Mannlíf

Spenntur fyrir nýju starfi
Jón Hilmarsson
Jón Hilmarsson skrifar
föstudaginn 26. nóvember 2021 kl. 07:50

Spenntur fyrir nýju starfi

Einar Sveinn er nýr slökkviliðsstjóri Grindavíkur

Nýráðinn slökkviliðsstjóri Grindavíkur, Einar Sveinn Jónsson er fæddur og uppalinn Dalvíkingur en kynntist konu frá Grindavík og hefur búið þar síðustu 22 ár, á fjögur börn og líkar vel. „Það er margt líkt með Dalvík og Grindavík, ekki of stórt samfélag og þú þekkir marga í röðinni í búðinni og það verður einnig til ákveðinn samheldni við slíkar aðstæður, sem er gott,“ segir Einar Sveinn.

Bakgrunnur úr forvörnum og slökkvistarfi

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Ég hef unnið síðustu 10 ár hjá Öryggismiðstöðinni sem tæknimaður með sérhæfingu í þjónustu á slökkvitækjum og  ásamt uppsetningu og eftirliti á stórum slökkvikerfum auk þess sem ég hef starfað hjá Brunavörnum Suðurnesja við sjúkraflutninga í Grindavík á bakvöktum síðustu ellefu ár.

Ég hef töluverða reynslu sem slökkviliðsmaður, fyrst frá Dalvík og síðan hér í Grindavík síðustu 18 ár og hef aflað mér töluverðar þekkingar á þessu sviði í gegnum tíðina og sótt þau námskeið og skóla til að fá löggildingu sem slökkviliðsmaður auk þjálfunar- og stjórnunarréttinda og eldvarnareftirlits.“

Útkallslið sem sinnir fjölbreyttum verkefnum

Slökkvilið Grindavíkur er útkallslið, það er einn fastráðinn starfsmaður sem er slökkviliðsstjórinn en síðan er tuttugu manna hópur sem hittist einu sinni í mánuði og tekur fjögurra tíma æfingu. Þegar útkall kemur eru send skilaboð á allan hópinn og þeir mæta sem eru heima. „Við erum mjög röskir af stað, líklega um fjórum mínútum eftir að útkall er sent út hvenær sem er sólarhringsins, er fyrsti bílinn farinn frá stöðinni með 6 -7 mönnum full græjaður og klár í verkefnið.“

Starfssvæði Grindavíkur nær frá Reykjanesvita, að Seltjörn og síðan að langleiðina að Strandarkirkju. „Siðan erum við með samstarfssamninga við Brunarvarnir Suðurnesja, Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins og Brunavarnir Árnessýslu um verkefni sem þarf aðstoð við á hvorn veginn sem er,“ segir Einar Sveinn.