Bílakjarninn hekla
Bílakjarninn hekla

Mannlíf

Lærði að lesa um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 11. júní 2022 kl. 08:15

Lærði að lesa um borð í Hrafni Sveinbjarnarsyni

„Þegar ég fer í ham á körfubolta leik, þá sóna ég bara út ...,“ segir Einar Hannes Harðarson

Einar Hannes Harðarson, sjómaður og formaður Sjómanna- og vélstjórafélags Grindavíkur (SVG), er mjög áhugaverður náungi fyrir margra hluta sakir. Hann var nær því að vera ólæs þegar hann útskrifaðist úr grunnskóla, gerðist þá háseti á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni og öðlaðist má segja nýtt líf. Hann lenti í frábærri áhöfn undir styrkri stjórn Hilmars Helgasonar og má segja að piltur hafi fyrst lært að lesa þá. Árið 2014 gerðist hann formaður SVG og það leiddi af sér setu í samninganefnd sjómanna í kjaradeilum við útgerðarmenn. Að samningaborðinu settist háttvirtur þáverandi sjávarútvegsráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, og þótti gömlu bekkjarsystkinum Einars alveg hreint lygilegt að sjá þau labba saman út af slíkum samningafundi. Hvernig gat þessi óalandi óþekktarormur frá æskuárunum, sem varla var læs, komið sér í þessa stöðu?

Einar er mikill karakter, lætur víða til sín taka og er ötull stuðningsmaður UMFG og hefur hann oft vakið athygli fyrir vaska framkomu á leikjum körfuknattleiksliðs Grindavíkur, tja kannski full vasklega en til er fræg mynd þar sem hann steytir hnefann í áttina að Kristni Óskarssyni, körfuknattleiksdómara, les honum pistilinn og má nánast lesa af baksvip Kidda, að hann sjái sæng sína út breidda. Bæði Kiddi og Einar hafa gert dauðaleit af þessari mynd og er hér með auglýst eftir henni, algerlega ógleymanleg mynd!

Bílakjarninn sumardekk 2024
Bílakjarninn sumardekk 2024

Einar byrjaði á að fara yfir sjómannsferilinn:

„Sjómannsferill minn er ansi einhæfur má segja en ég hef verið í sömu áhöfn alla mína hunds- og kattartíð. Ég var heppinn að fá pláss á frystitogaranum Hrafni Sveinbjarnarsyni frá Grindavík strax eftir útskrift úr grunnskóla og hef verið innan um sömu karlana meira og minna síðan þá. Ég var mjög heppinn með skipstjóra en Hilmar Helgason varð að nokkurs konar annarri föðurímynd minni, hann tók mig algjörlega undir sinn verndarvæng. Aðrir áhafnarmeðlimir gerðust nánast fósturpabbar mínir og einn þeirra kenndi mér í raun að lesa. Eftir vaktir var maður upptjúnaður og ég átti erfitt með að ná mér niður en Óli Völku benti mér á góða aðferð við að ná sér niður – að lesa bók. Þannig byrjaði ég smátt og smátt að ná tökum á lestrinum, byrjaði nánast á Litlu gulu hænunni og vann mig hægt og býtandi upp. Ég hef verið partur af þessari áhöfn allar götur síðan en við færðum okkur yfir á nýtt skip Þorbjarnarins, Tómas Þorvaldsson, árið 2018. Þar er annar, ekki síður frábær skipstjóri sem ég lít upp til sem föðurímyndar, Sigurður Jónsson. Ég uni hag mínum mjög vel þar, er mjög ánægður að vera partur af þessari áhöfn og hafa aldrei þurft að færa mig til í starfi.“

Eftir að hafa tekið sér smá pásu frá sjómennskunni og gerst „útrásarvíkingur“ eins og Einar orðaði það, en hann gerðist eigandi Mamma mia pizzastaðarins í Grindavík, þá sneri hann til baka í gömlu góðu áhöfnina á Hrafninum árið 2010. Það urðu síðan kaflaskil hjá honum þegar hann bauð sig fram til formanns SVG árið 2014. Hann hlaut góða kosningu, settist í stól formanns og hefur gegnt stöðunni síðan þá. Samkvæmt lögum SVG fær formaðurinn stöðu í samninganefnd sjómanna í kjaraviðræðum. Einar tók frægan slag í samningaviðræðunum árið 2017:

