RNB 17 júní
RNB 17 júní

Mannlíf

Leynigjóska í gosinu
Nemendur í jarðfræði á vorönn í FS með kennara sínum, Ester Þórhallsdóttur. VF-myndir/pket.
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 22. maí 2021 kl. 06:29

Leynigjóska í gosinu

Jarðfræðinemar í Fjölbrautaskóla Suðurnesja settu diska út í garð við heimili sín og söfnuðum sýnum í þrjár vikur frá upphafi gossins í Geldingadölum. Í ljós kom að gjóska kemur úr gosinu, mörgum að óvörum og dreifist í andrúmsloftinu eftir veðri og vindum. Nemendurnir skoðuðu sýnin sem komu á diskana í smásjá og sendu valin sýni til efnagreiningar hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands.

Nemendur í jarðfræði í FS unnu í vetur verkefni í tengslum við eldgosið í Grindavík. Jarðskjálftarnir á Reykjanesskaganum fyrir gos urðu kveikjan að því og Ester Þórhallsdóttir, kennari, undirbjó nemendurna þannig að ef gos hæfist myndu þeir hefja rannsóknarvinnu frá fyrsta degi. Nemendur söfnuðu fíngerðri gjósku frá fyrsta degi gossins með því að setja disk út í garð og tæma innihald hans annan hvern dag í um einn mánuð. Hundruð sýna voru tekin í flestum bæjarfélögum á Suðurnesjum, Grindavík, Vogum, Njarðvík, Keflavík og Garði. Gjóskan var síðan skoðuð undir smásjá. Hún var líka verið efnagreind og staðfest var að hún komi frá gosinu í Geldingadölum. Þetta verkefni er samvinna milli gjóskufræðingsins Maarit Kalliokoski hjá Norræna eldfjallasetrinu (NORDVULK) við Háskóla Íslands og jarðfræðikennarans Esterar Þórhallsdóttur og nemenda hennar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja.

Læra grunnatriði vísindastarfs

„Fíngerð eða smágerð gjóska úr sprengigosi berst langar leiðir, jafnvel þúsundir kílómetra en lítið er vitað hvort lítið hraungos framleiði fíngerða gjósku og hversu langt hún gæti dreifst. Þess vegna er áhugavert að safna og skoða gjósku. Nemendur hafa líka hugsað út í hvað hafi haft áhrif á magn gjóskunnar og skoðað veðurfar og hvað er að gerast á gosstöðvunum sem gæti haft áhrif á gjósku og gjóskumagn í sýnunum. Markmið verkefnisins snýst ekki síst um að efla samstarf milli vísinda og skólastarfs. Efla náttúrulæsi og kynnast nærumhverfinu. Læra grunnatriði vísindastarfs. Mikilvægi þess að safna sýnum og skoða þau,“ segir Ester.

Vonaðist eftir gosi

„Það eru forréttindi að fá að skoða nærumhverfi sitt, sérstaklega þegar gos er í nágrenninu. Þegar jarðskjálftarnir byrjuðu þá hreinlega vonaði ég að það myndi gjósa,“ segir Ester brosandi en hún hafði undirbúið nemendur sína á þann hátt að ef gos myndi hefjast ættu þau að vera tilbúin.

„Ég sendi þeim öllum skilaboð sama kvöld og gosið byrjaði um að setja disk út í garð. Þau gerðu það og héldu áfram í tæpan mánuð að safna gjósku og stóðu sig vel. Það er nefnilega svo gaman að skoða það sem maður hefur safnað sjálfur. Það setur þetta allt í meira samhengi.“

Ester segir að rannsóknarspurningin hafi verið: Kemur fíngerð gjóska úr flæðigosi í Grindavík?

