Mannlíf

Óvænt tímaferðalag Með blik í auga
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 4. október 2020 kl. 07:02

Óvænt tímaferðalag Með blik í auga

Rokkveislan mikla lokaði áratug tónleikaraðarinnar. Blikið búið í bili. Óvíst hvað eða hvort það komi meira upp úr hatti þremenninganna Kristjáns, Guðbrands og Arnórs.

„Blik í auga er búið í bili. Sýning með sögumanni og myndum í bland við tónlist – en það verða áfram tónleikar og ekki síst á Ljósanótt. Blikið hefur svolítið snúist um Ljósanótt ár hvert og hún þróast eins og annað en samstarf okkar vinanna gengur vel og við eigum fullt af hugmyndum í hattinum. Kannski komum við einhverri í framkvæmd. Maður hættir ekki að leika sér þegar maður verður gamall, maður verður gamall þegar maður hættir að leika sér,“ segir Kristján Jóhannsson, sögumaður og einn úr þríeykinu að baki tónleikaraðarinnar Bliks í auga.

Alvöru rokkveisla

Rokkveislan mikla var heiti á tónleikunum í ár og er óhætt að segja að það hafi verið alvöru veisla. Eitt besta gigg Bliksins að margra mati. Frábær blanda af góðum söng og tónlist þar sem gítarleikararnir fóru iðulega á kostum. Víkurfréttir heyrðu í Kristjáni eftir tónleikana og spurði hann út í þetta skemmtilega ævintýri sem hefur verið á Ljósanótt í áratug, nema nú voru tónleikaranir síðar í september.

„Forveri Bliks í auga tónleikanna er auðvitað Hátíðartónleikar á Ljósanótt sem voru síðdegis á sunnudegi ljósahátíðarinnar. Þeir höfðu verið við lýði í nokkur ár í samvinnu við Tónlistarfélag Reykjanesbæjar,“ segir Kristján.

Kristján og Arnór Vilbergsson höfðum tengst Hátíðartónleikum Ljósanætur, Arnór sem tónlistarstjóri og Kristján sem nefndarmaður í Tónlistarfélaginu. „Þetta voru klassískir tónleikar þar sem mikið var lagt upp úr efnisvali. Jóhann Smári Sævarsson, stórbassi, leikstýrði og þetta var heljarinnar ferli með mörgum kórum og stórri hljómsveit. Sýnt var einu sinni en æft tuttugu sinnum. Eftir þessa tónleika árið 2010 fékk ég þessa hugmynd að tónleikum sem færu aðeins meira í poppið. Ég vildi gera sýningu þar sem blandað yrði saman tónlist og sagðar sögur af tíðaranda og myndir með. Arnóri leist strax vel á.“

Kristján og Arnór fóru fljótlega til fundar við Valgerði Guðmundsdóttur, menningarfulltrúa, sem leist strax vel á hugmyndina. Að sögn Kristjáns hófst undirbúningur fyrstu tónleikanna strax að lokinni Ljósanótt og má því segja að það hafið tekið eitt ár. „Það kom fljótt í ljós að Arnór hafði ekkert vit á tónlist tímabilsins 1950 til ‘70, þannig að það varð meira að ég kom með lögin en hann hafði neitunarvald. Þegar lagalistinn lá fyrir fór hann að útsetja og ég að skrifa handrit. Við leituðum að söngvurum úr okkar nærumhverfi og hljóðfæraleikurum líka. Allt heimamenn.“

Útlit tónleikanna hannað

Kristján segist strax hafa haft mjög mótaðar skoðanir á því hvernig útlit tónleikanna ætti að vera. „Það yrðu allir að vera í réttum klæðnaði og allir sem komu fram yrðu farðaðir og dömurnar fengju hárgreiðslu. En það var ekki nóg. Mér fannst ekki nóg að hafa einn sögumann, heldur þyrfti að brjóta dagskrána upp með þuli. Þá dugði ekkert minna en einn ástsælasti þulur Ríkistútvarpsins í frumrauninni, Gerður G. Bjarklind. Ég man vel hvað hún tók þessu erindi mínu vel og þáði enga greiðslu, bara miða á tónleika. Heyrði svo dillandi hlátur hennar á sýningunni. Það var notalegt.“

Þeir Blik í auga-menn hafa grínast með það í gegnum tíðina að upphafsmennirnir væru ágætir í að skipuleggja svona viðburði en vantaði meiri staðfestu í fjármálastjórnunina. „Við Arnór komumst fljótlega að þvi við yrðum að hafa almennilegan framkvæmdastjóra. Bubbi, Guðbrandur Einarsson, var því fljótlega hækkaður úr stöðu óbreytts píanóleikara í hljómsveitinni í það að verða þriðji hlekkurinn í keðjunni – og það verður að segjast að samstarf okkar þriggja hefur lukkast afskaplega vel.

