Langbest
Langbest

Mannlíf

Óvenjulegur afli
Gunnlaugur Sveinbjörnsson sýnir hér hluta hins óvænta afla. „Ég er þvi miður búinn með nokkra“. VF/pket
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 1. mars 2023 kl. 17:55

Óvenjulegur afli

Sjómaður í Sandgerði fann 22 bjóra úti á rúmsjó við Garðskaga

„Jú, það er víst óhætt að segja að ég hafi byrjað þjóðhátíðardaginn snemma,“ sagði Gunnlaugur Sveinbjörnsson, sjómaður í Sandgerði, en hann fékk óvæntan feng í veiðiferð sinni á laugardag fyrir 17. júní, en það voru 22 bjórdósir. Þetta kemur fram í Víkurfréttum 28. júní 1984. 

Gunnlaugur var á bát sínum, LOGA GK 121, rétt fyrir innan Garðskaga þegar hann sá fyrstu dósina í sjónum. „Það var af rælni að ég tók dósina upp úr sjónum. Mér datt ekki í hug að hún væri full af bjór. Síðan fór ég að líta í kringum mig og þá tíndi ég þær upp hverja af annarri á litlu svæði og kassann utan af dósunum fann ég líka þarna í grenndinni. Álið í dósunum er svo létt og þetta litla fríborð sem í þeim er, gerir það að verkum að þær fljóta,“ sagði Gunnlaugur.

Stjórnendafélag Suðurnesja
Stjórnendafélag Suðurnesja

En hvernig fiskaðist annars í túrnum? „Ekkert rosalega, um 400 kíló af fiski. Það er ekki nema von að maðurinn fiski ekki, með fullan bát af bjór. Annars trúði ég þessu nú ekki fyrst þegar Gulli sagði mér þetta í talstöðina, með bjórana. En síðan var talað um það sjómanna á milli að Gulli væri farinn á barinn og tæki því þjóðhátíðina snemma,“sagði Hörður Kristinsson, sjómaður og félagi Gunnlaugs um þetta happ hans.

„Gamall sjómaður sem var með mér á síld í Norðursjónum sagði mér eitt sinn, að bjórinn væri bestur þegar hann væri ekki til. Ég er honum sammála og hann kom sér vel og smakkaðist mjög vel, ískaldur úr sjónum, og vil ég nota hér tækifærið og þakka þeim sem hentu honum fyrir borð. Hann komst í góðar hendur,“ sagði Gunnlaugur Sveinbjörnsson.

Svo virðist sem Sandgerðingar þefi upp vínanda úr sjónum því fyrir all nokkrum árum fannst 50 lítra tunna á reki á svipuðum stað og bjórinn, full af rauðvíni. Ekki fylgdi sögunni hver afdrif hennar urðu. - pket.

Fréttin er birt hér á vf.is á degi bjórsins, 1. mars.