Kalka atvinna okt 25
Kalka atvinna okt 25

Íþróttir

„Gaman að taka við þjálfun Keflvíkinga sem stefna alltaf hátt“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 21. október 2025 kl. 11:02

„Gaman að taka við þjálfun Keflvíkinga sem stefna alltaf hátt“

Daníel Guðni Guðmundsson, þjálfari körfuknattleiksliðs Keflvíkinga var ánægður með sigur sinna manna á Þór Þorlákshöfn í Blue höllinni í Keflavík í leik liðanna í VÍS bikarkeppnni í körfubolta. Daníel Guðni tók við Keflavíkurliðinu í haust og hann segir byrjunina hafa verið þokkalega og sé bjartsýnn á veturinn framundan.

„Við vorum seinir í gang í þessum leik og lékum ekki þessa vörn sem við vorum að gera gegn Stjörnunni í síðasta leik okkar,“ en þá sigruðu Keflvíkingar Íslandsmeistara Stjörunnar með sannfærandi hætti og þá sérstaklega með góðri vörn. Hún var ekki alveg að virka í leiknum við Þór í fyrri hálfleik og gestirnir náðu mest 15 stiga forskot í fyrri hálfleik. Keflvíkingar komu hins vegar grimmir í síðari hálfleikinn og unnu sannfærandi sigur.

„Menn sáu það svart á hvítu eftir fyrri hálfleikinn hvað þyrfti að gera og mættu þannig í síðari hálfleik. Ég þurfti ekki að halda neina þrumuræðu. Menn sáu þetta sjálfir og mættu einbeittir til leiks í síðari hálfleik og þá hrukkum við í gang og unnum góðan sigur,“ segir þjálfarinn ungi.

Daníel Guðni segir virkilega gaman að vera kominn til Keflavíkur og taka þátt í starfinu hjá félaginu sem hefur verið gott í áratugi og metnaðurinn mikill. „Maður er náttúrlega uppalinn á svæðinu og ég þekki því marga hér. Menn og konur stefna alltaf hátt hjá Keflavík og þannig er það bara.  Þetta hefur gengið þokkalega vel í upphafi en síðan á tíminn eftir að leiða það í ljós hvernig okkur gengur. Það eru mörg lið sem eiga eftir að breyast eins og gengur og því ekki hægt að spá of mikið inn í framtíðina. Við erum með nýjan leikmann sem bíður leikheimildar og annan meiddan, tvo sterka leikmenn sem koma líklega inn í liðið fyrir næsta leik. Við þurfum bara að halda áfram að bæta okkur til að ná árangri,“ sagði Daníel Guðni.

Körfuknattleikur 2025-2026

Dubliner
Dubliner