Leikfélag Keflavíkur
Leikfélag Keflavíkur

Mannlíf

Kvenfélagskonur klæddu sig upp
Sunnudagur 23. febrúar 2020 kl. 08:30

Kvenfélagskonur klæddu sig upp

Fundur hjá kvenfélaginu Gefn í Garði var með óvenjulegum hætti um daginn þegar kvenfélagskonur klæddu sig upp. Þema fundarins var sjónvarpsþáttaröðin góðkunna Downtown Abbey. Þá mættu um þrjátíu konur á fundinn með sparibollana sína og í viðeigandi klæðnaði sem tilheyrir þessum tíma.

„Kvenfélagskonur í Gefn kunna sko að skemmta sér og eru saman í kærleika og gleði. Við fórum saman í bíó, í tilefni af afmæli Kvenfélagssambands Íslands sem varð 90 ára 1. febrúar, og sáum íslensku kvikmyndina Gullregn. Það er alltaf þannig að þar sem kvenfélagskonur koma saman, þar er gaman,“ sagði Þórný Jóhannsdóttir, félagskona í Kvenfélaginu Gefn og varaforseti Kvenfélagasambands Íslands.

Public deli
Public deli

Gjafmildar konur í tilefni afmælisins

Kvenfélagasamband Íslands er 90 ára á árinu en það var stofnað 1. febrúar árið 1930 og er samstarfsvettvangur og málsvari kvenfélaganna í landinu. KÍ er fjölmennasta kvennahreyfingin á Íslandi. Í tilefni afmælisins munu kvenfélög um land allt standa fyrir söfnun og safna fyrir tækjum og hugbúnaði honum tengdum sem kemur til með að gagnast konum um land allt. Um er að ræða mónitora og ómtæki, nýja eða uppfærða eftir því sem við á, og rafrænar tengingar á milli landsbyggðar og Landspítala háskólasjúkrahús.

„Tækin munu nýtast öllum konum á Íslandi, hvort sem er á meðgöngu eða í fæðingu og einnig vegna skoðana vegna kvensjúkdóma. Tækin, sem safnað verður fyrir, geta aukið öryggi í greiningum og í mörgum tilfellum komið í veg fyrir að senda þurfi konur á milli landshluta vegna ýmissa óvissuþátta. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin hefur tileinkað árinu 2020 hjúkrunarfræðingum og ljósmæðrum. Það er okkur því sérstakt gleðiefni að safna tækjum sem nýtast þessum starfstéttum,“ segir Þórný.

Söfnun framundan

„KÍ er fjölmennasta kvennahreyfingin á Íslandi sem starfar á landsvísu, með sautján héraðssambönd, 154 kvenfélög sem telja um 5000 félaga. KÍ rekur þjónustuskrifstofu í Kvennaheimilinu Hallveigarstöðum þar sem veittar eru upplýsingar, ráðgjöf, stuðningur og fræðsla til kvenfélaganna og héraðssambanda þeirra. Konur í Kvenfélagasambandi Íslands hafa frá stofnun félagsins verið bakhjarl Landsspítalans og staðið fyrir söfnunum á peningum og tækjum sem hafa komið sér vel fyrir fjölmarga þegna landsins. Á meðan á söfnuninni stendur munu kvenfélagskonur út um allt land meðal annars selja falleg armbönd sem í eru grafin gildi sambandsins: Kærleikur, samvinna, virðing. Markmið okkar er að safna 36 milljónum króna en söfnuninni var rennt úr hlaði á Bessastöðum af forseta Íslands á afmælisdaginn og stendur yfir í eitt ár eða til 1. febrúar 2021. Kvenfélagsstörf eru unnin í krafti dugnaðar og fjölda, án endurgjalds, allt sjálfboðavinna. Störf kvenfélaganna eru mjög mikilvæg í víðum skilningi. Það er ekki síður mikilvægt fyrir kvenfélögin og meðlimi þeirra að tilheyra sterkri heild sem aðild að Kvenfélagasambandi Íslands veitir þeim,“ segir Þórný.

Konurnar eru svo skemmtilegar

„Ég gekk í Kvenfélagið Gefn í Garði árið 1990 vegna þess að það var alltaf eitthvað að gerast hjá þeim og var komin í stjórn eftir um það bil tvo mánuði. Svo voru þær að plana ferð til Þýskalands árið 1992 sem við skipulögðum vel, söfnuðum fyrir þessari ferð með því að bera út blöð, þrífa skóla og dvalarheimilið. Þetta var viðbót við hefðbundna starfsemi og mátti alls ekki skyggja á aðra fjáröflun svo sem basarinn okkar á fyrsta í aðventu og fleira. Ég er mikið félagsfrík og þykir einstaklega gaman að gefa af mér til góðgerðarmála. Vináttan við hinar konurnar er einnig dýrmæt en ég hef eignast mínar bestu vinkonur í gegnum félagskapinn og lært helling af þeim. Fyrrum formaður, Sigrún Oddsdóttir, var kennari minn, hún var einstök kona. Svo var mamma mín líka félagskona og systur mínar. Pabbi var líka heiðursfélagi í Gefn og teiknaði meðal annars merki félagsins og því eru ræturnar þarna. Slagorð okkar er: Kærleikur, samvinna og virðing. Það fæ ég út úr félagsstarfseminni. Það ríkir góð vinátta hjá okkur og konurnar eru svo skemmtilegar. Ég hef líka verið formaður Kvenfélagssambands Gullbringu- og Kjósarsýslu í fjögur ár og þar kynnist maður fjöldanum af konum af svæðinu. Það eru tíu félög innan vébanda okkar í KSGK, þar af fimm héðan af svæðinu. Þegar formennskunni lauk þar fóru kraftar mínir í að sinna starfinu á landsvísu. Ég er nú varaforseti Kvenfélagasambands Íslands sem hefur 154 félög innan vébanda sinna. Það starf er mikið og skemmtilegt,“ segir Þórný.

Lærum margt í félaginu

„Fundirnir okkar í Gefn hafa verið góðir. Við fáum reglulega fyrirlesara og tónlistaratriði, svo skemmtum við okkur sjálfar þess á milli. Við höfum farið fimmta hvert ár til útlanda. Þær ferðir hafa verið til Þýskalands, Spánar, Ítalíu, Kanada, í Austurrísku alpana og svo síðast til Búdapest. Þessar ferðir eru svo skemmtilegar að maður lifir á þeim í fimm ár eða þangað til að næstu ferð kemur. Þar sem við konur komum saman er gaman og kærleikur ríkir. Ég er stolt af því að vera í Kvenfélagi,“ segir Þórný Jóhannsdóttir að lokum.