„Ég veit ekki til þess að það séu til rannsóknir um það úr þess lags gosum. Niðurstaðan er sú að það kemur fíngerð gjóska úr gosinu í Grindavík. Það er búið að efnagreina hana og hún er með sömu efnasamsetningu og hraunið úr gosinu sem hefur líka verið efnagreint. Þetta er mjög fíngerð gjóska og við verðum hennar ekki vör í andrúmsloftinu. Oft kölluð leynigjóska. Maður skilur það hugtak mjög vel eftir þetta verkefni.“

Kom það ykkur á óvart að það kæmi gjóska úr gosinu?

„Já, það kom á óvart að það hafi verið gjóska. Ég bjóst alveg eins við hinu, að það væri ekkert í sýnunum. Viðbrögð nemendanna hafa verið ánægjuleg. Þau hafa verið áhugasöm. Það er mikilvægt að geta farið út fyrir skólastofuna sína og að fá tengingu við verkefni í sínu nærsamfélagi. Þetta eru vísindi, þau hafa verið að stunda vísindastarf sem er frábært.“

Áttu von á því að það verði framhald á næstu skólaönn?

„Það er aldrei að vita. Það er hægt að skoða gjóskuna áfram og setja diska aftur út í garð. Það eru ýmsir möguleikar.“

Hvað með loftgæði, þurfum við að hafa áhyggjur?

„Þetta er mjög smátt. Þá er stóra spurningin hvort þetta hafi áhrif á loftgæði. Það væri skemmtileg rannsóknarspurning. Krakkarnir fundu örplastþræði og glerkorn í gjóskunni, eitthvað sem er í loftinu hjá okkur. Þetta væri örugglega ekki mjög gott ef það væri mikið,“ segir Ester.

Guðbjörg Telma Þorvaldsdóttir.

Áhugavert og skemmtilegt

„Það var mjög áhugavert og skemmtilegt að skoða sýnin á sama tíma og maður er að læra þetta í skólanum. Um leið og það byrjaði að gjósa settum við diska út í garð. Við skoluðum diskana annan hvorn dag í þrjár vikur og söfnuðum efninu í poka og merktum með dagsetningu. Svo fóru pokarnir í efnagreiningu hjá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands. Það kom í ljós að það var gjóska í öllum pokunum en það er ekki búið að greina þá alla, segir Guðbjörg Telma Þorvaldsdóttir, nemandi í jarðfræði í FS.

Hún segir að það hafi komið á óvart hvað það kom mikið á diskana sem voru allir í byggð. „Það var ekki mikið fyrst en jókst þegar leið á og þá var hellingur í pokunum. Það var síðan mjög áhugavert að sjá þetta í smásjánni, þetta var ekki bara gjóska heldur líka plast og þræðir og fleira. Það var mjög skemmtilegt að vinna þetta verkefni í skólanum með gosið í næsta nágrenni. Þetta jók áhuga minn á þessu og ég gæti alveg hugsað mér að vinna við eitthvað svona í framtíðinni.“ 

Daði Fannar Reynhardsson.

Svipar til hrafntinnusteina

„Þegar við kíktum í smásjána sáum við að þetta eru rauðbrún glerbrot sem svipar til hrafntinnusteina. Þetta er ótrúlega smátt og ætti því ekki að vera hættulegt að anda þessu að sér. Við greindum ekki hversu mikið magn væri að koma inn í andrúmsloftið, höfum bara séð að það kemur gjóska úr gosinu. Við settum diska út í öllum sveitarfélögum og það var misjafnt eftir veðri og vindum hvað það kom mikið á þá. Við sáum hvaða efni voru í þessu eftir efnagreiningu sem gerð var í Reykjavík og eins í hvað miklu magni. Það er búið að vera mjög spennnadi að sjá eldgosið þróast og að vinna verkefni í jarðfræðitímum í skólanum tengt því. Ég er ekki búinn að fara að gosinu en ég stefni þangað, að minnsta kosti einu sinni,“ sagði Daði Fannar Reynhardsson, nemandi í FS.

Svona birtast gosagnir í smásjá.