga í þessu glæsilega samkomuhúsi í Njarðvík. „Óli var mjög góður við okkur,“ segir Jóhann. „Hann skildi þetta mjög vel,“ bætir Magnús við: „Hann gerði sér grein fyrir að við gætum orðið þeir sem kæmu hér og spiluðu á böllunum síðar.“ Þeir fengu oft lykil, komu inn eftir skóla og æfðu frameftir.
Aðstaðan var til fyrirmyndar á sínum tíma segja þeir félagar. „Þetta var frábært hús, við fórum á sviðið, skruppum svo niður í kjallara og fengum okkur pásu,“ segir Magnús og brosir. Undir sviðinu var rými með leikmunum og geymslu sem hentaði vel í pásum milli lota á sviðinu.
Stapi var miðpunktur skemmtana. „Þetta voru svo spennandi tímar, það var eitthvað nýtt að gerast í músíkinni á hverjum degi,“ segir Magnús. Jóhann rifjar upp eftirminnilega stund þegar Trúbrot kom fyrst fram í húsinu, það var stórt augnablik fyrir unga tónlistarmenn á svæðinu.
Tveir og síminn
Samstarf Magnúsar og Jóhanns hefur varað í áratugi og á fyrstu árunum var tækni þess tíma notuð til hins ítrasta með símalagasmíðum. „Við hringdumst á og sungum bara fyrir hvorn annan í símann,“ segir Jóhann. „Það voru stóru svörtu símarnir,“ bætir Magnús við og útskýrir hvernig þetta fór fram: „Jói, ég er búinn að semja nýtt lag, lagði símtólið á borðið og spilaði lagið.“
Sjálflærðir á sínum forsendum
Hvorki Magnús né Jóhann fóru langa formlega leið í tónlistarnámi. „Ég fór í einn gítartíma,“ segir Magnús og lýsir því að tíminn hafi verið hálfgerð vonbrigði. Hann hafi viljað læra hljóma en tíminn hafi gengið hægt fyrir sig og Magnús byrjaði á gítar með aðeins þrjá strengi.
Jóhann lærði á gítar sem var uppi á vegg heima hjá honum sem var eign systur hans en hún var í skátunum. Hann segist reyndar fyrst hafa notað gítarinn til að stríða kettinum sínum. Með því að draga neglur eftir strengjum setti kötturinn upp kryppu og loðið skott.
„Svo komu Bítlarnir og þá voru bílskúrsbönd í öllum bílskúrum. Þá varð ég að læra á gítarinn. Sævar, bróðir Gunna Þórðar, gaf mér gítarhefti og þar lærði ég vinnukonugripin og þau voru augljós. Svo var mér sagt að ég þyrfti að læra þvergrip, því annars væri ég ekki gjaldgengur í bandið. Mér fannst það algjörlega yfirstíganlegt þetta þvergrip og var ekki með neina bók um það. Þá fór ég og hitti Gissur, sem var að kenna á gítar í Njarðvík, og hann kenndi mér þvergripin. Þegar þú ert búinn að læra eitt þá kanntu öll hin,“ segir Jóhann.
Húsband í Rockville
Stærsta beygjan hjá Magnúsi var að yfirgefa sjóinn. „Ég var á mótorbátnum Mumma og sagði skipstjóranum að ég ætla að hætta þegar við komum í land, ég ætla að verða tónlistarmaður.“ Hann hló fyrst, en Magnús fór í land og æfði „sex til sjö klukkutíma á dag, marga mánuði“. Þegar þeir hittust síðar rifjaði stýrimaðurinn upp söguna brosandi.
Félagarnir voru húsband árum saman í Rockville. „Við sungum American Top 40,“ segir Jóhann en það voru fjörutíu efstu lögin í hverri viku á vinsældalistanum í Ameríku í þá daga. „Þar lærðum við hvernig lög verða til, hvernig á að semja, og hvernig á að sinna röddum og útsetningum kvöld eftir kvöld.“
Ný plata, ný lög, sama eldmóður
Þrátt fyrir að vera orðnir „70 plús“ segir Magnús að „sára lítill munur sé á innri manni, maður er enn 16 ára í huganum“. Hann samdi nýlega texta. „Ég samdi textann í fyrradag, lag sem kviknaði eftir að hafa séð nýja kvikmynd um Bob Dylan. Mig langaði að upplifa tímabilið aftur.“
Magnús segir frá nýrri plötu. „Ég lofa þig líf“ heitir hún,“ útskýrir hann, safn laga sem rekja tilfinningar og minningar „allt frá því ég var 8 til 9 ára í fjörunni heima og áfram“. Lögin eru 16 talsins og hann segist mjög ánægður með plötuna.
Jóhann er einnig á kafi í lagasmíðum og er nýbúinn að gefa út plötu en um hvað er hún? „Mikið um ástina og lífið í víðu samhengi,“ segir hann. Magnús bætir við, „Mér fannst ég endurheimta Jóa frá því fyrir 1970 og eitthvað, allt í einu fór hann að syngja hátt eins og ég þekkti, ég mæli eindregið með plötunni.“
Stapi í hjartanu
Að lokum snúa þeir aftur að afmælisbarninu sjálfu. „Stapi gaf okkur tækifæri, rými og trú, og það skiptir öllu þegar maður er að byrja,“ segir Jóhann. „Stapi var og er heimavöllur,“ bætir Magnús við.
Bræðurnir Baldur og Júlíus Guðmundssynir með þeim Magnúsi og Jóhanni en báðir „dúettarnir“ komu fram á 60 ára afmæli Stapans. VF/pket.





