Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Mannlíf

Leikföng eru stór hluti af sögunni
Helga Ingólfsdóttir þroskaþjálfi heldur sýningu á leikföngum um Safnahelgi.
Föstudagur 11. mars 2016 kl. 13:30

Leikföng eru stór hluti af sögunni

- Leikfangasýning í Virkjun á Ásbrú

Helga Ingólfsdóttir þroskaþjálfi heldur sýningu á leikföngum í Virkjun á Ásbrú núna um Safnahelgina. Helga hefur undanfarin ár safnað gömlum leikföngum og segir mikilvægt að varðveita leikfangamenningu enda séu leikföng stór en jafnframt svolítið vanmetinn hluti af sögu okkar. „Börn læra í gegnum leik með leikföng. Til dæmis læra þau hlutverkaleiki og að setja sig í spor annarra og að eiga í samskiptum,“ segir Helga og nefnir sem dæmi að sum börn eigi erfitt með að tjá líðan sína en geti tjáð hana með því að segja að bangsanum sínum líði illa. „Bangsar eru mikið notaðir í samskiptum við börn, til dæmis af lögreglunni og sjúkraflutningafólki og oft með góðum árangri.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
 
Á sýningunni verða ýmis gömul leikföng, svo sem dúkkur, Star Wars dót, bangsar og annað. Sólveig Sveinbjörnsdóttir, myndlistarkona, hefur aðstoðað Helgu við uppsetningu sýningarinnar en hún hefur mikla reynslu af hönnun og uppsetningum sýninga, bæði hér á Íslandi erlendis. Eins og áður sagði verður leikfangasýningin haldin í Virkjun við Flugvallarbraut 740 á Ásbrú. Virkjun er staður þar sem fólk hittist og vinnur að ýmsum verkefnum og er mikið af eldri borgurum sem þangað sækja reglulega. Helga hefur notið liðsinnis marga þar og kveðst afskaplega þakklát fyrir þá hjálp sem og að fá þar húsnæði til að setja sýninguna upp.
 
Byrjaði að sauma þjóðbúninga á dúkkur
Eitt barna Helgu er með fötlun svo hún var mikið heima við á tímabili. Þá byrjaði hún að prjóna og sauma þjóðbúninga á dúkkur. Helga hélt svo brúðusýningu á Ólafsfirði árið 2014. Nokkrar litlar brúður í þjóðbúningum verða á leikfangasýningunni í Virkjun núna um helgina. Síðar átti Helga eftir að dvelja mikið í Svíþjóð þar sem leikfangaáhuginn kviknaði fyrir alvöru. „Á þeim tíma var mikið um að gömul leikföng væru seld á mörkuðum í Svíþjóð og fyrir þau fékk fólk dágóðan pening. Þá var slíkt ekki byrjað hér á Íslandi. Þar byrjaði ég að safna og mörg leikfanganna í safninu mínu er þaðan.“ Flest leikföngin á sýningunni nú keypti Helga á nytjamörkuðum og á netinu. Meðal leikfanga á sýningunni eru postulínsdúkkur frá fyrri hluta síðustu aldar sem Helga fékk úr dánarbúi.
 
Varasamt að ánetjast tölvunni
Helga segir það áhyggjuefni að mörg börn leiki sér nær eingöngu í tölvum í dag en síður með leikföng. „Það er hið besta mál að börn læri á tölvur, það er þáttur í þróuninni en það má ekki ganga alla leið og leyfa þeim að ánetjast þessum tækjum. Oft eru tölvuleikir þannig að börn skjóta niður heilan her án afleiðinga og það er skrítin upplifun fyrir þau. Að vísu er það líka hægt með dúkkur en það er samt mín tilfinning að í dúkkuleikjum sé ekki eins mikið um dráp og í tölvuleikjum.“ Hún segir það því miður gerast allt of oft að börn ánetjist tölvum. „Það þekkja sennilega flestir að ef maður situr of lengi við tölvuna þá verður maður að passa sig því það er oft erfitt að standa upp aftur. Börn eiga auðveldara með að leggja frá sér leikföng en ókláraðan tölvuleik.“
 

 
Vill að stofnað verði safnasafn
Helga fagnar sjötugsafmæli sínu síðar á árinu. Hún á sér þann draum að leikföngin sem hún hefur safnað verði fólki til sýnis í framtíðinni. „Draumurinn er að það verði stofnað safnasafn hér á Suðurnesjum. Það eru svo margir sem eiga merkileg söfn. Það er draumurinn minn að það sem ég hef safnað hverfi ekki heldur að fólk geti notið þess áfram eftir minn dag. Ég held að nú um stundir séu síðustu tækifærin til að halda í þessa gömu leikfangahefð. Það er þeirra sem eiga ung börn að taka við keflinu af mér. Ég er búin að halda á því lengi og vil koma því áfram.“