Umfjöllun: Keflvíkingar of sterkir fyrir Þórsara
„Það er aðeins önnur stemning í liðinu núna miðað við í fyrra og keppnisveturinn leggst vel í mig,“ sagði Hilmar Pétursson, næst stigahæsti leikmaður Keflvíkinga í góðum sigri á Þorlákshafnar Þórsurum í VÍS bikarnum í Blue höllinni í Keflavík. Lokatölur 102-90 og heimamenn sýndu allar sínar bestu hliðar í síðari hálfleik.
Keflvíkingar voru kaldir í fyrri hálfleik og náðu ekki að fylgja eftir góðri frammistöðu á móti Íslandsmeisturum Stjörnunnar í síðustu viku, sérstaklega í fyrsta leikhluta sem gestirnir úr Þorlákshöfn unnu 18-30. Heimamenn réttu aðeins úr kútnum í öðrum leikhluta með góðri baráttu og náðu að minnka muninn í 40–48 þegar flautað var til leikhlés.
Keflvíkingar mættu eins og nýtt lið í byrjun síðari hálfleiks og hreinlega völtuðu yfir Þórsara sem réðu ekki neitt við neitt. Flestir leikmenn heimamanna voru með gott framlag, vörnin gríðarlega sterk og hittnin mjög góð og uppskera þriðja leikhluta var 21 stig sigur, 34-13 og staðan eftir hann orðin 74-61.
Gestirnir náðu aðeins að klóra í bakkann í byrjun fjórða leikhluta en heimamenn gáfu aftur í og innisigluðu mjög góðan tólf stiga sigur.
Darryl L. Morsell átti stórleik hjá Keflavík, skoraði 28 stig og tók 14 fráköst. Fjölhæfur leikmaður. Sömuleiðis átti Hilmar Pétursson frábæran leik í vörn og sókn en hann skoraði 22 stig. Jaka Brodnik er leiðtogi í liðinu og drífur menn áfram eða hvetur. Hann var með 17 stig og 6 fráköst. Ólafur Björn Gunnlaugsson er skemmtilegur nýliði í Keflavíkurliðinu og stóð sig vel. Halldór Garðar og Valur Orri Valsson eru síðan leikmenn sem eru engir nýliðar, miklir liðsmenn og komnir með heilmikla reynslu sem nýtist vel í liðinu.
Daníel Guðni Guðmundsson, nýr þjálfari Keflvíkinga var sáttur í leikslok og við birtum viðtal við hann á morgun, þriðjudag með myndefni og myndaseríu úr leiknum
Keflavík-Þór Þ. 102-90 (18-30, 22-18, 34-13, 28-29)
Keflavík: Darryl Latrell Morsell 28/14 fráköst, Hilmar Pétursson 22, Jaka Brodnik 17/4 fráköst/6 stoðsendingar, Ólafur Björn Gunnlaugsson 13/7 fráköst, Valur Orri Valsson 9, Craig Edward Moller 8/9 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 5, Viktor Magni Sigurðsson 0, Dagur Stefán Örvarsson 0, Nikola Orelj 0, Jakob Máni Magnússon 0, Eyþór Lár Bárðarson 0.
Þór Þ.: Rafail Lanaras 28/7 fráköst/9 stoðsendingar, Jacoby Ross 17/5 stoðsendingar, Lazar Lugic 14/7 fráköst, Konstantinos Gontikas 11/6 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 7, Emil Karel Einarsson 6/4 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 5, Arnór Daði Sigurbergsson 2, Pálmi Geir Jónsson 0, Baldur Böðvar Torfason 0, Matthías Geir Gunnarsson 0, Ísak Júlíus Perdue 0.
Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Bjarni Hlíðkvist Kristmarsson, Einar Valur Gunnarsson.
Áhorfendur: 313.
Hilmar Pétursson og Ólafur Björn áttu báðir mjög góðan leik með Keflavík. VF/pket.