„Þegar ég gerðist formaður þá voru samningar sjómanna lausir en skv. lögum SVG þá er formaðurinn í leiðinni formaður samninganefndar SVG og hlýtur þannig stöðu í samninganefnd sjómanna. Það var u.þ.b. tveimur árum eftir að ég tók við formannsstöðunni sem samningafundir fóru að verða tíðari og það endaði með að skrifað var undir samning – sem sjómenn felldu. Að lokum náðu aðilar einhverju samkomulagi en samningar eru lausir í dag og gengur satt best að segja ekkert sérstaklega vel að ná saman, í raun er ekkert að frétta. En að sitja í svona samninganefnd er gífurlegur skóli, ég gæti alveg trúað að þetta jafnist á við háskólanám en það er rétt, félögum mínum fannst skrítin sjón að sjá mig labba af þessum fundi forðum með Þorgerði Katrínu, sjávarútvegsráðherra. Ég þótti örugglega ekki líklegur kandidat í það þegar ég gekk út úr grunnskólanum í hinsta sinn sem nemandi...“

Áhugamál Einars hafa lengi legið á íþróttasviðinu en hann er dyggur stuðningsmaður Grindavíkur í körfu- og fótbolta. Þar lætur hann oft til sín taka:

„Þegar ég fer í ham á leik þá sóna ég hálfpartinn út, það er bara þannig ... Á leik í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta, árið 2012 á móti Stjörnunni, þá fannst mér Kiddi Óskars, dómari, ekki vera standa sig í stykkinu og lét greinilega nokkur vel valin orð fylgja með á sama tíma og ég steytti hnefann í áttina að honum. Því miður náðist þetta augnablik á mynd en mikið grín hefur verið gert af mér og ég lenti næstum því í hundakofanum eftir þetta atvik en önnur föðurímynd mín, Magnús Andri Hjaltason heitinn sem var þá formaður körfuknattleiksdeildar UMFG, spurði mig hvað ég hefði eiginlega sagt. Ég einfaldlega hafði ekki hugmynd um það ... Við Maggi gerðum með okkur heiðursmannasamkomulag að eftir þetta atvik skyldi ég halda mig uppi í stúku, ekki svona við hliðarlínuna. Ég hef staðið við það síðan þá, eigum við ekki að segja að ég sé eitthvað að þroskast. Við Kiddi hlæjum af þessu atviki í dag en þessi mynd má ekki vera týnd og tröllum gefin, ég sé það núna og auglýsi hér með eftir henni.“

SVG kemur duglega að Sjóaranum síkáta en það nefnast hátíðarhöld Grindvíkinga á sjómannahelginni:

„Upp frá aldamótum hefur þessi stóra helgi okkar Grindvíkinga gengið undir nafninu Sjóarinn síkáti en þarna er verið að gera sjómanninum hátt undir höfði. Ég er gríðarlega ánægður með þróunina sem hefur orðið á þessum árum en í dag er þetta orðin sannkölluð fjölskylduhátíð. Aðkoma SVG er mjög stór og Grindavíkurbær kemur sömuleiðis ágætlega að helginni en kannski mætti frekar tala um þetta sem viku því ýmsir atburðir byrja í vikunni í aðdraganda sjómannahelgarinnar. Stemmningin magnast hægt og býtandi upp og á föstudeginum er hið svokallað bryggjuball en þá er bænum skipt upp í fjögur hverfi og fólkið mætir fylktu liði í skrúðgöngu að hátíðarsvæðinu við Kvikuna. Þar er brekkusöngur, fleiri skemmtiatriði og ein vinsælasta hljómveitin á Íslandi í dag, Stuðlabandið, heldur uppi stuði. Það eru síðan böll í Gígnum og á Bryggjunni seinna um kvöldið. Á laugardeginum er mikið um dýrðir sömuleiðis en alla helgina verður mikið húllumhæ á bryggjunni, leiktæki fyrir börnin og við höldum ennþá í þann gamla sið að láta berjast í koddaslag og sá sem tapar fær sundsprett í sjónum. Sunnudagurinn er síðan alltaf hátíðlegastur í augum okkar sjómanna en þá er sjálfur sjómannadagurinn. Þá eru gamlir sjómenn heiðraðir fyrir starf sitt en í ár munum við heiðra fimm heiðurssjómenn í sjómannamessunni í Grindavíkurkirkju. Um kvöldið er síðan alltaf hátíðarkvöldverður á Sjómannastofunni Vör. Þetta eru stundir sem mér þykir alltaf mjög vænt um.“

Einar á von á fjölmenni til Grindavíkur þessa helgi:

„Við Grindvíkingar höfum lært að það þýðir lítið að ætla semja við veðurguðina, við klæðum okkur eftir veðri. Eftir tveggja ára skemmtanaþurrð á ég von á miklu margmenni og verður gaman að taka á móti nýjum andlitum þessa helgi, það eru allir velkomnir.“