Samfylkingin
Samfylkingin

Mannlíf

Sjokkeraðist þegar ég sá hnífinn
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 29. janúar 2021 kl. 07:19

Sjokkeraðist þegar ég sá hnífinn

– segir Sigurður Björgvinsson sem varð fyrir óskemmtilegri reynslu á Benidorm

„Ég sjokkeraðist alveg þegar ég sá að hann tók upp þennan svakalega hníf, skildi ekkert hvað væri að ske. Maðurinn réðst á mig og stakk mig í siðuna vinstra megin. Við það kastaði ég mér niður og greip um andlitið, en hann stakk mig í herðarnar og rispaði mig einnig víðar um líkamann á meðan ég lá. Félagi hans kom þá að og tók hann með sér og hlupu þeir svo á brott. Þetta voru Bretar, en síðast þegar ég vissi hafði ekki tekist að hafa upp á þeim,“ sagði Sigurður Björgvinsson.

Hann var í fríi með Keflavíkurliðinu í knattspyrnu á Benedorm, þegar hann varð fyrir þeirri óskemmtilegu reynslu að verða fyrir árás ókunnugs manns er hann var á gangi um miðjan dag ásamt einum félaga sinna úr liðinu. Sigurður var fluttur í sjúkrahús þar sem gert var að meiðslum hans, og lá þar í 2 daga. Á vinstri síðu hans er 30 cm langur skurður og þurfti um 70 spor til að sauma hann saman, en auk þess þurfti um 10 spor annars staðar á líkama hans.

Sigurður kom heim aðfaranótt miðvikudags í síðustu viku og var skoðaður, en dvelur nú heima við og jafnar sig eftir þetta.

„Þetta tekur rosalega á taugarnar, maður er ennþá í sjokki, þetta var svo óvænt svona um miðjan dag, að þetta skyldi ske. En málið er bara það, að svona hlutir eru alltaf að ske af og til í öðrum löndum, þó það komi ekki slík atvik fyrir hér á landi, en það er öruggt, að ég fer ekki til Spánar í bráð,“ sagði Sigurður að lokum. - pket.

VF.is birtir eldra efni af síðum Víkurfrétta sem fögnuðu nýlega 40 ára útgáfuafmæli. Meðfylgjandi grein birtist 13. október 1983.