Kalka
Kalka

Mannlíf

Staða ungmenna á vinnumarkaði: Sonja Bjarney Róbertsdóttir Fisher
Sonja Bjarney ásamt öðrum flokkstjórum
Thelma Hrund Hermannsdóttir
Thelma Hrund Hermannsdóttir skrifar
mánudaginn 4. júlí 2022 kl. 07:00

Staða ungmenna á vinnumarkaði: Sonja Bjarney Róbertsdóttir Fisher

Sonja Bjarney Róbertsdóttir Fisher, flokkstjóri í vinnuskóla Reykjanesbæjar, segir vanta úrval og fjölbreytileika fyrir ungt fólk á vinnumarkaðnum. 
Af hverju ákvaðstu að sækja um þessa vinnu? 

Ég ákvað að sækja um þessa vinnu vegna þess að ég hef unnið í vinnuskólanum síðustu tvö sumur þannig það lá bara beinast við. 

Hvað ert þú að gera í vinnunni?

Ég þarf að hafa yfirsýn með krökkunum og sjá til þess að þau séu að vinna. Þau náttúrlega koma hingað til þess að læra að vinna þar sem þau eru bara að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaðnum. Síðan tekur maður auðvitað stundum í skófluna og hjálpar þeim.

Nýsprautun sumardekk
Nýsprautun sumardekk
Hvað er það skemmtilegasta við vinnuna þína? 

Fólkið sem vinnur með þeim, bæði krakkarnir og hinir flokkstjórarnir. Þetta er svo góður félagsskapur og gott félagslíf í vinnunni.

Hvar sóttir þú um fyrir sumarið?

Ég sótti bara um í vinnuskólanum.

Var erfitt fyrir þig að finna sumarvinnu?

Nei, ég vissi svona nokkurn veginn hvað ég vildi og ætlaði að gera og ég fékk þá vinnu.

Hvernig finnst þér staða ungs fólks á vinnumarkaðnum vera núna? 

Eins leiðinlegt og það er þá finnst mér lítið í boði fyrir þennan hóp. Í raun býðst ungmennum bæjarins bara að fara í vinnuskólann eða vinna uppi á flugvelli, það er ekki mikið meira í boði en það. Að mínu mati er staðan því frekar slæm hvað varðar úrval og fjölbreytileika í starfi.

Fannst þér mikið í boði fyrir fólk á þínum aldri? 

Eins og ég segi, það er alls ekki nógu mikið í boði. 

Hvað mætti gera til þess að koma til móts við ungmenni á vinnumarkaði? 

Ég er ekki alveg viss hvað væri hægt að gera, það mætti kannski skapa fleiri sumarstörf hjá bænum. Mér dettur ekkert annað í hug. Sem dæmi fá tuttugu aðilar vinnu í átján ára hópnum í vinnuskólanum, í Covid voru mun fleiri sem fengu inn í þann hóp. Það væri ekki vitlaust að endurskoða þá tölu.