Við kölluðum fyrstu sýninguna einfaldlega ‘Með blik í auga’ eftir frægu lagi Hauks Morthens. Það var eftirvænting í Andrews-leikhúsi þennan sunnudag. Tvær sýningar og uppselt á báðar. Allt tókst vel og mér er minnistætt að í hlé kom Valgerður Guðmunds, menningarfulltrúi, hlaupandi upp á svið og ég var viss um að nú ætlaði hún að hundskamma okkur – en það var öðru nær. Þetta lukkaðist og við skelltum í aukatónleika strax helgina á eftir. Eftir þá tónleika fórum strax að undirbúa næstu Ljósanótt og þá sýndum við þrisvar ‘Gærur, glimmer og gaddavír’ og ári seinna ‘Hanakamba, hárlakk og herðapúða’. Enginn smá nöfn,“ segir Kristján glottandi.

Eingöngu íslensk tónlist á fyrstu þremur

Kristján segir þá félaga hafa staðið á krossgötum 2014, þá búnir að taka fyrir íslenska tónlist áranna 1950–1990 í þremur sýningum. „Þá kom Bubbi með hugmynd að sýningunni ‘Keflavík og Kanaútvarpið’. Það var frábær hugmynd og þá tókum við þá ákvörðun að fá til liðs við okkur atvinnusöngvara. Ári seinna tókum við fyrir ‘Lög unga fólksins’, tvíbent heiti því margir misskildu okkur og héldum að við værum að fara að leika eitthvað nýmóðins – en það var öðru nær, sýningin var óður til gamla útvarpsþáttarins. Þegar Bubbi kom svo með hugmynd að sýningu með kántrílögum var mér öllum lokið og ég hélt að hann væri orðinn gjörsamlega galinn. Þegar ég hafði komist yfir það lagði ég til nafnið ‘Hvernig ertu í Kántríinu?’ Minningin kallar fram hlátur hjá Kristjáni. Hann segir að þegar hann líti til baka þyki honum einna vænst um þá sýningu. „Þar tókum við áhættu og jú, miðasala fór aðeins niður á við miðað við árin á undan en þetta heppnaðist fullkomlega. Þar áttu ekki síst hlut að máli Davíð Örn Óskarsson og Guðný Kristjánsdóttir sem hafa verið hluti af framkvæmdastjórninni svo að segja frá upphafi – en auk þeirra sýningarstjórinn Freydís Kneif Kolbeinsdóttir, Sandra Jónsdóttir á textavél, Margrét Sumarliðadóttir, hárgreiðslumeistari, og Sara Dögg Eiríkssdóttir, snyrtir.“

Eftirsótt að komast í „gigg“ hjá Blikurum

Tímamót urðu svo hjá þeim félögum árið 2017 en þá var sest niður snemma árs til að ræða verkefnið, hvað þeir vildu gera og hvernig. „Það varð úr að okkur langaði að gera fjórum  tímabilum skil, Soul, Diskó, Eighties og rokki. Arnór vildi fara strax í rokkið þarna árið 2017 en röðin varð svona því við Bubbi erum eldri og frekari. Hann fékk svo að blómstra í ár.“

Kristján segir mjög skýra verkskiptingu vera á milli þeirra félaga og svo koma aðrir að á síðari stigum. „Við félagarir byrjum yfirleitt í janúar að velta fyrir okkur lögum og svo er rifist og hlutirnir ræddir til niðurstöðu. Þá förum við að velta fyrir okkur söngvurum og þá verður oft breyting á lagavali – en í gegnum tíðina hefur það líka spurst út á meðal tónlistarmanna að það sé pottþétt „gigg“ að vinna með Blikurum og það þykir orðið eftirsótt að komast í sýningu hjá okkur. Það eru góð meðmæli.“

– En hvað stendur uppúr á þessum tíu árum?

Kristján verður hugsi á svip. „Það stendur upp úr hvað við höfum verið ótrúlega heppnir með allt okkar samstarfsfólk. Sama teymið búið að vera með frá upphafi. Svo má ekki gleyma fjárhagslegum bakhjörlum sem hafa staðið með okkur allan þennan tíma, án þeirra hefði þetta aldrei geta orðið eins veglegt og raunin varð. Miðasalan ein og sér dekkar ekki kostnað við svona sýningu. Fólk veit líka að hverju það gengur. Við skipuleggjum alla tónleika ótrúlega vel og okkar sýningar eru alveg á pari við sambærilegar sýningar sem boðið er upp á hérlendis en miðaverðið er helmingi lægra. Svo erum við ákaflega þakklátir áhorfendum okkar sem margir hafa komið á allar sýningarnar,“ sagði Kristján að lokum.

Rokkveisla Bliks í auga 2020