Mannlíf

Skipperinn fær ekki að fara fram fyrir röð
Jón Páll í hlutverki hrottans í Hrauninu.
Laugardagur 1. nóvember 2014 kl. 12:42

Skipperinn fær ekki að fara fram fyrir röð

Jón Páll Eyjólfsson ræðir um illmennið sem hann lék í Hrauninu

Það hafa fá fúlmenni vakið jafnmikla athygli á skjám landsmanna, líkt og Skipperinn gerði í spennuþáttunum Hrauninu, sem sýndir voru á RÚV á dögunum. Hrottinn húðflúraði var túlkaður af Keflvíkingnum Jóni Páli Eyjólfssyni, en hann átti stórleik í þáttunum.

„Í augum áhorfenda varð ég Skipperinn en ég breyttist ekki í manninn sjálfan. Við höfum ákveðnar hugmyndir um svona mótórhjólakappa og hvers konar fúlmenni þeir eru. Ég þurfti eiginlega að vinna á móti gervinu, skegginu, skallanum og tattúunum. Ég held að það sé óhugnalegast, þegar skrímslin eru mannleg. Skrímslin sækja líka börnin á leikskóla, kaupa í matinn í Bónus og borga af lánunum sínum. Við viljum auðvitað að svona skrímsli búi í kjöllurum eða á afviknum stöðum, við viljum ekkert að þau gangi á meðal vor,“ segir Jón Páll um glæpamanninn skeggjaða.

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

„Maður sleppir ekki svona tækifæri, að fá að leika almennilegt djúsí illmenni“

Í Hrauninu segir af umdeildum útrásarvíkingi sem finnst látinn. Upphefst æsispennandi atburðarás þar sem margar persónur koma við sögu. Það er óhætt að segja að segja að persóna Jóns Páls hafi vakið hvað mesta athygli. Jón Páll var að enda við að leika í kvikmyndinni París norðursins áður en upptökur hófust á Hrauninu, en þar skartaði hann ágætis skeggi. Hann lét skeggið svo vaxa villt fyrir Hraunið. Í þáttunum skartaði hann ansi vígalegu útliti sem leðurklæddur, skeggjaður, sköllóttur og flúraður glæpamaður.

„Ég þurfti svo að fórna hárinu, sem var svo sem ekki mikið. Við búningahönnuðurinn völdum svo saman tattúin í samráði við leikstjórann. Það er oft talað um leikara sem túlkandi listamenn en ekki skapandi. Alltaf þegar leikari tekur að sér hlutverk þá skapar hann ákveðinn hluta persónunnar,“ segir Jón sem sjálfur hefur talsvert verið að fást við leikstjórn. Í raun mætti segja að hann fengist nánast eingöngu við leikstjórn, en hann tekur að sér bitastæð hlutverk annað slagið. „Maður sleppir ekki svona tækifæri, að fá að leika almennilegt djúsí illmenni,“ en persónan Skipperinn hefur vakið talsverða athygli á götum úti, þar sem Jón Páll skartar ennþá skegginu myndarlega. „Ég er með svona rautt og mikið víkingaskegg. Þú mátt segja Balta ef þú hittir hann að ég sé með massa Víkingaskegg,“ segir Jón Páll léttur í bragði.

„Ég er búinn að fá mikil viðbrögð frá alls kyns fólki. Ég er jafnvel stoppaður í Bónus og svona þar sem ég er ennþá með skeggið. Þannig að Skipperinn er stundum í Bónus. Ég fæ samt ekkert að fara fram fyrir röð.“ Jón Páll á skemmtilega sögu frá Skippernum, en hann mætti sem mótórhjólakappinn í foreldraviðtal í skólanum hjá dóttur sinni. Þar horfði fólk frekar undarlega á hann. „Það endaði með því að ég þurfti að útskýra fyrir kennaranum að þetta væri ekki alvöru, að ég hefði ekki tattúerað mig milli foreldraviðtala,“ segir leikarinn.
Jón Páll hefur í nógu að snúast þessi dægrin. Hann er m.a. að kenna í Listaháskólanum og ætlar að sækja trúðanámskeið á næstunni hjá virtum meistara. Hann leikstýrir svo leikritinu Gaukar sem er á fjölum Borgarleikhússins um þessar mundir, en ýmis önnur járn eru í eldi Keflvíkingsins snjalla.

Jón Páll í fullum skrúða sem Skipperinn.